Umferðin var þétt í borginni í morgun og gekk ökumönnum misvel að komast sinnar leiðar. Fram til hádegis er gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Faxaflóa. Vegir eru hálir og nú þegar hafa nokkur umferðaróhöpp verið tilkynnt til lögreglu.
Bílarnir mjökuður hægt áfram
„Ég mætti 20 mínútum seinna í dag en vanalega,“ segir íbúi í Reykjavík, um umferðina upp úr níu í morgun. Hann var á leið frá miðborg Reykjavíkur til vinnu í Skeifunni. „Venjulega er ég 10 mínútur á leiðinni í vinnuna en ég var hálftíma í dag. Bílarnir mjökuðust hægt áfram, sérstaklega á Sæbrautinni. Hef aldrei lent í öðru eins.“
Sagði hann að erfiðlega hefði gengið að komast áfram á Suðurlandsbrautinni, því þar hefði snjóhrúga verið á veginum. „Verktaki sem mokaði bílastæðin hafði sett snjóhrúguna þannig að hún fór inn á Suðurlandsbrautina í austurátt, sem gerði það að verkum að fólk þurfti að sveigja frá skaflinum.“
Snjómokstur
„Við brýnum fyrir okkar fólki að setja ekki snjó á ákveðna staði sem geta hindrað útsýni, tekið upp óþarfa bílastæði og ég tala ekki um yfir á stíga,“ segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg.
Hjólreiðafólki gekk einnig misvel að komast sinnar leiðar, þar sem ekki var nægilega vel mokað. „Það er sami forgangur á öllu hjóla- og gönguleiðakerfinu og hjá bílum,“ sagði Hjalti. „Við byrjum klukkan fjögur í nótt á báðum þessum verkefnum og gengur bara ágætlega. Þetta er mjög stíft prógram sem við vinnum eftir, hvort sem það er á götum eða göngu- og hjólaleiðum.“
Í Reykjavík mældist 7 sentímetra snjódýpt, en 20 sentímetrar á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt samantekt Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings hjá Bliku. Framundan er mikið frost í dag og á morgun, en á laugardag mildast það og eru horfur á stilltu veðri. „Heimskautaloftið vinnur einfaldlega þennan slag og verður ríkjandi hér til morguns. Á laugardag verður gerð alvöru atlaga að því með stærri lægð sem kemur úr suðvestri. Léttu lausamjöllina víða um land getur þá hæglega tekið að skafa,“ segir í greiningu Einars.
Hvernig er færðin hjá þér? Lesendur geta sent myndir og veðurfarslýsingar á ritstjorn@heimildin.is.
Athugasemdir