Miðflokkurinn mælist með 11,8 prósent fylgi í nýjustu könnun Maskínu. Flokkurinn bætir við sig 2,4 prósentustigum milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn mælist á sama tíma með 16,6 prósent fylgi og hefur aldrei áður mælst með jafn lítinn stuðning í könnunum Maskínu.
Könnunin var gerð daganna 10. til 15. janúar og var því framkvæmd í kringum eldgosið í Grindavík en áður en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, birti umdeilda færslu á samfélagsmiðlum um útlendingamál sem var víða túlkuð sem tilraun til að sækja fylgi með því að slá nýjan tón í málaflokknum. Í Silfrinu í gær neitaði Bjarni því staðfastlega að það hefði verið tilgangur færslunnar.
Hinir stjórnarflokkarnir tveir mælast á mjög svipuðum slóðum og þeir mældust í desember. Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með 5,7 prósent fylgi og minnstur allra flokka sem eiga sæti á Alþingi í dag. Ef niðurstaða kosninga yrði í neðri mörkum vikmarka, sem eru eitt prósentustig, þá gæti sú staða komið upp að flokkur forsætisráðherra myndi þurrkast út af þingi.
Framsóknarflokkurinn mælist með 10,3 prósent sem er töluvert frá þeim mikla kosningasigri sem flokkurinn vann haustið 2021. Alls hefur hann tapað sjö prósentustigum á rúmum tveimur árum. Eini flokkurinn sem hefur tapað meira fylgi það sem af er kjörtímabili er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur tapað 7,8 prósentustigum. Vinstri græn eru þó skammt undan og eru eini flokkurinn sem hefur tapað meirihluta fylgis síns, eða 6,9 prósentustigum. Hlutfallslega hefur stuðningur við Vinstri græn því minnkað langmest.

Samanlagt þýðir þetta að stjórnarflokkarnir þrír hafa tapað 21,7 prósentustigi af fylgi frá því í september 2021, þegar síðast var talið upp úr kjörkössunum. Fylgi þeirra, sem var 54,4 prósent í síðustu kosningum, mælist nú 32,6 prósent. Innan við þriðjungur þjóðarinnar gæti hugsað sér að kjósa flokkanna sem stýra landinu.
Samfylkingin áfram langstærst
Sá flokkur sem mælist langstærstur í íslenskum stjórnmálum í dag er Samfylkingin. Alls segjast 25,7 prósent aðspurðra að þeir ætli að kjósa flokk Kristrúnar Frostadóttur. Flokkurinn hefur nú mælst sá stærsti í meira en ár í öllum gerðum könnunum og munurinn milli hans og Sjálfstæðisflokks hefur haldist áfram að aukast. Hann er nú 9,1 prósentustig. Alls hefur fylgi Samfylkingarinnar aukist um 15,8 prósentustig frá því að kosið var síðast.
Miðflokkurinn hefur bætt næst mestu við sig það sem af er kjörtímabili. Það hefur farið úr 5,4 í áðurnefnd 11,8 prósent.
Viðreisn hefur líka bætt ágætlega við sig og mælist nú með 11,7 prósent, sem er 3,4 prósentustigum meira en flokkurinn fékk haustið 2021. Flokkur fólksins og Píratar eru þeir stjórnarandstöðuflokkar sem hafa tapað fylgi á kjörtímabilinu. Píratar mælast nú með 7,6 prósent, sem er prósentustigi undir kjörfylgi, og Flokkur fólksins með 6,5 prósent, sem er 2,3 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Athugasemdir