Faðir minn heitinn var góður sögumaður. Hann rifjaði oft upp sögur um leiki mína og leikfélaganna á Hjalteyri við Eyjafjörð, en þar bjó ég fjögurra eða fimm ára gamall. Ég var elstur og stjórnaði leikjum. Vinsælastur var Jesú-leikurinn. Ég lék alltaf Jesúsinn.
Nema einu sinni. Faðir minn varð gáttaður þegar ég heyrðist segja við systur mína sem er ári yngri: „Nú mátt þú vera Jesúsinn!“ Hvað var eiginlega á ferðinni? Jú, nú átti að leika krossfestinguna.
Sjálfur man ég að í æsku vaknaði ég stundum um miðja nótt, hafði dreymt illa og þjáðist af dauðaangist. Ráðið var að finna sér bók og lesa dálitla stund. Það dugði alltaf.
Á unglingsárum var ég alltaf góður í Biblíusögum og fannst þær skemmtilegar. En trúin á Himnaríki og annað líf hvarf fljótlega eftir fermingu. Það var stórt skref að sætta sig við að eftir dauðann biði ekkert. Og að það væri ekki slæmur kostur. Eina framhaldslífið væri minningar sem samferðamenn hefðu um hinn látna. Það væri undir manni sjálfum komið hvort það væru góðar minningar. Ein leið til að stuðla að því væri að reyna að fylgja siðaboðskap Jesú.
Ég fékk mjög snemma áhuga á stjórnmálum. Kunni níu ára nöfnin á efstu mönnum allra flokka í kjördæmunum átta í alþingiskosningunum 1959. Það voru teikningar af þeim eftir Halldór Pétursson á kortum sem notuð voru í Kjördæmaspilinu.
Velti því fyrir mér að taka virkan þátt í stjórnmálum og gerði það reyndar í ungliðahreyfingu í fáein ár. Þessi áhugi varð m.a. til þess að ég ákvað að leggja stund á stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem þá var nýtt nám þar. Glíman við fræðin varð hins vegar fljótlega til þess að ég missti áhugann á því að praktísera pólitík. Mig langaði fyrst og fremst til þess að skilja og fræða – ekki prédika og boða pólitískt fagnaðarerindi. Þessi löngun styrktist þegar ég fór í framhaldsnám í stjórnmálafræði við London School of Economics and Political Science haustið 1977. Og hún styrktist enn þegar ég hóf kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands í ársbyrjun 1980. Kennsla, stjórnun, rannsóknir og alþýðufræðsla í fjölmiðlum urðu meginþættir í störfum mínum eftir það. Þetta reyndist mér gott hlutskipti.
Í stjórnmálafræði reynum við að skilja. M.a. ólíkar tegundir hugmyndafræði. Ég kenndi um þetta í áratugi. Reyndi að útskýra hvaða rök lægju að baki t.d. íhaldsstefnu, jafnaðarstefnu og frjálshyggju. Forðaðist að taka afstöðu. Vildi skilja og greina – ekki boða. Þetta reyndist mér auðvelt.
Greinandi stjórnmálafræði leitast við að taka ekki pólitíska afstöðu. Það er ekki hlutverk stjórnmálafræðingsins að segja fólki hvort Framsóknarflokkurinn sé góður eða slæmur. Hlutverk fræðanna er á hinn bóginn að greina stefnumál flokksins og hugmyndafræði, hvaða hópar fólks kjósi hann og hvers vegna, hvers konar ríkisstjórnum flokkurinn sé líklegur til að taka þátt í – og þar fram eftir götunum.
Erfiðara fyrir greinandi stjórnmálafræðing er að taka enga afstöðu þegar um er að ræða stjórnmálaflokka eða stjórnmálakerfi sem bæði hyggjuvit og vísindalegar rannsóknarniðurstöður segja vera almenningi til bölvunar í einum eða öðrum skilningi. Dæmi um þetta eru Þriðja ríki Hitlers og ógnarstjórn Stalíns í Sovétinu. En fjöldamorð og kúgun í þessum kerfum tala svo sem fyrir sig sjálf. Stjórnmálafræðingurinn getur látið nægja að lýsa þessum kerfum og bera þau saman við önnur mannúðlegri kerfi – þó auðvitað hafi hann skömm á skefjalausri grimmd og manndrápum.
Flestir stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum síðustu öldina hafa verið hófsamir flokkar sem styðja lýðræðiskerfið – þó þar hafi verið undantekningar. Mér finnst satt að segja frekar vænt um alla þessa flokka – þó þess gæti vonandi ekki í greiningum mínum. Sagt hefur verið að fræðimenn eigi það til að fá ást á viðfangsefnum sínum!
Hin síðari ár hafa komið fram flokkar í lýðræðisríkjum á Vesturlöndum sem berjast gegn sjálfsögðum mannréttindum sem tryggð eru í stjórnarskrám. Sumir þessara flokka eru líka andvígir lýðræði og hafa reynt að taka það úr sambandi þegar þeir geta. Flestir stjórnmálafræðingar eru lýðræðissinnar og líkar þetta illa. Meginhlutverk þeirra er eigi að síður það að reyna að skilja af hverju flokkar af þessu tagi ná árangri í kosningum. Það skiptir meira máli en að bölva þeim í sand og ösku.
Það helsta sem ég hef lært í lífinu er að tileinka mér hófsemi, umburðarlyndi og vísindalega hugsun. Vísindin skera ekki úr um rétt eða rangt, en þau eru skásta leiðin sem við höfum til þess að móta okkur upplýsta og skynsamlega skoðun.
Ég hef líka lært að gjalda varhug við kreddum og öfgafullum hugsjónum eða hugmyndafræði – bæði í stjórnmálum og trúarbrögðum. Eitt viðbjóðslegasta stríð veraldarsögunnar er Þrjátíu ára stríðið í Þýskalandi. Þar útrýmdu málaliðasveitir óbreyttum borgurum í tugþúsundatali. Kreddur lúterstrúarmanna og kaþólikka bjuggu að baki. Hryðjuverk öfga-múslima síðustu árin má setja í sama flokk. Í nafni kreddufullrar útgáfu af íslam eru saklausir borgarar strádrepnir. En hafa verður í huga að þessi vígaferli hafa í sjálfu sér ekkert að gera með kristna trú og íslam – og flestir fylgjendur þessara trúarbragða hafa skömm á manndrápunum.
Átakanleg fjöldamorð Rússa í Úkraínu byggja á einfeldningslegri hugmyndafræði um Stór-Rússland. Þar mynda Ívan grimmi, Stalín og Pútín samfellu í þjóðfélagi þar sem réttarríki hefur aldrei náð fótfestu. Grimmdarverkin í Mið-Austurlöndum byggja á öfgakenndum hugmyndum í pólitík og trúarbrögðum.
Í Mannkynssögu afa míns, Ólafs Þ. Kristjánssonar, sem ég las í gagnfræðaskóla, segir frá stjórnbótarmanninum Sólon, sem kom á auknu lýðræði í Aþenu. Hann sagði: „Hóf er best í hverjum hlut“. Ég hef reynt að fylgja þessu spakmæli – jafnframt því að þjóna sannleikanum og gagnrýnni vísindalegri hugsun.
Athugasemdir