Tveir unglingar voru handteknir á mótmælunum sem fóru fram á Austurvelli skömmu fyrir hádegi í dag. Myndbönd af handtökunni hafa farið í dreifingu samfélagsmiðlum. Á einu myndbandi, sem tekið var Mohammaed Alhaw, má sjá lögreglumenn halda á tveimur unglingspiltum og ganga með þá í átt að svæðinu á milli Alþingishússins og nýja skrifstofuhúsnæði Alþingis, Smiðju.
Samkvæmt sjónarvotti sem Heimildin náði tali af voru einstaklingarnir sem voru handteknir um sextán ára gamlir. Óljóst er hver tildrög handtökunnar voru en að sögn vitnis hafi einstaklingarnir tveir átt í snörpum orðaskiptum við lögreglu og annað ungmennanna hafi síðan ákveðið að ganga í burtu.
Í kjölfarið hafi lögreglan sótt að þeim og fært þá á bak við girðingu sem búið var að stilla upp fyrir framan Alþingishúsið. Þótti sjónarvotti handtakan vera ansi harkaleg og ofbeldisfull, sérstaklega í ljósi þess að um unga drengi var að ræða.
Drengirnir voru síðan, að sögn vitnis, beðnir um að framvísa skilríkjum og gefa lögreglu nafn og kennitölu. Drengirnir hafi hins vegar neitað og voru því færðir yfir í svartan sendiferðabíl.
Þá tilkynnti lögregla mótmælendum sem höfðu hópast í kringum sendiferðabílinn að til stæði að hafa samband við foreldra drengjanna, sem voru á þeim tímapunkti hættir að streitast á móti. Þá kom fram í samtali við sjónarvott að enginn fullorðinn fylgdarmaður hafi fylgt drengjunum með í sendiferðabílinn.
Ungmenni mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda
Nemendur í 8. bekk í Hagaskóla efndu til mótmæla á Austurvelli skömmu fyrir hádegi í dag. Þau voru líka sótt af ungmennum úr öðrum skólum. Á mótmælafundinum var stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart palestínskum flóttamönnum og stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs mótmælt.
Samkvæmt nýlegri frétt Heimildarinnar fóru mótmælin að mestu leyti friðsamlega fram. Örfá ungmenni tóku þó upp á því að kasta eggjum í þinghúsið sem leiddi til þess að lögregla hóf afskipti af þeim.
Mótmæli palestínskra flóttmanna fyrir utan Alþingishúsið hafa staðið yfir frá 27. desember. Þar hafa mótmælendur biðlað til stjórnvalda að bjarga fjölskyldumeðlimum þeirra sem enn eru fastir í Gasa á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Athugasemdir (1)