Áramótaskaupið 2023
Handrit: Benedikt Valsson, Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson, Þorsteinn Guðmundsson
Áramótaskaupið er vinsælasta og mikilvægasta menningarafurðin á hverju ári í augum talið. Deilur um skemmtanagildið eru sjálfgefnar og mikilvægur hluti af skaupinu, en undirliggjandi er æðri tilgangur. Áramótaskaupið gerir nefnilega grín að valdhöfum og frægðarfólki og er þannig hluti af spennulosun í samfélaginu. Þannig er þetta „við“ að gera grín að „þeim“, og auðvitað okkur öllum í leiðinni.
Í áramótaskaupinu í ár var fókusinn að hluta öfugur. Meira en áður á að þau, fræga fólkið, voru að tala til allra hinna. Löng atriði af Vilhelm Netó í einhvers konar tímalausu elítupartýi, þar sem voru saman komin margt helsta fræga fólk á Íslandi síðustu árin, þar á meðal súkkulaðiþokkahnokkinn Prettiboitjokkó, Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra í efnahagshruninu, ýmist sjónvarpsfólk og svo framvegis. Lítið greinanlegt grín fylgdi þessum atriðum. Punkturinn var að við fengjum að sjá þau skemmta sér saman, takandi myndir af sér saman, sem væri einhvern veginn speglun á okkar tilvist á árinu.
En allt árið fáum við fréttir af frægu fólki í partýum á mbl.is, dv.is og vísi.is. Stundum gera þau meira að segja sínar eigin fréttir um sig sjálf eða kynningarfundina sem þau halda. Algóriþminn þrýstir síðan sama fólki inn í sjónsviðið allra annarra á samfélagsmiðlum. Menningarlegt efni er síðan framleitt markvisst til að dreifa þeim meira. Oft er frægðin beinlínis framleidd með markvissum hætti, eins og þegar fjölmiðlafélagið Sýn, World Class-erfinginn Birgitta Líf og Herra hnetusmjör gerðu tilraun til að framleiða frá grunni frægan söngvara, HÚGÓ. Þokkahnokkinn var til dæmis markaðssettur með súkkulaði sem fyrirtæki afa hans framleiddi sem hluta af því að koma honum á kortið. Síðan fylgdu fréttir af því hvað hann ætti flottan bíl. Lögin náðu síðan í gegn, ekki síst lagið Skína, þar sem hann syngur um eigin fegurð og hversu ginnkeypt fólk er fyrir henni, ekki síst gellan sem er alltof sjúk í þokkahnokkann, á að gera sig fína og halda áfram að skína.
Og núna voru þau þarna að leika sig sjálf í Áramótaskaupinu.
Ísland er lítið og stundum líður manni óumflýjanlega eins og maður sé að horfa á sama fólkið aftur og aftur, ár eftir ár. Fólk kvartar oft undan því að sama fólkið komi ítrekað í þátt Gísla Marteins, aðalspjallþátt landsins á RÚV, og kannski var það ádeila í Skaupinu að þar væri Gísli Marteinn kominn, daginn eftir að hafa verið með uppgjörsþátt á RÚV með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleiri áberandi Íslendingum. Margt af þessu fólki er augljóslega hæfileikaríkt og stendur undir hverri örðu athygli, en öðru hverju finnst manni þetta menningarleg fátækt. Eins og menningarlega landslagið verði stundum líkt landslaginu í landinu sjálfu, gróðursnauðu hálendinu með einstaka rofabörðum sem nöguð eru af sauðfé. Smáríkjakenndin nær hámarki þegar sýnilegi hópurinn þrengist og eftir því sem verðleikarnir liggja meira í því að hafa farið í ræktina og ljós og eiga peninga og vini. Þegar þetta verður eins og skólaleikrit sem fjallar um vinsælustu krakkana í árganginum og er skrifað af þeim og leikið af þeim.
Áramótakokteillinn verður síðan örlítið eitraður þegar frægðarfókusinn blandast við peningadýrkun, einhvers konar auð- eða efnishyggja. Þegar við verðum viljugir og óviljugir neytendur sjálfhverfu og sjálfsupphafningar annarra.
Kannski var það málið að áramótaskaupið var á köflum sjálfhverft. Það var inn á við. Braut regluna um sjónarhól almennings og háð gagnvart elítunni frekar en enn meiri markaðssetningu þess sama.
Þessi þráður náði hátindi í lokalaginu þegar flytjandinn í áramótapartýinu fjallaði um sjálfan sig í textanum. Kópboi, eða kópurinn, öðru nafni Herra Hnetusmjör, rappaði um fínu fötin sín og að hann væri með úttroðna vasa. Hann hefur í ótal textum fjallað um sjálfan sig og tekjurnar sínar, að hann sé með kórónu og svo framvegis. Alls ekki einn um það, heldur er hann hluti af efnishyggjubylgju í íslenskri tónlist síðasta áratuginn sem á sér skýrustu birtingamyndina í því þegar börn ríks fólks rappa um vörumerkin sem þau kaupa og peningana sem þau eiga, og koma af erfðum ofan, jafnvel sveiflandi seðlabúntum.
Það sem er skrítið og skaðlegt við þennan sjónarhól af þakíbúðarpartýinu er að hann ýtir alveg sérstaklega undir allan kvíðann sem fólk finnur fyrir, meðvitað og ómeðvitað, fyrir að vera ekki nógu gott, ekki nógu ríkt og vera ekki fyllilega með í samfélaginu. Þessi afstæða fátækt og útilokun sem fylgir yfirborðskenndinni. Það er í fullri andstöðu við tilgang Áramótaskaupsins, sem er útrás og inngilding almennings.
Áramótaskaupið hefur ákveðið skilgreiningarvald, sem ætti að koma að neðan en ekki ofan. Sem betur fer var margt óumdeilanlega framúrskarandi í skaupinu eins og síðustu ár, til dæmis leikskóli miðaldra fólksins í meðförum fóstbræðrahópsins og kröfugerð Alpha-kynslóðarinnar gagnvart kennara. En við þurfum að vera meðvituð um skaðlega þræði í menningunni okkar og birtingamyndir þeirra, eins og sjálfhverfu og innantóma peningadýrkun, sem getur ýtt undir margs konar firringu frá farsæld, velferð og samkennd. Gildismatið er okkar mestu verðmæti og getur líka fellt okkur í framtíðinni eins og fyrr.
Athugasemdir (25)