Forsætisráðherra í samstarfi við háskólana hefur að undanförnu staðið fyrir fundaröð um mögulegar breytingar á stjórnarskrá. Margt ágætt hefur komið fram á þessum fundum, en eftir situr spurningin um hvernig eigi að koma ferlinu um endurskoðun á stjórnarskrá aftur af stað. Á undanförnum árum hefur umræðan hverfst um afdrif nýju stjórnarskrárinnar, sem sumir telja stjórnmálastéttina hafa svikið þjóðina um, á meðan aðrir telja að hún hafi einfaldlega ekki komist í gegnum það nálarauga sem gert er ráð fyrir varðandi breytingar á stjórnarskrá.
Á það hefur verið bent að stjórnarskrá Íslands hefur þrátt fyrir allt verið breytt alloft á liðnum áratugum og að það ferli sem gert er ráð fyrir í stjórnarskrá sé ekkert sérlega flókið eða íþyngjandi. Þetta er alveg rétt og í samræmi við þá nauðsyn að stjórnarskráin sé lifandi plagg, sem sé uppfært og aðlagað að breytilegum samfélagsháttum. Til þess að breyta stjórnarskrá er einungis gert ráð fyrir meirihlutasamþykki tveggja þinga með kosningum á milli.
Þessi sögulega og lögfræðilega staðreynd gengur hins vegar þvert á það sem margir upplifa varðandi nýlegar tilraunir til breytinga. Rótina að þeirri tilfinningu má rekja til viðbótarforsendu sem oft er haldið á lofti af stjórnmálamönnum um að víðtæka sátt eða samstöðu þurfi til þess að unnt sé að breyta stjórnarskránni. Þessi viðbótarforsenda, sem er ekki að finna í stjórnarskránni, hefur leitt til þess að þeir sem vilja ekki breytingar geta ævinlega rofið samstöðuna með öndverðri afstöðu við meirihlutann. Þannig getur minnihlutinn í reynd stjórnað ferlinu, þvert á það einfalda meirihlutafyrirkomulag sem breytingarákvæði stjórnarskrár gerir ráð fyrir.
Þingmenn beita í reynd neitunarvaldi
Af breytingasögu íslensku stjórnarskrárinnar má sjá að lengst af hefur ekki þurft að hafa áhyggjur af því að minnihluti þingmanna myndi hafna skynsamlegum málamiðlunum um breytingar og þannig í reynd beita neitunarvaldi í skjóli samstöðukröfunnar. Margt bendir hins vegar til þess að þessi staða sé uppi núna. Bæði af hálfu íhaldssamra og þeirra sem vilja refjalausa gildistöku nýju stjórnarskrárinnar. Augljóslega er þessi kyrrstaða mun hagfelldari þeim sem engu vilja breyta heldur en þeim sem vilja breytingar, og því hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé unnt að mynda einfaldan meirihluta fyrir allnokkrum breytingum og þvinga fram ákvörðun á Alþingi þar um í skjóli þess meirihluta.
Aðferðafræðilega þversögnin í því að leggja upp með einfalda meirihlutaákvörðun, líkt og gert er í gildandi breytingarákvæði stjórnarskrár, er að hún eykur líkurnar á samstöðu um skynsamlegar breytingar. Harðlínusjónarmið á báðum endum rófsins á milli íhaldssemi og róttækni missa neitunarvald sitt og þar með áhrif í ferlinu. Sjónarmiðin í kringum miðjuna koma sér niður á hófsama lausn, sem getur verið eins róttæk eða eins íhaldssöm og meirihlutinn vill og telur skynsamlegt í ljósi þess að nýtt þing þarf jafnframt að samþykkja breytingarnar.
„Augljóslega er þessi kyrrstaða mun hagfelldari þeim sem engu vilja breyta heldur en þeim sem vilja breytingar, og því hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé unnt að mynda einfaldan meirihluta fyrir allnokkrum breytingum“
Við lok kjörtímabils Alþingis, í þann mund sem flokkar ganga óbundnir til kosninga, ætti að vera gott tækifæri til þess fyrir Alþingi að taka frá dágóðan tíma til þess að ræða stjórnarskrármál. Þá helst án þess að hefðbundnar átakalínur minnihluta og meirihluta að baki sitjandi ríkisstjórn hafi áhrif á niðurstöðuna. Hver veit svo hvort óvæntur meirihluti um breytingar á stjórnarskrá í lok kjörtímabils gæti orðið grunnur að frekara samstarfi flokka að loknum kosningum. Það á við í þessu að það er líklegra til árangurs að ræða breytingar á stjórnarskrá í skugga atkvæðagreiðslu þar sem meirihlutinn ræður, heldur en að gera það í skugga neitunarvalds þar sem hver og einn getur ónýtt ferlið.
Athugasemdir