Tómas Guðbjartsson hjartalæknir hefur rofið þögnina í kjölfar frétta af því að hann væri farinn leyfi frá störfum hjá Landsspítalanum. Hann segist hafa „fylgt eindregnum ráðum lækna og farið í sjúkraleyfi. Það geri ég bæði heilsu minnar vegna og með hagsmuni sjúklinga minna í huga“.
Í færslunni segist Tómas ekki hafa verið sendur í leyfi frá störfum frá Landspítalanum vegna plastbarkamálsins, heldur hafi hann sjálfur sótt sjúkraleyfi til að verja eigin heilsu og sjúklinga sinna. „Í starfi hjarta- og lungnaskurðlæknis geta mistök í aðgerð auðveldlega ógnað lífi þeirra, en í þeim stormi sem hefur geisað undanfarið hef ég ekki haft þá einbeitingu sem starfið krefst. Stjórnendur á Landspítala hafa stutt þessa ákvörðun mína.“
Tómas gefur til kynna að aðdragandinn að leyfinu sé umræðan svokallað plastbarkamál, en hann tók þátt í fyrstu plastbarkaígræðslunni með ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini árið 2011, sama læknis og er til umfjöllunar í Netflix-þáttaröðinni Bad Surgeon vegna sviksemi hans við boðun og framkvæmd ígræðslu plastbarka í fjölda sjúklinga í tilraunaskyni, án fyrri prófana á dýrum.
„Ég biðst afsökunar á þeim atriðum í þessu máli sem hefðu betur mátt fara og sneru að mínum störfum sem læknir og fræðimaður, og hversu langan tíma það tók mig að sjá í gegnum Paolo Macchiarini og þann blekkingarvef sem hann skóp,“ segir Tómas Guðbjartsson.
Þá greinir hann frá því að á síðastliðnum tíu árum hafi hann verið kallaður til sem vitni hjá 10 innlendum og erlendum rannsóknaraðilum vegna málsins. „Nafn mitt kemur oft fyrir í öllum þessum skýrslum, enda ákvað ég að eigin frumkvæði að afhenda öll gögn sem ég hafði undir höndum til sænsku lögreglunnar, þegar hún hóf formlega rannsókn á störfum Paolo Macchiarini fyrir tæpum áratug síðan. Gögnin innihalda meðal annars nákvæma tímalínu og persónulega tölvupósta, og hafa verið lykilheimildir við að upplýsa málið. Að afhenda slík gögn var ekki sjálfgefið, enda afhjúpuðu þau í sumum tilvikum ófullkomin vinnubrögð af minni hálfu.“
Í þættinum Þetta helst á Rás 1 á miðvikudag var greint frá óánægju samstarfsfólks Tómasar á Landspítalanum með opinbera framkomu hans og fyrirferð. „Níu læknar við Landspítalann sem Þetta helst hefur rætt við lýsa vaxandi kergju innan spítalans vegna hegðunar Tómasar Guðbjartssonar. Læknarnir eru ýmist í stjórnunarstöðum, hafa gengt stjórnunarstöðum eða starfað lengi á spítalanum. Þeir segja tilhneigingu Tómasar til að stæra sig af störfum sínum, ná langt út fyrir það sem læknum sæmi. Einmitt það sé stefið í plastbarkamálinu og eigi við um fleiri mál honum tengdum.“
Tómas svarar þessu í yfirlýsingunni. Hann segist hafa verið opinn fyrir samskiptum við fjölmiðla og litið á það sem hluta af starfi sínu sem prófessor í skurðlæknisfræði. „Ég hef einnig lagt í vana minn að svara fjölmiðlum þegar til mín hefur verið leitað. Þetta hefur greinilega orkað tvímælis hjá sumum kollegum mínum og ég mun taka þá gagnrýni til greina. Ég er mannlegur, oft á tíðum fyrirferðamikill og hvatvís, en eflaust líka hégómlegur, ekki síst þegar ég hef komið fram í fjölmiðlum til að ræða málefni sem standa hjarta mínu nærri. Ég hef þó ávallt, og eftir bestu vitund, reynt að greina rétt frá staðreyndum.“
Að lokum biðst Tómas afsökunar á því sem betur hefði mátt fara. „Ég biðst afsökunar á þeim atriðum í þessu máli sem hefðu betur mátt fara og sneru að mínum störfum sem læknir og fræðimaður, og hversu langan tíma það tók mig að sjá í gegnum Paolo Macchiarini og þann blekkingarvef sem hann skóp, og er vel lýst í þáttunum Bad Surgeon á Netflix. Þetta mál hefur nú fylgt mér í rúmlega 12 ár og valdið mér og fjölskyldu minni ómældum sársauka, sársauka sem mun fylgja mér ævina á enda. Meiri er þó vitaskuld sársauki og missir ekkjunnar og barnanna tveggja, sem mér verður ítrekað hugsað til.“
Athugasemdir