Eins og kunnugt er hefur RÚV tilkynnt að „nú hafi verið ákveðið að rjúfa tengsl á milli Söngvakeppninnar og þátttöku Íslands í Eurovision” – eins og það er orðað í frétt á vefmiðli stofnunarinnar. Þar segir að Söngvakeppnin verði þó haldin en ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun með hvort Ísland taki þátt í Eurovision í Svíþjóð í ár, það verði gert að keppninni afstaðinni vegna gagnrýni á þátttöku Ísraels í keppninni. Og þá kemur fram að ákvörðunin verði tekin í samráði við sigurvegara.
Nokkur orð um þetta!
Að ætla að blanda listamönnum – á þessum forsendum – inn í eldfima ákvörðun sem ríkisstofnunin stendur andspænis er í stuttu máli sagt sturlað. Í rauninni má rökstyðja að aðferðafræðin sé grimmdarleg, burt frá öðru séð. Þó eru komnir keppendur sem virðast geta sætt sig við þessa aðferðafræði og verða bráðlega kynntir.
Eins og þetta blasir við þá á listafólk að taka þátt í undankeppninni án þess að vita hvort farið verði í keppnina erlendis. Í sjálfu sér er góð hugmynd að halda bara Söngvakeppnina hérna heima og láta þar við sitja, eins og útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson viðraði í viðtali í Heimildinni rétt fyrir áramót. En eins og þetta er borið á borð, þá er sennilega verið að reyna að losa um þá staðreynd að meira en 550 tónlistarmenn undirrituðu á dögunum áskorun til RÚV þess efnis að sniðganga Eurovision-keppnina á þessu ári, ef Ísrael verður heimiluð þátttaka.
Stjórnin tók tillögu um sniðgöngu ekki til atkvæða
Nú hafa um 24.000 manneskjur látist á Gasa síðan í október en á meðal þeirra eru um 7.700 börn. Tónlistarfólkið benti á að einstök ríki geti haft áhrif með þrýstingi. Þannig hafi Rússland ekki verið rekið úr Eurovision fyrr en Finnland hótaði að draga sig úr keppninni og önnur lönd fóru að fordæmi Finna.
Þess má einnig geta að fyrir þetta höfðu FITT, félag tónskálda og textahöfunda, og jafnframt FÁSES, félag áhugafólks um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, skorað á RÚV að sniðganga keppnina á þessum forsendum.
Fram að þessu hafði stjórn RÚV virst veigra sér við að taka afstöðu eða hreinlega takast fullum fetum á við málið, í ljósi alls þessa sýnilega í klípu. Þann 12. desember síðastliðinn mátti lesa á vef RÚV að Mörður Áslaugarson, einn stjórnarmaðurinn, hefði lagt fram tillögu um ályktun að sniðganga Eurovision ár ár. En að hún hefði ekki verið tekin til atkvæða á stjórnarfundi stofnunarinnar.
Mörður skrifaði færslu á Facebook um málið. Að sögn hans hafnaði fundurinn því að taka tillöguna til atkvæða, að undanskilinni Margréti Tryggvadóttur, stjórnarmanni í RÚV og formanni RSÍ, sem studdi hana.
Hápólitísk ákvörðun sett á herðar listafólks
En hvað á að gera þegar bæði tónlistarfólk og textahöfundar hafa hafnað þátttöku í Eurovision á áðurnefndum forsendum?
Þá er kokkuð upp klúðursleg lausn. Hápólitísk og umdeild ákvörðun er í og með sett á herðar listafólksins. Það á að taka þátt í keppninni á óljósum forsendum og vera síðan með í samráði um hvort það stígur á stokk í skemmtikeppni með Ísrael eða ekki.
Listamenn eru upp til hópa berskjaldaðir að mörgu leyti. Þeir lifa á list sinni og um leið ásýnd sinni. Ef ásýndin verður pólitískt umdeild eða misbýður siðferðiskennd fólks er hætt við að listamaður eigi bágt með að sjá sér og sínum farborða. Geti jafnvel misst lífsviðurværið.
„Ef ásýndin verður pólitískt umdeild eða misbýður siðferðiskennd fólks er hætt við að listamaður eigi bágt með að sjá sér og sínum farborða. Geti jafnvel misst lífsviðurværið.“
Listamaður sem fellst á að taka þátt í keppninni með Ísrael mun þannig hætta á að verða fyrirlitinn af fjölda fólks í samfélaginu. En sama gildir um listamann sem myndi neita að taka þátt í keppninni á þeim forsendum. Þá er líka viðbúið að háværir hópar munu ásaka viðkomandi um að svíkja börnin sín um jólin og mála hann ófögrum litum. Í báðum tilfellum er hætta á að listamaðurinn verði fyrir miklu aðkasti, í versta falli verði viðkomandi mannorðsmyrtur innan hópa sem láta í sér heyra.
Útilokar hugsjónafólk
Burt frá þessu séð útilokar þetta einnig þátttöku margs fólks sem af hugsjón berst gegn morðum á börnum og saklausu fólki í slíkum mæli að Suður-Afríka hefur nú kært Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag fyrir þjóðarmorð gegn Palestínumönnum á Gasa. Ólíklegt er að margir sem það gera geti hugsað sér að taka þátt á meðan möguleikinn er til staðar að taka þátt í þessari keppni með Ísrael.
Jafnvel þó að árásir Ísraelsmanna myndu hætta í dag, þá breytir það ekki því sem hefur gerst nú þegar.
Þessi aðferðarfæði RÚV er því ekki aðeins vanhugsuð, heldur má segja að hún sé vanvirðing, ef ekki grimm.
„Stjórn RÚV og yfirvöld verða að hysja upp um sig buxurnar og gangast við eigin ábyrgð, í stað þess að setja hana jafnframt á herðar einstaklinga.“
Stjórn RÚV og yfirvöld verða að hysja upp um sig buxurnar og gangast við eigin ábyrgð, í stað þess að setja hana jafnframt á herðar einstaklinga, með einu eða öðru móti. Ef að þeim þykir það vera pressa á sig, með opinbert ákvörðunarvald, að taka afstöðu, þá er út í hött að blanda listamönnum inn í það – með einu eða öðru móti. Þátttaka í þessari keppni í ár, með Ísrael, misbýður siðferðiskennd fjölmargra – og það gróflega, svo vægt sé til orða tekið. Það er viðbúið að hún muni valda mörgum vanlíðan. Og þá ekki aðeins umræddum listamönnum heldur líka drjúgum hluta almennings.
Þó að stjórnendur beri fyrir sig að það séu hvorki RÚV né keppendurnir sem móti utanríkisstefnu Íslands, þá virðist þessi lausn vera bæði ruglingsleg og ósanngjörn.
Athugasemdir (3)