Umræðan verður að vera yfirveguð.
Umræðan verður að vera sanngjörn.
Dæmi: Hvenær tekur maður þátt í söngvakeppni og hvenær tekur maður ekki þátt í söngvakeppni? Umræðan má ekki vera óvægin. Hún má ekki vera á kostnað samverustunda fjölskyldunnar.
Svo dæmi sé tekið: Hvenær mótmælir maður stríðsglæpum og hvenær mótmælir maður ekki stríðsglæpum? Hvenær er í lagi að útrýma þjóð og hvenær er ekki í lagi að útrýma þjóð? Umræðan má ekki einkennast af upphrópunum.
Þegar við skoðum þessar hræðilegu fréttamyndir: Hvað er steypuklumpur og hvað er stirðnað lík? Hvað er glerbrot og hvað er stjarna og hvað er nögl af sundurtættum fingri? Umræðan verður að finna sér réttan farveg. Umræðan verður að grundvallast á þekkingu sérfræðinga.
Enn fremur: Hvað er árás og hvað er ekki árás? Umræðan verður að byggja á gögnum. Í umræðunni verðum við að forðast að fara í manninn. Við verðum að gera greinarmun á manninum annars vegar og boltanum hins vegar. Við verðum að gera greinarmun á steypuklumpi og fingri og stjörnu.
„Hvað er árás og hvað er ekki árás?“
Úr mikilli fjarlægð er erfitt að segja til um með fullri vissu hvað er brotin trjágrein og hvað er hönd af barni.
Umræðan má ekki vera of tilfinningaleg. Umræðan má ekki falla í skotgrafir flokkspólitíkur.
Auðvitað vill ekkert okkar sjá börn sprengd í tætlur. Ég held ég geti fullyrt það. Ég held ég geti fullyrt að okkur þyki öllum mjög óheppilegt að sjá börn sprengd í tætlur á jólunum. En umræðan verður að vera málefnaleg. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Ég vil gera þau orð að mínum. Umræðan verður að vera nærgætin, hún má ekki einkennast af upphrópunum, hún má ekki breyta Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í pólitískan vettvang. Við einfaldlega megum ekki leyfa því að gerast.
Ég ítreka: Hvenær sprengir maður barn og hvenær sprengir maður ekki barn? Við verðum að geta rætt þessi mál af hófsemd og stillingu.
Athugasemdir