Lögreglan á Tenerife stöðvaði í gærkvöldi töskuflutning með flugvélum á leið til Íslands. Ekki liggur nákvæm ástæða fyrir hvers vegna töskurnar fengu ekki að koma með. Samkvæmt farþega Play hafði töskunum verið ferjað um borð en síðan teknar út aftur.
Upplýsingafulltrúi Play, Birgir Olgeirsson, staðfestir í samtali við Heimildina að lögreglan á Tenerife hafi stöðvað töskuflutning hjá Play og Icelandair í gærkvöldi. „Við höfum ekki fengið alveg fullkomlega ástæðuna frá lögreglunni hvað þeir voru nákvæmlega ósáttir við,“ segir Birgir. Hann segir að lögreglan hafi stöðvað töskurnar hjá fjórum flugvélum en málið liggi hjá flugvellinum sjálfum þar sem lögreglan var ósátt við öryggisleitina á töskunum.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir við Heimildina að töskunum hafi verið haldið eftir á Tenerife vegna bilunar í öryggisleitarvélum flugvallarins. Það hafi orðið til þess að þær hafi ekki allar verið skimaðar áður en þær fóru í vélina.
Sá töskurnar fara um borð
Þorsteinn Frímann Guðmundsson, farþegi með flugvél Play, segir farþegana hafa beðið í flugvélinni í einn og hálfan tíma áður en hún lagði af stað til Íslands. Segist Þorsteinn hafa spurt áhöfnina hvers vegna vélin tafðist og fengið þær upplýsingar að þetta tengdist tollinum eða einhverju veseni með pappírana.
„Flugstjórinn kom inn í flugvélina eftir þennan einn og hálfa tíma og segir að það eigi að fara að loka lúgunum og við séum vonandi bara að fara bráðum. Svo líða kannski tíu mínútur, korter áður en við förum af stað,“ segir Þorsteinn. Hann segir að annar farþegi hafi séð töskurnar ferjaðar inn í vélina. „Töskurnar fóru um borð í vélina en voru teknar út aftur,“ segir Þorsteinn.
Vissi ekki að töskurnar hefðu orðið eftir
Þorsteinn segir að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar frá áhöfninni um að töskurnar yrðu skildar eftir á Tenerife. „Þegar við erum lent og erum komin út úr vélinni fær mágkona mín tölvupóst um það að töskurnar hafi orðið eftir á Tenerife og ekkert nánar.“ Hann segist enn fremur ekki vera búinn að fá neinar upplýsingar um hvenær hann fái töskurnar sínar aftur.
Upplýsingafulltrúi Play segir hins vegar við Heimildina að flugstjórinn hafi tilkynnt farþegum í fluginu að töskurnar yrðu skildar eftir. Hann segir töskurnar vera á leiðinni til Íslands í dag og verða keyrðar út á morgun.
Þjófnaður úr töskum
Í mars á þessu ári handtók lögreglan á Tenerife tvo starfsmenn sem unnu í töskuburði flugvallarins fyrir að stela úr töskum. Canarian Weekly birti frétt um það fyrr á árinu. Virðist þjófnaður úr ferðatöskum á þessum tiltekna flugvelli vera nokkuð umtalaður hér á landi en flugvöllurinn er fjölsóttur af Íslendingum.
Fréttin hefur verið uppfærð með frekari upplýsingum frá almannatengli Play.
Eruð þið farin að keppa við DV og Mbl. ?
Er það ekki að ferja þegar lítill dráttarvagn með nokkra ferjunarvagna í togi flytur „ferjar“ töskur frá fluvallarbygginguni að flugvélinni ?
Þarna mætti standa "höfðu töskurnar verið ferjaðar um borð".