Á minni fyrstu önn sem menntaskólakennari, í janúar árið 2013, voru snjallsímar að ryðja sér til rúms. Ég átti reyndar bara takkasíma rétt eins og flestir nemenda minna. Tölvur áttu þeir ekki heldur en notuðu í staðinn sömu tæki og dugðu Albert Einstein og Marie Curie: stílabækur og blýanta.
Stundum voru þeir nemendur sem grúfðu sig yfir bækurnar reyndar alls ekki að leysa verkefni heldur að krota á borðin. Haustið 2013, þegar ég eignaðist loks snjallsíma, byrjaði ég að taka myndir af teikningunum. Reyndar voru margar þeirra bara einfaldar typpamyndir, samt var oftast eitthvað áhugavert við þær. Sumir nemendur voru augljóslega flinkir teiknarar, aðrir fyndnir, ögrandi, reiðir, frumlegir – alltaf fann ég eitthvað persónulegt.
Ég mundi sjálfur eftir að hafa krotað svona myndir á skólaborð, vonlaus teiknari en þekkti tilfinninguna, og þótt ég hefði auðvitað frekar viljað að nemendur sinntu náminu var eitthvert lífsmark í krotinu. Eitthvað sem sagði: Hér var ég, mér leiddist, ég lét hugann reika, ég veitti leiðindunum viðnám, gerði örlitla uppreisn, setti mark mitt á veröldina.
Mér varð hugsað til hellamálverkanna, elstu minja um skapandi hugsun á jörðinni: Myndir sem urðu til inni í myrkrinu þar sem mannkynið fæddist, myrkrinu sem við burðumst enn með innra með okkur – ég segi svona.
Í mars árið 2018, að lokinni síðustu kennslustund dagsins, rak ég augun í blýantskrot á borði framarlega í stofunni. Þetta var einföld typpamynd með pung sem upp úr stóðu nokkur strá. Frekar slök teikning en samt algjör klassík. Barnaleg en fyndin. Ég strokaði út myndina áður en ég áttaði mig á að ég hafði gleymt að ljósmynda hana.
Síðan eru liðin næstum sex ár og ég hef ekki séð eina einustu mynd krotaða á borð.
Hefur mér þá tekist að útrýma leiðindunum úr skólastofunni? Vinna þá allir verkefnin sín? Hef ég endanlega upplýst myrkrið innra með nemendum mínum? Eða hvaða undur hefur átt sér stað?
Svarið er auðvitað sáraeinfalt.
Athugasemdir