Árið 2001 flutti Hannes Hólmsteinn Gissurarson íslensku þjóðinni þann merka boðskap að hún gæti orðið ríkasta þjóð í heimi. Í bókinni Hvernig getur Ísland orðið ríkasta þjóð í heimi? (Nýja bókafélagið 2001) var fagnaðarerindið sett fram með skýrum og afdráttarlausum hætti: Ef forskrift frjálshyggjunnar um frjálst atvinnulíf er fylgt þá munu alþjóðleg fyrirtæki og fjármagn laðast að landinu. Með skattalækkunum á fjármagn og fyrirtæki munu umsvifin aukast og skatttekjur ríkisins hækka. Auknar tekjur einstaklinga og fjölbreyttari atvinnutækifæri skapa jarðveg fyrir skattalækkanir einstaklinga síðar meir. Ísland getur orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð segir Hannes fullur bjartsýni.
Hannes er hér ekki að boða útrás og heimsyfirráð íslenskra athafnamanna, eins og síðar varð tískan, heldur huggulegt umhverfi fyrir erlent fjármagn á Íslandi. Umbætur frjálshyggjunnar skapa auðvitað einnig jarðveg fyrir innlenda athafnamenn, sem lausir undan hlekkjum og þunga ríkisvaldsins skapa verðmæti þar sem engin voru fyrir. Í bókinni er sett fram sú kenning að eðlilegur hagvöxtur hafi fyrst hafist á Íslandi árið 1991, þegar Davíð Oddsson hóf umbætur í anda frjálshyggju. Fyrir þann tíma hafi vöxtur efnahagslífsins fyrst og fremst snúist um ofveiði, stríðsgróða, Marshallastoð og annað þess háttar. Hannes daðrar við þá hugmynd að hvalrekar af þessu tagi hafi bjargað þjóðinni, enda skipulag atvinnulífs lengst af fjarri kennisetningum frjálshyggjunnar.
Þó að tillögum Hannesar hafi, eins og gengur, ekki verið fylgt að fullu er ljóst að hann var býsna ánægður með árangurinn. Í fyrirlestri sem hann hélt haustið 2007 talar hann um „íslenska efnahagsundrið“, byggt á kvótakerfi í sjávarútvegi, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og traustu lífeyriskerfi. Framtíðin er björt segir Hannes, þó enn megi bæta í t.d. með einkavæðingu orkufyrirtækja.
Nýja Ísland
Eftir hrunið 2008 er auðvelt að gera grín að framtíðarsýn Hannesar og oflofi hans um íslenskt efnahagslíf. Hinir miklu athafnamenn Íslands reyndust skuldakóngar og jafnvel óreiðumenn, dómur sögunnar um stjórnartíð Davíðs Oddsonar verður annar en Hannes hugði. Áhugaverðara er þó að skoða efasemdarraddir frá því fyrir hrun.
Ein slík er bók Guðmundar Magnússonar Nýja Ísland. Listin að týna sjálfum sér (JPV útgáfa 2008), en bókin fékk ekki þá umfjöllun sem hún á skilið haustið 2008. Guðmundur er enginn vinstrimaður. Kannski má kalla hann fyrrverandi frjálshyggjumann eða þjóðlegan íhaldsmann. Merkimiðinn skiptir ekki máli. Það sem Guðmundur tekur sér fyrir hendur er að gagnrýna ýmsar breytingar í íslensku samfélagi á 21. öld, ekki síst daður við auðmenn, vald stórfyrirtækja, aukinn ójöfnuð og sífellt meiri markaðshyggju á sviðum þar sem hún á ekki heima. Hér tekur hann dæmi um kostun fyrirtækja á hátíðarhöldum á 17. júni 2003 – fáni Vodafone varð jafn sýnilegur og íslenski fáninn – og stuðning auðmanna og stórfyrirtækja við menningu, sjálfum sér til upphafningar og auglýsingar. Guðmundur hafnar söguskoðun Hannesar (Guðmundur hefur raunar bandaríska stórblaðið Wall Street Journal fyrir þessari skoðun) og bendir á að Ísland hafi verið með ríkustu þjóðum heims áður en frjálshyggjubyltingin hófst 1991.
Ýmsar breytingar hafi vissulega verið æskilegar og nauðsynlegar, en nú sé mikilvægt að staldra við og skoða þróun mála með gagnrýnum hætti. Guðmundur rekur í bókinni helstu einkenni „gamla Íslands“ eins og hann túlkar það, sérstaklega samkennd, jöfnuð og litla stéttaskiptingu. Jöfnuður, menning og samfélag eru lykilhugtök til skilnings „gamla Íslands“ að mati Guðmundar, en frelsi, peningar og markaður lykilhugtök til skilnings þess „nýja“. Það er ekki laust við að fortíðarþrá einkenni viðhorf Guðmundar, en hann gerir sér grein fyrir að „gamla Ísland“ snýr ekki aftur. Guðmundur telur hins vegar mikilvægt að muna að samstaða, samkennd og menning voru mikilvægir þættir í tilurð nútímasamfélags á Íslandi og því mikilvægt að fórna þessum verðmætum ekki hugsunarlaust á altari taumlausrar markaðshyggju.
Sjálfsmyndarkreppa
Eins og við vitum hrundi „nýja Ísland“ eins og spilaborg, hógvær tillaga Guðmundar um að staldra við og hugsa sinn gang varð heldur hjáróma í þeim hamagangi. Frá sjónarmiði pólitískrar umræðu og hugmynda Íslendinga um sjálfan sig er áratugurinn fyrir hrun líklega furðulegasti áratugur lýðveldistímans.
Kenning Guðmundar var sú að þjóðin hefði „týnt sjálfri sér“ í atgangi frjálshyggjunnar, en hrunið varð síst til þess að þjóðin „fyndi sjálfan sig“ að nýju. Árin eftir hrun einkenndust af sjálfsmyndarkreppu, í stað þess að gera strandhögg sem útrásarvíkingar var þjóðin nú fórnarlamb, umsetin af hrægömmum, fjandsamlegum ríkjum og alþjóðastofnunum. Jafnvel má halda því fram að helsti talsmaður útrásarinnar (fyrir 2008) og umsátursins (eftir 2008) hafi verið einn og sami maðurinn: Ólafur Ragnar Grímsson forseti lýðveldisins. Eftir hrun var enn og aftur umræða um mikilvægi þess að endurreisa „nýtt Ísland“ á gömlum gildum, en náði þó varla lengra en aukinn áhugi á þjóðlegum fyrirbærum á boð við lopapeysur og sláturgerð. Rannsóknarskýrsla Alþingis kom og fór, af henni lærðu menn það sem hentaði – eða alls ekkert. Þjóðernishyggja af ýmsu tagi í bland við óskilgreinda fortíðarþrá einkenndi pólitíska umræðu eftirhrunsáranna. Talsmenn nýrra tíma festust margir í umræðu um „nýju stjórnarskrána“, án þess að hafa skýra pólitíska áætlun um hvernig koma ætti henni í framkvæmd.
Guðmundur Magnússon hefði þurft að skrifa nýja útgáfu af bókinni Nýja Ísland árið 2016, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist úr embætti og við tók almenn þreyta á hrunspólitík. Ísland var að mörgu leiti heppið: ferðaþjónusta hefur drifið áfram meiri hagvöxt en í flestum nágrannaríkjum og popúlismi af þeim ástæðum verið minni en efni stóðu til. Helstu öfgar frjálshyggjunnar á borð við auðmannadekur hurfu vissulega af sjálfu sér, en þau viðhorf til efnahagslífs og markaðar sem ruddu sér til rúms fyrir hrun hafa haldið sér að stórum hluta. Ríkisstjórn leidd af Vinstri grænum einkavæðir þannig Íslandsbanka, þó lítil eftirspurn sé eftir því í samfélaginu. Davíð Oddsson forðaðist að tala um einkavæðingu í heilbrigðismálum, en í dag er aukinn einkarekstur í heilbrigðismálum leiðarljós í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.
Íslenskan og listin að týna sjálfum sér
Um listina að týna sjálfum sér þyrfti kannski að skrifa annarskonar bók í dag en Guðmundur skrifaði fyrir 15 árum. Íslensk tunga og menning eiga undir högg að sækja, fortíðarþrá er vinsæl og jafnvel ómissandi hluti af opinberri umræðu um „vanda íslenskunnar“. Frjálshyggjan er þó sjaldnast langt undan. „Íslensk tunga á tímum frjálshyggjunnar“ gæti verið fyrirsögn slíkrar umfjöllunar. Eða „menningarlaus frjálshyggja“, svo vitnað sé í hinn þjóðlega íhaldsmann – og stundum frjálshyggjumann – Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Áróðurinn hefur helst falist í því að félagshyggjufólk (vinstri menn) vilja hækka skatta almennings og að fyrirtækin landinu séu helst í eigu ríkisins og sveitarfélaganna.
Þetta er auðvitað alrangt, því enginn hefur lagt eins mikla skatta á almenning og ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar (skattleysi fjármagns-aflana og tryggingagjöldin) og Bjarna Benediktssonar eldri (lífeyris-sjóðirnir sem hreinn launamannaskattur).
Þegar alþýðan vaknar til lífsins í lok 19. Aldar og byrjun þeirrar 20. og gerir kröfur um að verkamenn geti lifað sjálfstæðu lífi á launum sínum geti brauðfætt fjölskyldu sína.
Kröfur í anda Kalla gamla og smiðssonarins eftir að verkafólk lærði lestur og gat sjálft lesið Nýja textamenntið og túlkað það á sinn hátt.
Skráðir eigendur fyrirtækjanna stóðu á mót þeim nauðsynlegu umbótum sem voru nauðsynlega svo hægt væri að standa undir réttlætiskröfum alþýðunnar.
Þá var eina lausnin að alþýðan tæki málin í eigin hendur. Verkalýðsstéttin stofnar verkallýðsfélög og ný fyrirtæki með samtakamættinum. Samvinnufyrirtækin verða til.
Til að ná enn frekari árangri var boðið fram til sveitastjórna og til þings svo hægt að ráðast í stærri verkefni, bæði í atvinnulífinu og til að byggja upp innviði samfélaganna. Heilbrigðisþjónusta, skólakerfi og almenn félagsmálainnviðir fyrir almenning.
Það er ekki krafa verkalýðshreyfingarinnar eða pólitísks arms hennar að atvinnufyrirtækin séu almennt í eigu ríkis eða sveitarfélaga ef engin þörf er til þess. En krafan er að innviðir séu í félagslegri eigu.
Almnningur á Íslandi hefur löngum kokgleypt áróðri íhaldsaflana sem er með frjálshyggjuna í fararbroddi. Það sjá á stöðuna á Alþingi, en þar eru fulltrúar íhaldsins í miklum meirihluta.
Staða sem neyðir félagshyggjuflokkana til að eiga samstarf við hægri valdaflokkana. Það er einna helst að félagshyggjuflokkarnir séu kallaðir til ábyrgðar þegar hægri flokkarnir hafa kollsiglt samfélagið með óstjórn sem virðist vera fastur liður á 10 ára fresti.
FrjálsHYGGLUNARstefna sjálfstæðisflokksins.