Jólastemningin lifir góðu lífi í umferðinni. Fjölskyldan situr föst í umferðarteppu, allir á leið í austurátt eða norðurátt á sama tíma. Nú er lag, hugsa ég með mér og stilli á jólastöðina í útvarpinu til að hlusta á jólalög, nei, ég meina leiklesnar jólaauglýsingar. Á meðan horfa aðrir farþegar díselbifreiðarinnar á afturljós bílanna fyrir framan og hugsa um stafafuruna sem stendur í miðri stofunni með rauðu jólaseríunni sem samkvæmt pakkningunni á að vera úti, ekki inni. Hvað ef það myndi kvikna í trénu? Nú er lag, það er útsala á jólaseríum í næstu byggingavöruverslun.
Nú er hátíð ljóss og friðar. Einhver fer inn í hátíðarnar eftir að hafa fallið á prófi og jólin eru ekkert nema aumur pásutakki á enn meiri próflestri. Sumir eru að upplifa fyrstu jólin eftir sorg, missi eða skilnað, og hvert einasta augnablik er eins og að vera með draugaverk í horfnum útlim. Flóknar samverustundir flókinna fjölskyldumynstra vofa yfir allt um kring. Kannski erum við að læra að vera til og ganga upp á nýtt þegar við förum í gegnum fyrstu jólin eftir óumflýjanlegar breytingar í lífinu á sama tíma og við troðum sömu slóðana langt aftur í tímann með gömlum hefðum og munninn fullan af frómasnum hennar ömmu.
„hvert einasta augnablik er eins og að vera með draugaverk í horfnum útlim“
Í heiminum geisa styrjaldir og það er skrýtin tilfinning að vera manneskja sem heldur hátíð meðan aðrir þjást og berjast með stórvopnum. Kannski það eina sem við getum reynt að stjórna er að stríðið sé ekki innra með okkur. Við þurfum bara að komast í gegnum þetta augnablik til þess að mæta inn í það næsta, og svo hverfur flöskuhálsinn í umferðinni, auglýsingarnar hætta að bylja í útvarpinu, jólalögin taka við og upp úr pokanum kemur sérríflaskan sem fer beint ofan í þig, nei, ég meina frómasinn hennar ömmu.
Athugasemdir