Í skáldsögunni „Altneuland” eftir Theodor Herzl sem kom út árið 1902 segir frá ungum Gyðingi sem velur þann kost að koma sér fyrir á eyju í Kyrrahafi til að geta lifað þar í friði. Þar dvelst hann í tvo áratugi, án þess að fylgjast neitt með því sem gerist annars staðar í hinni vondu veröld. En um síðir snýr hann þó aftur og er þá skrifað árið 1923. Hann kemst nú að raun um að mikil umskipti hafa orðið, Gyðingar frá Evrópu hafa flust til Palestínu og sett þar á fót sitt eigið þjóðfélag, - ekki ríki, því þeir hafna slíkum fyrirbærum. Söguhetjan ferðast um þetta nýja Gyðingaland og verður sagan þá að framtíðarútópíu í nokkuð hefðbundnum stíl.
Ekki er þörf á að tíunda það, nema kannske eitt sérstakt atvik. Söguhetjan hittir Palestínumann, einn af þeim sem bjuggu í landinu fyrir, og spyr hann hvort innflutningur Gyðinga í landið hafi ekki lagt í rústir það samfélag Araba sem þar var áður: „Urðu þeir ekki að flytjast á braut?”
„Hvílík spurning”, sagði Palestínumaðurinn. „Þetta var hin mesta blessun fyrir okkur alla. Einkum fyrir landeigendur sem seldu Samfélagi Gyðinga jarðir sínar á góðu verði eða þá sem biðu með söluna í von um að fá enn betra verð fyrir þær síðar.”
Samtalið fer inn á aðrar slóðir en nokkru síðar spyr söguhetjan hvað hafi orðið um aðra, hina fjölmörgu arabísku múslima sem áttu ekki neitt?
Við því kann Palestínumaðurinn svar: „Þeir sem áttu ekki neitt og höfðu engu að tapa gátu ekki annað en hagnast á umskiptunum. Og vissulega högnuðust þeir, þeir fengu vinnu, brauð, velmegun. Ekkert var fátækara og hörmulegra en arabískt þorp í Palestínu í lok nítjándu aldar. Bændurnir drógu fram lífið í moldarkofum sem varla voru skepnum bjóðandi. Börnin veltust um á götunni, nakin og án umhyggju, og ólust upp eins og dýr. En nú er allt með öðrum hætti. Arabarnir nutu góðs af hinum miklu félagslegu framförum, hvort sem þeir vildu það eða ekki. Þegar mýrarnar voru þurrkaðar upp, skurðir voru grafnir og gróðursett tröllatré sem hafa hreinsað jarðveginn, var ráðið til þess vinnuafl á staðnum sem var harðgert og vant aðstæðum og því voru greidd góð laun.
Líttu á þennan akur. Ég man að þegar ég var stráklingur var þetta fen. Nýja Samfélagið keypti hann fyrir lítinn pening og gerði hann að bestu jörð landsins. Hún tilheyrir þessu fallega þorpi sem þú sérð þarna uppi á hæðinni. Það er Arabaþorp, þú tekur eftir litla bænahúsinu. Þetta fólk er nú miklu hamingjusamara, það borðar sómasamlega, börnin eru heilbrigð og ganga í skóla. Ekkert hefur verið hróflað við trúarbrögðum þeirra og fornum siðum – þetta fólk er nú velmegandi.”
Síðar í þessu samtali segir Palestínumaðurinn enn: „Gyðingar hafa gert okkur auðuga, hvers vegna ætti okkur að vera illa við þá?”
Vera má að einhver hnykli brýnnar þegar hann les þessa hugljúfu lýsingu, en hún endurspeglar það sem var nokkuð almennt viðhorf á seinni hluta nítjándu aldar og enn í byrjun hinnar tuttugustu. Menn vissu til glæpaverka í nýlendum Evrópumanna, einkum framferðis Leopolds annars í því sem þá var Belgíska Kongo (reyndar persónuleg eign konungs sjálfs), en þeir álitu að með því að leggja undir sig þjóðir í fjarlægum heimsálfum hefðu Evrópumenn stuðlað að því að lyfta þeim upp úr villimennskunni, þeir hefðu fært þeim menningu, tækni, lækna og sjúkrahús, og auk þess boðað þeim rétta trú. Þegar á sextándu öld sagði hálærður Spánverju að allt það gull sem Spánverjar hirtu af Aztekum og fluttu til síns heimalands hefði ekki verið annað en réttlát borgun fyrir þá miklu blessun sem þeir hefðu fært þessari formyrkvuðu þjóð vestan Atlantsála. Enskur stjórnmálamaður sagði tveimur öldum síðar að breska heimsveldið væri mestu góðgerðarsamtök sem sagan kynni frá að greina. Nýlendustefnan væri eiginlega skylda Vesturlandabúa, Kipling orti „Take up the white man´s burden”.
Eftir lok seinni heimsstyrjaldar mátti heita ljóst að nýlendutímabilið væri á enda, Vesturlandabúar gætu ekki lengur ráðskast með risastór lönd annars staðar í veröldinni. Í styrjöldinni lögði Japanir undir sig Franska Indókína, en þegar þeir gáfust upp fannst íbúunum fráleitt að horfið skyldi aftur til fyrri stöðu landsins, þeir vildu ekki verða nýlenda aftur. En þetta skildu valdhafar í Evrópu ekki og því klúðruðu þeir þessum sögulegu umskiptum sem best þeir gátu. Frakkar flæktu sér í vonlaust og sóðalegt nýlendustríð í Indókína, og voru varla búnir að tapa því þegar þeir fóru út í annað jafnsóðalegt nýlendustríð í Alsír, - bis repetita placent. Þar fóru þeir síst betri ferð og eitraði þessi tvöfaldi ósigur franskt þjóðlíf lengi á eftir, og gerir jafnvel enn. Hollendingar óðu út í nýlendustríð í Indónesíu, og Englendingar beittu hinni mestu hörku við að berja niður þá uppreisn sem kennd er við Mau Mau í Kenýa. Þegar nýlendurnar höfðu loks fengið sjálfstæði, notuðu nýlenduherrarnir fyrrverandi öll brögð til að tryggja sér áfram aðgang að auðlindum þeirra. Þannig studdu Frakkar við bakið á blóðugum einvöldum sem voru hagsmunum þeirra hliðhollir, og gat það orðið að hreinum skrípaleik, eins og í krýningu keisaranefnunnar Bokassa sem hélt að hann væri Napóleon, og forseti Frakklands lagði blessum sína yfir.
En á árunum eftir að nýlendutímabilinu lauk fóru sagnfræðingar að kafa æ meir ofan í sögu þess, og hún var ófögur. Þetta var sagan um það hvernig innrásarmenn úr vestri, búnir yfirburða tækni í vopnagerð, komu þangað sem þeir voru ekki velkomnir og lögðu þar allt og alla undir sig, í þeirri sannfæringu að vopnin gæfu þeim fullan rétt til þess. Eða eins og segir í kvæðinu:
Whatever happens we have got
The Maxime Gun, and they have not.
Og þetta var síðan sagan um hinar blóðugustu styrjaldir, sem oft urðu að hreinum útrýmingarstyrjöldum eins og í þýsku nýlendunni sem nú er Namibía, sagan um hryðjuverk, landrán, miskunnarlausa kúgun, og rupl af öllu tagi. Til vitnisburar um það eru þjóðargersemar Afríkiríkja í evrópskum söfnum. Þegar nylenduherrarnir byggðu hafnir og lögðu vegi og járnbrautir var það ekki fyrir íbúa landanna sem þeir réðu, heldur fyrir þá sjálfa, til að þeir gætu því betur nýtt sér auðlindirnar. Stundum hefur verið reynt að reikna út það fjármagn sem fór til dæmis frá Indlandi til Bretlands, það er stjarnfræðileg tala, svo há að segja má að hún sé merkingarlaus. Þetta er nú orðið að tilefni til nýrra deilna milli „vinstri” og „hægri” manna, hinir fyrri vilja horfast í augu við glæpi fyrri tíma og jafnvel bæta fyrir þá að svo miklu leyti sem það er hægt, hinir síðari vilja gera sem minnst úr þeim. Eitt skoplegt atriði í þeim deilum var þegar fyrir franska þingið var lagt frumvarp að lögum sem skyldu fyrirskipa kennurum að leggja áherslu á „jákvæðu hliðarnar” í nýlenduævintýrinu. En þessu lyktaði með því að sagnfræðingar bentu pólitíkusum kurteislega á að það væri ekki þingsins að ákveða hvað væru sagnfræðilegar staðreyndir.
Á þeim tíma sem nú er að líða blasir eitt við: það er uppgjörið eftir nýlendutímann. Það birtist í fyrrverandi nýlendum Frakka í Afríku þar sem valdhafarnir eru sem óðast að slíta samskiptunum við nýlenduherrana sem áður voru og halla sér í staðinn að Rússum og Kínverjum, og Frakkahatur grefur um sig meðal almennings. Málaliðar úr „Wagner-einkahernum koma nú í staðinn fyrir franskt herlið. Það birtist í Kína þar sem valdhafarnir vilja nú hefna fyrir ópíumstríðin tvö, og reisa við fyrra veldi Kínverja sem töldu sig eiga að ráða öllu tian xia, því sem var „undir himninum”. Nýlega birtist grein þar sem höfundur sagði að vestrænir stjórnmálamenn héldu að þeir gætu rætt við kínverska kollega sína eins og þeir ræða sín á milli á Vesturlöndum, þó þeir séu á öndverðum meið, þeir geri sér ekki grein fyrir því hve mjög Kínverjarnir hati þá. Þetta birtist í því hvernig „Suðrið”, eins og sagt er („the Global South”) stendur saman gegn Vesturlandabúum. Allt bendir til að þess sé langt að bíða þangað til Vesturlandabúar verði búnir að bíta úr nálinni með sitt nýlendubrölt.
Nú má líta svo á að þeir hörmulegu atburðir sem nú eru að gerast á Gasasvæðinu og vesturblakka Jórdanár séu liður í þessu uppgjöri. Sú er þó ekki skoðun þeirra Vesturlandabúa sem hafa stutt Ísrael frá upphafi, og á það sína skýringu. Þegar Ísraelsríki var stofnað 1948 voru menn að uppgötva hryðjuverk nasista sem varla voru nein fordæmi fyrir í sögunni, og margir voru þá með vonda samvisku, hefði ekki verið hægt að hindra þetta á einhvern hátt, til dæmis með því að sprengja þá járnbrautarteina sem lágu til útrýmingarbúðanna? Þeir voru því opnir fyrir þeirri hugmynd að það þyrfti að fyrirbyggja að nokkuð þessu líkt gæti gerst aftur, og þá með því að finna Gyðingum þjóðarheimili. Þeir trúðu því kannske mátulega að sjálfur guð hefði gefið Gyðingum land á austurströnd Miðjarðarhafs en þeir gátu ímyndað sér að þeir væru bara að koma aftur til síns heimalands sem þeir höfðu verið hraktir úr fyrir tæpum tvö þúsund árum. Því tóku þeir fúslega á móti áróðri Síonista um „land án fólks handa fólki án lands”, Palestína væri ekki annað en eyðimörk þar sem fáeinir bedúínar væru á reiki með hjarðir sínar og ættu í rauninni hvergi fasta búsetu. Þar væru Gyðingar þegar farnir að rækta appelsínur. Þannig var hægt að gera Hollywood-stórmynd úr þessum atburðum, hún var mikil harmsaga – það voru Gyðingamorð nasista – en fékk að lokum happy end – það var stofnun Ísraelsríkis. Vesturlandabúar gátu endurheimt sína góðu samvisku og vildu nú síst af öllu missa hana aftur. Svo er ekki ólíklegt að ýmsum hafi þótt hagstætt að þarna risi vestrænt ríki í arabaheiminum miðjum, sem varð nú sífellt mikilvægari vegna olíunnar, svo vestrænt að það tekur nú þátt í „Eurovision” í blóra við landafræðina.
En Arabar, svo og Múslimar í öðrum löndum, litu á þetta mál á annan hátt, og á ég þá við almenning í löndum þeirra en ekki valdhafana sem voru og eru uppteknir af sínu valdabrölti og reiðubúnir að fórna öllu fyrir það, líka Palestínumönnum. Í augum þessara manna var landtaka Gyðinga ekki annað en enn eitt nýlenduævintýrið, þarna hefði komið á vettvang mikill fjöldi manna úr annarri heimsálfu, hrakið burt þá sem þar bjuggu fyrir og sest að á landi þeirra. Til þess að ná því markmiði hefðu þeir beitt öllum ráðum og gripið til hryðjuverka, fjöldamorða í þorpum, ef því var að skipta. Á þennan hátt hefðu þeir hrakið einar sjö hundruð þúsundir Palestínumanna burt af landi sínu og inn í flóttamannabúðir í öðrum löndum. Þessa atburði kölluðu Arabar „nakba”, „hörmungarnar”. Svo er að sjá að þessir atburðir, sem myndu kallast „þjóðernishreinsun” á máli nútímans, hafi ekki vakið mikla athygli á Vesturlöndum, þar voru menn uppteknir af þeirri styrjöld sem hófst í kjölfarið milli herja Arabaríkja og Ísraelsmanna, sem lyktaði með fullum sigri Ísraelsmanna. Annað fór fram hjá þeim.
En yfirmenn Sameinuðu þjóðanna höfðu áhyggjur af því mikla flóttamannavandamáli sem þarna var augljóslega í uppsiglingu, og því var sendur á vettvang sá maður sem fór með slík vandamál innan samtakanna, það var Folke Bernadotte, sem naut mikillar virðingar, ekki síst vegna hættulegrar sendiferðar sem hann fór til Þýskalands skömmu fyrir stríðslok. En hann var skotinn til bana í Jerúsalem, morðingjarnir voru hryðjuverkamenn úr hópi Gyðinga, þeir voru aldrei sóttir til saka fyrir ódæðið, þvert á móti beið forsprakkans mikill frami í Ísrael síðar. Því er ég að rifja þetta upp, að það er meðal fyrstu endurminninga minna þegar fjölskylda mín var að hlusta á útvarpsfréttir og skyndilega var tilkynnt: „Folke Bernadotte var skotinn til bana í Jerúsalem”, og ég man gjörla hvað fullorðna fólkið varð reitt yfir þessum ótíðindum. En þessi atburður féll síðan í gleymsku með öllu, Folke Bernadotte virðist varla vera nafn á blöðum sögunnar.
Arabar hafa því litið svo á æ síðan að þessir atburðir séu óuppgert mál frá nýlendutímabilinu. Því hefur illdeilum aldrei linnt síðan með styrjöldum eða hryðjuverkum á báða bóga, hvort sem fjölmiðlar taka eftir því eða ekki. Nokkur undanfarin ár tóku þeir ekki eftir neinu og þá fóru stjórnmálamenn að ímynda sér að málið væri úr sögunni, enda tókst Bandaríkjamönnum að koma á friðarsamningum milli leiðtoga Ísraels og nokkurra Arabaríkja án þess að Palestínumanna væri að nokkru getið. Sýnir þetta furðulega skammsýni stjórnmálamanna og reyndar ábygðarleysi. Þeir virtust ekki átta sig á því að með þessu voru þeir einungis að sópa vandanum undir teppið.
Þeir vöknuðu upp af illum draumi 7. október, og til að breiða yfir það hve mjög þeir hefðu sofið á verðinum héldu sumir því fram að þarna hefðu hryðjuverkasamtökin Hamas byrjað á stríði, líkt og þegar Japanir réðust á Pearl Harbour. En í augum Araba voru hryðjuverkin alls ekkert „upphaf”, þau voru aðeins nýr þáttur í deilunum, framhaldið á langri keðju atburða, næst á undan voru það morð Ísraelsmanna, hers og landnema, á Palestínumönnum á hægri bakka Jórdanár. Og nú standa menn uppi ráðalausir með öllu. Til að láta svo líta út að þeir viti samt um einhverja lausn, veifa ýmsir valdhafar áætlun um ríkin tvö. En það er eins gott að gera sér grein fyrir því að sú hugmynd er loftkastali, til að stofna eitthvert lífvænlegt ríki Palestínumanna þyrfti að flytja hundruð þúsundir ísraelskra landnema burt af herteknu svæðunum og það er með öllu ógerlegt. Þeirri stjórn Ísraels sem léði þessari lausn eyra yrði samstundis velt úr stóli. Því mun þetta mál halda áfram um ófyrirsjáanlega framtíð, með öllum þeim hryðjuverkum sem því fylgja. Enginn getur spáð neinu um það hvað kunni að gerast, en vafalítið er að þessir atburðir marki þáttaskil. Eitt lítið merki um það er að nú er orðið „nakba” komið inn í mál blaðamanna.
Athugasemdir