Í september kom hinn 22 ára gamli palestínski Mohammed Alhaw til Íslands, fullur vonar. Tæpum mánuði síðar voru sprengjur Ísraelshers farnar að falla á landi hans af tíðni sem aldrei hafði sést áður. Svo fékk hann höfnun frá Útlendingastofnun. Umsókn hans yrði ekki tekin til efnismeðferðar þar sem hann er þegar með stöðu flóttamanns í Grikklandi og var honum gert að fara úr landi innan 30 daga.
Mohammed hefur sofið fyrir utan Alþingi í sex nætur í litlu appelsínugulu tjaldi. Skammt frá er stærra tjald, hvítt og áþekkt tjöldunum sem rísa í Herjólfsdal á þjóðhátíð. Þar hafa Palestínumenn og stuðningsfólk þess safnast saman í mótmælaskyni daglega frá 27. desember síðastliðnum. Þeir kalla eftir því að fjölskyldumeðlimum þeirra, sem þegar hafa fengið samþykkt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sé komið af Gasasvæðinu hið snarasta.
Flestir þessara Palestínumanna hafa þegar fengið samþykkta hælisumsókn hér á landi, enda er ekki hægt að óska eftir fjölskyldusameiningu nema vernd hafi þegar verið veitt.
„Ég verð að hjálpa sjálfum mér fyrst ef ég vil hjálpa fjölskyldu minni,“ útskýrir Mohammed sem flúði Gasasvæðið tvítugur að aldri árið 2021. Þar býr móðir hans enn ásamt systur hans og bróður. Heimili þeirra var gjöreyðilagt í sprengjuárás Ísraelshers, segir Mohammed.
Hann vildi betra líf, en þó að hann hafi losnað við stríðið þá hefur draumur hans um „venjulegt líf“ – líf þar sem hann getur unnið fyrir sér, borgað skatta og stundað nám – ekki ræst.
Líkamlegt ofbeldi í Grikklandi
Mohammed fékk alþjóðlega vernd í Grikklandi í byrjun árs 2022 en sú vernd segir hann að hafi gert lítið sem ekkert til þess að bæta lífskjör hans.
„Þar get ég ekki hjálpað sjálfum mér því launin eru svo lág og það aðstoðar mig enginn. Hér hjálpar fólk þér, annað en í Grikklandi,“ segir Mohammed.
„Mér leið ekki eins og ég væri öruggur“
Hann sagði fulltrúum Útlendingastofnunar frá mjög alvarlegu ofbeldi sem hann varð fyrir þar af hálfu nokkurra karlmanna, endalauss óöryggis, barsmíða af hálfu lögreglunnar og búsetu á götunni innan um fíkniefnaneytendur og glæpamenn.
„Mér leið ekki eins og ég væri öruggur,“ segir Mohammed.
Í niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli Mohammeds segir að alþjóðleg vernd einstaklinga í Grikklandi uppfylli „þær kröfur sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna setur.“ Það er þó ekki reynsla Mohammeds og hið sama má segja um fjölmarga aðra flóttamenn sem Heimildin hefur rætt við og vilja alls ekki snúa aftur til Grikklands.
Um 120.000 hælisleitendur eru í Grikklandi og þar búa 50.000 flóttamenn. Landið er eitt af þeim sem taka hvað mestan þunga af flóttamannakrísunni og eru 3% þjóðarinnar flóttamenn, samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR).
„Flestir flóttamenn sem búa í þéttbýli [í Grikklandi] geta ekki fundið vinnu til að framfleyta fjölskyldum sínum þar sem Grikkland glímir enn við efnahagslega erfiðleika í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2015,“ segir í samantekt Alþjóða björgunarnefndarinnar (IRC) um stöðuna í Grikklandi.
Í viðtali við Heimildina í nóvember sagði Annika Sandlund, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, galla á því fyrirkomulagi að hælisleitendur væru aftur og aftur sendir til landa eins og Grikklands þar sem þeir hefðu þegar fengið hæli. Fyrirkomulagið gerði ráð fyrir því að móttaka flóttamanna væri jafn góð á öllum stöðum í Evrópu.
„En það er ekki staðan,“ sagði Annika. „Auðvitað eru Evrópuríkin misvel stödd efnahagslega og það mun líka hafa áhrif á það hvort fólki líður eins og það geti raunverulega fengið vinnu og gefið af sér til samfélagsins.“
Getur ekki horft til framtíðar þegar nútíðin er ótrygg
Það er einmitt það sem Mohammed segist vilja, að vinna, greiða sína skatta, mennta sig.
„Ég bið bara um venjulegt líf. Mig langar að byrja lífið, komast í nám og horfa til framtíðar. Þegar ég bjó á Gasa, í Grikklandi og í Þýskalandi gat ég ekki hugsað um framtíðina,“ segir Mohammed sem sótti einnig um vernd í Þýskalandi en fékk þar neitun í þrígang.
„Á öllu þessu ferðalagi var líf mitt sett á pásu. Ég get ekki tryggt nútíðina til þess að hugsa um framtíðina. Ég er hér sem stendur en kannski verð ég farinn í annað land á morgun.“
Athugasemdir