Vinstri græn eru í tilvistarvanda. Sex ár í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum taka sinn toll og minnkandi fylgi kemur varla forystu flokksins á óvart. Löng stjórnarseta með Sjálfstæðisflokknum hefur reynst mörgum flokkum erfið. Björt framtíð dó eftir stutt samlífi, Viðreisn rétt lifði af, Alþýðuflokkurinn lenti tvisvar í tilvistarvanda og jafnvel Framsóknarflokkurinn hefur lent í alvarlegri kreppu. Samfylkingin hefur aldrei jafnað sig eftir hrunstjórnina svokölluðu 2007-9. Katrín Jakobsdóttir nýtur þó enn mest trausts ráðherra ríkisstjórnarinnar, þannig að enn er von – þó veik sé.
Mörgum kom á óvart þegar ríkisstjórn Katrínar var mynduð 2017. Hvernig eiga jafn ólíkir flokkar að geta starfað saman? Það gleymdist að það var margt sem auðveldaði samstarfið. Í fyrsta lagi voru litlar deilur um skipulag landbúnaðar og sjávarútvegs. Á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar voru veiðigjöld þannig lækkuð að frumkvæði þingmanna Vinstri grænna. Í öðru lagi eru flokkarnir sammála í Evrópumálum og önnur utanríkismál eru ekki jafn viðkvæm og áður. Í þriðja lagi eru flokkarnir ekki áhugasamir um að koma á jöfnu vægi atkvæða og endurskoðun stjórnarskrárinnar ekki í sérstökum forgangi hjá þeim. Hjá stjórnarflokkunum er áhersla á landsbyggðina og í þeim öllum er þráður þjóðlegrar íhaldssemi. Síðast en ekki síst þá hafði stóriðjustefnan runnið sitt skeið í íslenskum stjórnmálum og ný álver með tilheyrandi virkjunum ekki á dagskrá. Flokkarnir þrír sem mynda ríkisstjórnina eiga því eitt og annað sameiginlegt sem skilur þá frá Viðreisn og Samfylkingu.
Til að skilja betur hvers vegna flokkur sem skilgreindi sig sem „róttækan“ og „lengst til vinstri“ í íslensku stjórnmálum gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn er gott að líta til uppruna og sögu Vinstri grænna. Vinstri græn voru stofnuð sem þingflokkur 1998 og stjórnmálaflokkur í upphafi árs 1999 og buðu í fyrsta sinn fram í kosningum þá um vorið. Áhugi var á því að vinstri flokkarnir og Kvennalistinn sameinuðu krafta sína til að mynda mótvægi gegn sterkri stöðu Sjálfstæðisflokksins. Fyrir þessu voru ýmsar ástæður. Sameining var gamall draumur vinstri manna sem nú – meðal annars vegna loka kalda stríðsins – væri tækifæri að gera að veruleika. Reykjavíkurlistinn hafði velt veldi Sjálfstæðisflokksins í borginni og nú þyrfti að gera það sama á landsvísu. Vinstri flokkarnir voru einnig innbyrðis ósamstæðir, innanflokksdeilur regla fremur en undantekning og hugmyndafræðileg uppstokkun nauðsynleg. Flokkarnir voru sér einnig meðvitaðir um að innbyrðis samkeppni þeirra um að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum setti þá í erfiða stöðu og drægi úr áhrifum þeirra. Þegar Steingrímur J. Sigfússon og félagar klufu sig úr sameiningarferlinu olli það því nokkurri reiði og ásökunum um svik.
Vildu ekki verða „kratar“
Steingrímur og félagar höfðu þó ágætan grundvöll til að skilja sig frá Samfylkingunni. Ef fyrirmynd Samfylkingarinnar voru stórir flokkar jafnaðarmanna á Norðurlöndum, þá voru fyrirmyndir Vinstri grænna litlir norrænir flokkar vinstra megin við jafnaðarmenn. Það er því ekki óeðlilegt að líta á Vinstri græn sem arftaka Alþýðubandalagsins í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn var þó að ýmsu leiti ólíkur Alþýðubandalaginu, enda margt nýtt fólk í flokknum og þörf á að endurskoða stefnuna. Guðfeður Vinstri grænna, þeir Hjörleifur Guttormsson, Ögmundur Jónasson og Seingrímur J. Sigfússon töldu ólíklegt að hægt væri að ná samstöðu innan Samfylkingarinnar um NATO, stóriðju og umhverfismál, stjórnkerfi landbúnaðar, fiskveiðistjórnun og Evrópumál. Enn í dag eru þetta mál sem í orði kveðnu í það minnsta greina VG frá Samfylkingunni, sérstaklega Evrópumálin. Fyrst og fremst vildu þeir þó ekki verða „kratar“. Vinstri græn hefðu getað stigið lengra frá arfleið Alþýðubandalagsins og gert græningjaflokka að fyrirmynd sinni, en slíkt var fjarstæðukennt fyrir menn á borð við Ögmund og Steingrím – þó auðveldara sé að sjá Katrínu Jakobsdóttur sem leiðtoga í slíkum flokki. Deilurnar um Kárahnjúkavirkjun skilgreindu að mörgu leiti Vinstri græn, en takmarkanir umhverfisstefnu flokksins komu skýrt í ljós þegar umhverfisráðherra flokksins Kolbrúnu Halldórsdóttur var hafnað í prófkjöri 2009 vegna andstöðu sinnar við olíuleit og mögulega vinnslu.
Gamall blaðamaður sagði mér að hann hefði aldrei séð Davíð Oddsson jafn kátan og daginn sem tilkynnt var um stofnun Vinstri grænna. Sameining vinstri manna var úr sögunni. Davíð leit ávallt á Samfylkinguna sem höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins, enda stærri ógn við valdastöðu hans og forræði í íslenskum stjórnmálum en Vinstri græn. Steingrímur J. reyndi hvað hann gat til að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum 2007, en Geir Haarde ákvað að skipta Framsókn út fyrir Samfylkingu. Óhætt er að fullyrða að fáir systurflokka Vinstri grænna á Norðurlöndum hefði látið sér til hugar koma að reyna að mynda stjórn með helsta hægriflokki landsins. Íslenska flokkakerfið (sem stofnun VG styrkti í sessi) gerði þetta þó mögulegt og jafnvel nauðsynlegt. Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega valdi sér samstarfsaðila sem annað hvort kepptu hver við annan um ríkisstjórnarsetu eða sameinuðust allir gegn Sjálfstæðisflokknum.
Almenn skoðun meðal „flokkseigenda“
Vinstri græn voru heppin að hafa ekki verið í ríkisstjórn 2008. Frá 2009 til 2013 var flokkurinn í ríkisstjórn, þó varla væri hann stjórnhæfur vegna átaka innanflokks. Flokkurinn skipti um formann fyrir kosningar 2013 og þrátt fyrir afhroð í kosningunum hélt hann áfram að „vera hann sjálfur“ og náði fljótt vopnum sínum. „Villikettirnir“ voru á bak og burt og almenn ánægja var með formanninn. Samfylkingin sat á hinn bóginn uppi með baggann frá hrunstjórninni og hafði hvorki í sér að verja árangur ríkisstjórnar Jóhönnu né að endurskoða stefnu sína, líkt og hægt væri að halda áfram frá því fyrir hrun eins og ekkert hefði í skorist.
Eftir kosningarnar 2016 vildu margir að VG myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki og mögulega Framsókn. Í grein sem Hjörleifur Guttormsson skrifaði haustið 2016 („Þingseta og aðild flokka að ríkisstjórnum“, Morgunblaðið 24.11 2016) setur hann fram þessa skoðun. Píratar eru að mati Hjörleifs markaðssinnuð hreyfing og flokkur stjórnleysingja og Viðreisn eru frjálshyggjuflokkur til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki er hægt að mynda stjórn úr þeim efnivið og skrýtið að einhverjum í VG detti slíkt í hug. Hjörleifi lýst betur á að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og væntanlega Framsókn. „Um ýmislegt mætti ná góðri samstöðu á milli þessara flokka, þar á meðal að binda endi á óráðshjal um aðild Íslands að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð“. Eftir kosningarnar 2017 var Hjörleifur áfram á sömu skoðun („Óskorað fullveldi og náttúruvernd meðal brýnustu verkefna nýs þings og ríkisstjórnar“. Morgunblaðið, 31. 10 2017). Þessi skoðun var almenn meðal „flokkseigenda“ í Vinstri grænum og allt bendir til að Steingrímur J. Sigfússon hafi verið búinn að undirbúa jarðveginn fyrir kosningarnar 2017.
Forysta Vinstri grænna þurfti að réttlæta ríkisstjórnina fyrir flokksmönnum og fylgismönnum. Forysta Katrínar Jakobsdóttur í nýrri ríkisstjórn skipti hér miklu máli, enda hafði flokkurinn í tvígang farið í kosningar með það sem sinn höfuðboðskap. Í fyrstu stefnuræðu sinni talaði Katrín um „ákveðin lykilverkefni“ sem ríkisstjórnin ætlaði að vinna að og ekki fór á milli mála að frá sjónarmiði hennar voru það uppbygging í heilbrigðis- og menntamálum og innviðum landsins. Forystumenn ríkisstjórnarinnar töluðu einnig um að endurreisa traust á stjórnmálum með „breiðu samstarfi“ og sátt í stjórnmálum.
Í dag er helsti vandi ríkisstjórnarinnar sá að fólk skilur ekki hvaða erindi hún á við stjórn landsins. Ríkisstjórnin virðist innbyrðis ósamstæð og eiga erfitt með að móta stefnu og taka ákvarðanir. En óánægjan á vinstri vængnum (fylgisgrunni VG) liggur þó dýpra. Sú uppbygging sem gefin voru fyrirheit um í upphafi hefur ekki gengið eftir, enda engin tilraun gerð til að auka tekjur ríkisins. Þvert á móti hefur tekjugrunnur ríkisins veikst á valdatíma ríkistjórnarinnar (líklega um 50-60 milljarða króna samkvæmt fjármálaráðuneytinu). Húsnæðismálin eru í ólestri og mest talað – en lítið gert – í brýnum umhverfismálum á borð við loftlagsmál. Ráðherrar og þingmenn eiga því sífellt erfiðara með að verja ríkisstjórnina, jafnvel má á þeim skilja að þátttaka Vinstri grænna í ríkisstjórn sé einskonar skaðaminnkandi starfsemi. Flokkurinn á því erfitt með að byggja á árangri ríkisstjórnarinnar, hugmyndafræði og sjálfsmynd flokksins verður óljósari með hverjum deginum sem líður, eða virkar einfaldlega á skjön við tíðarandann. Sú hugmyndafræðilega samsuða sem varð til 1999 (kannski má kalla það Alþýðubandalagið 2.0) er augljóslega í vanda. Við þessar aðstæður er skiljanlegt að innra líf flokksins tréni og kjósendur líti annað.
Athugasemdir (1)