Síðasta sumar komst það í tísku hjá samfélagsmiðlanotendum í Kína að borða „mat hvíta fólksins“ sem eins konar form af sjálfspyntingu. „Hádegismatur þjáninga“ skrifaði einn undir mynd af hvítu brauði, skólaosti og skinku við góðar undirtektir samlanda sinna.
Kryddleysið sem einkennir mat hvíta fólksins þótti staðfesta að maturinn væri ekki til þess gerður að njóta hans, heldur væri ætlunarverkið að eyða sem minnstum tíma í eldamennskuna, þess til sönnunar birti fólk myndir af örbylgjumáltíðum, hráu grænmeti í skál, hvítum kjúklingi og brúnni sósu.
Verandi Íslendingur hefur mér aldrei fundist ég geta státað mig af neinni sérstakri matarmenningu, mér hefur alltaf boðið við þorramat og þykir pulsa með öllu ekkert sérlega tilkomumikill þjóðarréttur.
Áður en ég sá þetta hvíta-fólks-matar trend hafði ég samt aldrei gert mér fyllilega grein fyrir því að ég væri að tilbiðja á altari bragðleysisins. Auðvitað vissi ég að við hvíta fólkið í Skandinavíu gætum seint kallast spæsí en það hafði ekki hvarflað að mér að þessi staðlaði morgunmatur sem við elskum; egg, brauð, kál eða hafragrautur, væri sennilega ofarlega á lista yfir bragðlausustu máltíðir allra tíma.
Það er auðvitað ekki hægt að staðhæfa um allt hvítt fólk og hvað við fílum, þýskum vini mínum finnst til dæmis betra að drekka vatn við herbergishita heldur en ískalt, sem ég neita að láta bendla mig við. En bragðleysið virðist samt sem áður óneitanlega loða við menningu okkar.
Eflaust er það þess vegna sem við bjóðum indverska, mexíkóska, tyrkneska og taílenska matargerð velkomna í líf okkar, þó að fólkið fái ekki alltaf sömu meðferð. Eldamennskan hefur matinn okkar upp á hærra plan, víkkar sjóndeildarhringinn.
Þrátt fyrir að ég trúi á yfirburði annarrar matarmenningar klikkar það samt aldrei að eftir um tveggja vikna dvöl í útlöndum, þar sem gælt er við bragðlaukana frá sólarupprás til sólseturs, er fátt sem ég sakna meira en brauð með smjöri og osti. Ég bókstaflega þrái bragðleysið.
Ég veit að þessi tilhneiging er ekkert til að vera stolt af, og það er örugglega hægt að breytast, þroskast, krydda tilveruna aðeins meira, bragðbæta lífið, en ég mun samt aldrei segja nei við ristuðu brauði með osti.
Athugasemdir