Á landsvæðinu milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og hins íslenska grjóthúss, Alþingi, hafa mótmælendur sett upp tjaldbúðir. Mótmælin eru friðsöm, ólíkt framkomu stjórnvalda sem draga lappirnar í málefnum þeirra sem fara fram á fjölskyldusameiningu fólks frá Gaza. Inni í tjaldbúðunum eru leikföng, teppi, púðar og hressing fyrir gestkomandi. Þar ríkir gestrisni, hlýja, manngæska, mannleg reisn og tilfinningin að tilheyra.
Inni í íslenska grjóthúsinu stendur kall á eplakassa og otar fingri vandlætis út í loftið eins og hann sé að skera loftið með ímynduðum hníf. Fyrir ímyndaðan áheyrendahóp. Það þykir nú ekki fínt að vera með svona tjaldhræ á heilaga grasblettinum og það snertir verulega mikið við honum að það séu aðrir fánar en hans eini hjartans þjóðfáni, fánarnir eru örugglega að senda honum ímyndaðan fokkjú putta. Það þykir nú ekki fínt að vera að opna heimili sitt fyrir bara hverjum sem er, maður á bara að taka við jafnmörgum gestum og nágrannarnir, aldrei fleiri, helst færri, allra best ef dyrnar væru bara harðlæstar.
„Skilur þetta fólk ekki að ég á þetta, ég má þetta?“
Hörmung að sjá! segir kallinn á eplakassanum og dustar rauða glimmerið af herðunum eins og flösu. Hörmung að sjá að þarna hefur bara eitthvert fólk tekið yfir mitt eina hjartans landsvæði, sagði hann fullviss um að nú hafi hann náð að snapa neyðaratkvæði fyrir næstu kosningar, atkvæði hinna hræddu og örvæntandi. Mitt eina fína og fallega landsvæði milli styttu og grjóthúss! Hvað gera þau næst? Ætla þau að taka húsið mitt? Hvert á ég að fara ef ég á heima hér? Skilur þetta fólk ekki að ég á þetta, ég má þetta? Hvað ef þeim líður vel hérna, ef öll sem þau elska sameinast og lifa af? Svo heldur hann áfram að útskýra sín innri landamæri og ógnina sem landnám þess er fyrir fólki sem kemur frá Gaza svæðinu og öskrar að lokum hátt: „FRJÁLS BJARNI BEN! FRJÁLST TORG HINS HEILAGA BJARNA!“
Athugasemdir (2)