Þessi grein birtist fyrir rúmlega 13 mánuðum.

Við hvaða myndir keppir Hlynur Pálmason um Óskarsverðlaunin?

Við hvaða myndir keppir Hlynur Pálmason um Óskarsverðlaunin?
Úr Volaða landi. Elliott Hove Crosset í hlutverki sínu.

Hlynur Pálmason er nú kominn í skotfæri við Óskarsverðlaunin eftir að myndin hans Volaða land náði inn á svonefndan stuttlista 15 bíómynda frá jafnmörgum löndum sem keppa um verðlaun sem besta alþjóðlega myndin.

Hlynur Pálmason

Af þessum stuttlista verða svo valdar fimm myndir er munu keppa á úrslitakvöldinu í febrúar um hin einu sönnu verðlaun.

Árangur myndarinnar hans Hlyns nú þegar er vitaskuld frábær en hann er þó sjálfsagt ekki búinn að taka frá hillupláss fyrir verðlaunastyttuna, því það er sannarlega við ramman reip að draga og margar mjög athyglisverðar myndir um hituna.

Hér fara á eftir upplýsingar um myndirnar 14 sem keppa við Volaða land og sjálfsagt að taka fram að ég hef séð fæstar þeirra, svo fyrst og fremst er byggt á upplýsingum af netinu og víðar.

Listinn er í stafrófsröð þeirra landa sem tefla fram viðkomandi bíómyndum.

Armenía

teflir fram myndinni Amerikatsi.

Michael Goordjian

Leikstjóri er rúmlega fimmtugur bandarískur leikari og leikstjóri af armenskum ættum að nafni Michael Goorjian.

Hann fer og með aðalhlutverkið.

Myndin segir frá Bandaríkjamanni af armenskum ættum sem kemur til Armeníu árið 1948 og ætlar að kynnast rótum sínum en lendir í fangelsi enda ógnarstjórn Stalíns enn í fullum gangi.

Úr fangelsisglugganum fylgist hann með lífi armenskrar fjölskyldu í nágrenninu. Myndin þykir taka á alvarlegum viðfangsefnum á furðu líflegan og lífsglaðan hátt en er áreiðanlega ívið of melódramatísk til að koma alvarlega til greina þegar stuttlistinn verður í lok janúar grisjaður niður í hinar fimm tilnefndu myndir.

Bhútan

komst á stuttlistann með myndina Munkurinn og byssan sem Pawo Choyning Dorji leikstýrir.

Pawo Choyning Dorji

Þótt kvikmyndagerð í Himalaja-ríkinu Bhutan eigi sér ekki langa sögu virðist eitthvað vera að gerjast þar.

Aðeins eru tvö ár síðan mynd sama leikstjóra, Lunana: Jakuxinn í skólastofunni var ein 5 tilnefndra mynda til Ósarsverðlauna.

Hún hlaut ekki verðlaunin þá en nú fær leikstjórinn ef til vill annað tækifæri. Miðað við hve fáar myndir eru gerðar í Bhútan er framgangur hans alveg einstæður.

Nýja myndin gerist árið 2006 þegar Bhútan er að feta sig í átt til lýðræðis.

Þá birtist bandarískur byssusafnari í Bhutan í leit að ævafornri byssu er blandast á sérkennilegan hátt inn í lýðræðisþróunina.

Bretland

teflir fram mynd á þýsku og pólsku að þessu sinni. Hún heitir The Zone of Interest og er lauslega byggð á skáldsögu eftir Martin Amis.

Nokkrar bækur og bíómyndir hafa komið fram síðustu árin þar sem fjallað er um vitneskju og ábyrgð almennra borgara í Þýskalandi og fleiri löndum á hrannvígum helfararinnar í seinni heimsstyrjöld.

Þessi mynd er af því tagi.

Jonathan Glazer

Hún fjallar um huggulegt fjölskyldulíf Rudolf Höss fangabúðastjóra í Auschwitz. Fjölskyldan bjó í sjónmáli við hina hryllilegu dauðaverksmiðju sem Höss stjórnaði en lét sem ekkert væri.

Sá fjölskyldan ekkert, vissi hún ekkert eða var henni skítsama?

Þetta mun vera ansi sterk mynd sem lætur fáa ósnortra í yfirlætisleysi sínu.

Sandra Hüller ku og vera sérlega öflug í hlutverki sínu sem frú Höss en Hüller er nýbúin að slá í gegn í frábærri franskri mynd sem flestir hér þekkja undir enska nafninu Anatomy of a Fall.

Sjá aðeins nánar um hana hér neðar.

Leikstjóri The Zone of Interest er Jonathan Glazer en tíu ár eru síðan hann gerði síðast bíómynd — Under the Skin með Scarlett Johansen í hlutverki geimveru!

Danmörk

býður vitaskuld upp á nýjustu mynd Mads Mikkelsen, Bastarden, eða The Promised Land eins og hún er kölluð á ensku. Hvernig Danir komust eiginlega af áður en Mads Mikkelsen var fundinn upp er ótrúlegt.

Leikstjóri er hinn þrautreyndi Nikola Arcel en þeir Mikkelsen leiddu síðast saman hesta sína í myndinni En Kongelig Affære frá 2012.

Nikolaj Arcel

Í millitíðinni reyndi Arcel fyrir sér í Hollywood og gerði stórmyndina The Dark Tower eftir sögu Stephen King en hún hlaut hraksmánarlega dóma og enga aðsókn.

Nú eru Arcel og Mikkelsen á svipuðum slóðum og í áðurnefndri mynd um Kristján konung 7. en nýja myndin fjallar um hlutskipti danskra heiðarbænda á ofanverðri 18. öld.

Fyrir Íslendinga verður kannski sérlega merkilegt að skoða myndina með tilliti til þess að hún gerist á því svæði sem sumir létu sér detta í hug að gæti orðið athvarf Íslendinga ef þeir þyrftu að flýja land sitt vegna móðuharðindanna.

Finnland

er líka á stuttlistanum og þar er enginn smákall á ferð heldur sjálfur Aki Kaurismäki með myndina Fallin lauf sem þykir ein besta mynd hans í áraraðir.

Viðfangsefnið er þó ekki beinlínis nýstárlegt af honum að vera, því myndin fjallar um tvær einmana og sérlundaðar manneskjur sem reyna að ná tengslum sín á milli.

Aki Kaurismäki

Myndin hefur þegar hlotið gagnrýnendaverðlaunin á Cannes-hátíðinni og þykir til alls líkleg.

Alma Pöysti þykir fara á sérlegum kostum í öðru aðalhlutverkinu en Jussi Vatanen gefur henni víst lítið eftir í helsta karlhlutverkinu.

Pöysti vakti athygli fyrir nokkrum árum þegar hún lék Tove Jansson höfund Múmínálfanna í ágætri mynd um ævi hennar.

Frakkland

kemur næst með myndina La Passion de Dodin Bouffant eftir leikstjórann Trần Anh Hùng.

The Taste of Things er myndin kölluð á ensku.

Trần Anh Hùng

Trần Anh Hùng fæddist í Víetnam en hefur búið í Frakklandi frá 12 ára aldri.

Þekktastur er hann kannski fyrir myndina Norwegian Wood sem gerð var eftir sögu Murakami, þótt hún hafi ekki þótt að öllu leyti vel heppnuð.

Nýja myndin skartar hinni eilífu Juliette Binoche og Benoît Magimel og mun fjalla á afar munúðarfullan hátt um bæði ást og matarást milli miðaldra fólks. Maginel leikur eiganda veitingahúss sem hefur Binoche í þjónustu sinni en hún er frábær kokkur sem Maginel verður smátt og smátt ástfanginn af.

Og ef ég skil þetta rétt, þá ákveður hann að elda fyrir hana mat og matartilbúningurinn verður einskonar ástarjátning.

Full ástæða fyrir unnendur góðrar matargerðarlistar og vandaðra ástarmynda að hlakka til að sjá þessa.

Unnendur franskra kvikmynda furðuðu sig hins vegar margir á því að þessi mynd skyldi tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir hönd Frakklands en ekki hin magnaða Anatomy of a Fall (sjá hér að ofan um bresku myndina The Zone of Interest). Hún fékk gullpálmann á Cannes síðastliðið vor og er magnað persónudrama. Því er fleygt í Frakklandi að elítan þar í landi hafi ákveðið að refsa leikstjóra Anatomy, Justine Triet, fyrir gagnrýni sem hún setti fram gegn Macron Frakklandsforseta og því ekki lagt fram myndina hennar.

Ítalía

tefldi fram myndinni Io Capitano eftir leikstjórann Matteo Garrone.

Io Capitano fjallar um tvo unga menn frá Senegal sem ferðast frá heimalandi sínu til Ítalíu og talar því vitaskuld beint inn í flóttamannastrauminn frá Afríku sunnan Sahara til Evrópu.

Garrone fékk óþekkta leikara til að fara með aðalhlutverkin í myndinni og flestir flóttamennirnir sem tvímenningarnir eru samferða töluðu tungumál sem Garrone sjálfur var ekki mæltur á.

Matteo Garrone

„Ég varð að hlusta á blæ raddanna til að komast að því hvort þeir voru að leika vel eða illa,“ segir hann.

Garrone er þekktastur fyrir myndina Gomorrah frá 2008. Margir þekkja sjónvarpsseríuna með sama nafni sem gerist í sama umhverfi og bíómyndin.

Mynd Garrone er þó töluvert önnur skepna en sjónvarpsserían, bæði enn hrárri en sjónvarpsserían og á sinn hátt sannari.

Mynd Garrones, Dogman, frá 2018 er svo jafnvel enn betri en Gomorrah. Þið ættuð að skoða hana ef þið hafið áhuga á raunsönnum hráslagalegum glæpamyndum.

Eina stórmynd hefur Garrone gert — Pinocchio eða Gosa fyrir nokkrum árum.

Japan

er á listanum með nýjustu mynd þýska leikstjórans Wim Wenders.

Myndin fjallar um mann sem sér um þrifnað á almenningsklósetti í Tókíó og mun vera flétta nokkurra sagna um fólk sem hann á í samskiptum við bæði í vinnunni og utan hennar.

Wim Wenders

Myndin kallast á ensku Perfect Days.

Wenders á skammt í áttrætt og hefur verið í framlínunni í hálfa öld en hann kom fram á sjónarsviðið um svipað leyti í Þýskalandi og þau Werner Herzog, Rainer Werner Fassbinder, Margarethe von Trotta, Völker Schlöndorff og fleiri.

Á áttunda áratugnum gerðu þau öll merkilegar myndir en svo hallaði undan fæti hjá þeim hvað fjármögnun snerti þótt þeir Herzog séu enn að í hárri elli.

Marokkó

er líka á stuttlistanum.

Á ensku heitir myndin The Mother of All Lies en heiti hennar á arabísku mun þýða bókstaflega Hvítar lygar.

Þetta er heimildarmynd, leikstjóri er hin rúmlega þrítuga Asmae El Moudir sem vakti heilmikla athygli fyrir heimildarmyndina Póstkortið fyrir fáeinum árum. Í þeirri mynd eins og hinni nýju fjallar El Moudir um sögu sinnar eigin fjölskyldu.

Asmae El Moudir

Þá var það móðir leikstjórans sem var í forgrunni en í þetta sinn amma hennar. Myndin virðist verulega forvitnileg en El Moudir og faðir hennar bjuggu til eins konar leikbrúðuheim til að túlka sögu fjölskyldunnar og að lokum fékk hún líka ömmu sína til að segja sögu sína — og þá sögu fjölskyldunnar sem amman hefur haldið að fólki en er kannski ekki að öllu leyti sönn.

Það gekk þó ekki þrautalaust því amma neitaði að vera með í myndinni þar til El Moudir sagði henni að hún myndi þá fá leikkonu til að túlka hana.

Ömmunni fannst ómögulegt að einhver kerling úti í bæ væri að leika hana á hvíta tjaldinu svo hún féllst á að vera með — og setur víst stórkostlegan svip á myndina.

Mexíkó

er næst með myndina Totém sem Lila Avilés stjórnar.

Avilés vakti þó nokkra athygli fyrir myndina Þernan fyrir nokkrum árum en í þessari mynd er, að sögn, fjallað á ljúfsáran hátt um fjölskyldu sem er að halda samkomu með heilmikilli viðhöfn og börnin í fjölskyldunni eru framan af í miðpunkti frásagnarinnar.

Lila Avilés

Allir virðast kátir og allt með felldu og gleðin við völd en þegar á líður kemur í ljós að tilefni samkomunnar er kannski ekki jafn mikið fagnaðarefni og ætla mætti.

Ég rakst á gagnrýni á myndinni í blaðinu Guardian þar sem kemur fram að viðkomandi gagnrýnanda fannst vanta eitthvað svolítið dramatískt inntak í myndina, sér í lagi miðað við Þernu leikstjórans.

Nógu margir hafa þó hrifist af þessari mynd Avilés til að hún á nú dágóða möguleika á að vera tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Spánn

sendi fram myndina La sociedad de la nieve.

Það þýðir Samfélagið í snjónum, eða eitthvað álíka.

A.J.Bayona

Myndin fjallar um fræga harmsögu sem átti sér stað árið 1972. Þá fórst flugvél á afskekktum fjallstindi í Andesfjöllum í Suður-Ameríku meðal annars með heilt íþróttalið innanborðs.

Eftirlifendur björgðust ekki fyrr en eftir tvo mánuði og voru aðstæður allar hinar skelfilegustu.

Þeir neyddust til að leggja sér lík félaga sinna til munns til að lifa af.

Myndin er sögð vera firna sterk lýsing á fólki sem verður að grípa til algjörra örþrifaráða í von um að komast af við hrikalegar aðstæður.

Leikstjóri er J.A.Bayona sem sló í gegn með mynd sinni Munaðarleysingjahælið 2007 og hefur síðan meðal annars gert eina Jurrasic Park mynd.

Túnis

á fulltrúa á stuttlistanum, heimildarmyndina Fjórar dætur sem Kaouther Ben Hania leikstýrir en hún var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna 2021 fyrir myndina Maðurinn sem seldi húð sína. 

Myndin ku vera aldeilis mögnuð og virðist reyndar kallast merkilega á við myndina frá Marokkó sem nefnd var hér að ofan.

Kaouther Ben Hania

Hér segir nefnilega frá konu sem eignast hefur fjórar dætur en tvær þær elstu eru horfnar — „étnar af úlfinum“ eins og það er orðað í upphafi myndarinnar.

Til þess að segja sögu móðurinnar og dætranna fjögurra fær Ben Hania tvær leikkonur til að fara með hlutverk hinna horfnu dætra í upprifjun á ævi móðurinnar og dætranna og úr verður, segja gagnrýnendur, stórmerkileg samþætting skáldskapar og veruleika, þar sem konurnar reyna að takast á við „úlfinn“ og hver aðra.

Úkraína

er líka með heimildarmynd á listanum, 20 dagar í Mariupol sem Mstyslav Chernov leikstýrði.

Vart þarf að fjölyrða um hvað þessi mynd er.

Þar er lýst umsátri Rússa um borgina Mariupol í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu 2022.

Mstyslav Chernov

Chernov og félagar hans lokast inn í borginni og komast ekki burt en reyna eftir bestu getu að skrásetja þann hrylling sem þeir eru lentir í.

Myndin hefur víða farið um kvikmyndahátíðir og sópað að sér verðlaunum, enda þykir hún firna sterk, nema reyndar í Serbíu en hætt var við sýningar á henni á kvikmyndahátíð þar þar eð um væri að ræða „andrússneskan áróður“ sagðu hinir serbesku skipuleggjendur hátíðarinnar eftir að hafa séð myndina.

Þýskaland

birtist svo á listanum með myndina Das Lehrerzimmer, eða Kennarastofan. Leikstjóri er Ilker Çatak en aðalhlutverkið leikur Leonie Benesch.

Benesch leikur kennslukonu sem fer að rannsaka málið þegar nemandi við skólann hennar er sakaður um þjófnað.

İlker Çatak

Þótt tilefnið virðist í upphafi ekki stórt stendur hún fyrr en varir frammi fyrir þungum samviskuspurningum. Ýmislegt verulega óþægilegt mun koma í ljós um móralinn í skólanum.

Sumir hafa minnst á dönsku myndina Jagten þegar myndin berst í tal.

Hún hefur farið sigurför um kvikmyndahátíðir.

Leikstjórinn İlker Çatak hefur gert nokkrar myndir um fólk í hversdagslífinu sem tekst á við hversdagslega hluti en færist hér ívið meira í fang.

Kjósa
10
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Alls konar fólk sem þarf aðstoð: „Það getur eitthvað komið fyrir hjá öllum“
3
FréttirJólin

Alls kon­ar fólk sem þarf að­stoð: „Það get­ur eitt­hvað kom­ið fyr­ir hjá öll­um“

Fjöl­breytt­ur hóp­ur sæk­ir matarað­stoð fyr­ir jól­in en út­lit er fyr­ir að svip­að marg­ir þurfi á slíkri að­stoð að halda í ár og í fyrra, um 4.000 heim­ili ef lit­ið er til að­stoð­ar Hjálp­ar­starfs kirkj­unn­ar og Mæðra­styrksnefnd­ar. Há leiga eða há­ar af­borg­an­ir eru að sliga marga sem þurfa að sækja sér að­stoð.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
2
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
4
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
3
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
5
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
6
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár