Sumarið '67 var ég tólf ára polli að bera út dagblaðið Vísi til áskrifenda í Kópavogi. Það var sumarið sem sex daga stríðið var háð. Með blaðburðinum gat ég auðveldlega fengið fréttir af gangi mála fyrir botni Miðjarðarhafs og ég gladdist með sjálfum mér yfir velgengni Moshe Dyans og hers Ísraelsmanna í baráttu sinni við arabíska frekjuhunda og óþjóðalýð. Guðs útvalda þjóð var heldur ekki ein á báti; hún var dyggilega studd af Bandaríkjamönnum. Þeir voru líka í miklu uppáhaldi hjá mér.
Síðan hef ég lært að til eru tvær ef ekki fleiri hliðar á flestum málum. Eins og það, að þegar Ísraelsríki var formlega stofnað 1948 voru Sameinuðu Þjóðirnar búnar að gera áætlun um hversu mikið landsvæði skyldi falla í hlut Ísraelsmanna af þeim ca 26 þúsund ferkílómetrum sem Bretar höfðu skammtað Palestínumönnum eftir fyrri heimsstyrjöld. Í þeim efnum var horft til tilveruréttar þeirra hlutfallslega fáu Gyðinga sem höfðu sest þar að. Þessir tveir þjóðflokkar höfðu landsvæðið fyrir botni Miðjarðarhafs sameiginlega til umráða og skiptu því bróðurlega með sér. En skömmu eftir stofnun ísraelsríkis, eftir að Gyðingar fóru í fyrsta stríðið við nágranna sína og ráku hundruð þúsunda Palestínumanna frá heimilum sínum og löndum, sölsuðu þeir miklu stærri hluta landsvæðis undir sig heldur en þeim hafði verið ætlað að hálfu Sameinuðu Þjóðanna. Í sex daga stríðinu hernámu Ísraelar stærstan hlut þeirrar Palestínu sem áður var, og hnepptu nágranna sína í herkví á Vesturbakka Jordanár og á Gasaströndinni. Þá urðu þessi tvö aðþrengdu og aðskildu svæði lífsrými palestínskrar þjóðar, sem gert var að búa á innan við fjórðungi þess landsvæðis sem áður fyrr tilheyrði henni.
Steininn tók þó úr þegar Ísraelar ákváðu árið 2002 að loka Palestínumenn inni á Vesturbakkanum og síðar á Gazaströndinni með múr sem umlykur þessi svæði. Gera heila þjóð fangna í sínu eigin landi, loka hana inni í eins konar „gettói”, líkt því sem Nasistar gerðu við Gyðinga í Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni.
Allar götur síðan í stríðinu 1948 hafa þessir tveir þjóðflokkar, Gyðingar og Palestínumenn barist á banaspjótum. Palestínumenn til að verja uppruna sinn og land, en Ísraelsmenn til að tryggja sér „Lebensraum” og ásælast meira af landi. Á undanförnum árum hafa þeir brotist inn á takmarkað landrými Palestínumanna á Vesturbakkanum og hrakið þarlenda bændur frá sínum bestu landbúnaðarsvæðum í nafni landnemabyggðar. Náð undir sig 500 ferkílómetrum til viðbótar af naumt skömmtuðu landrými Palestínumanna. Í mínum augum má rekja þetta stríðsástand, sem staðið hefur yfir í 75 ár, einkum til eigingirni, yfirgangs og skeytingarleysis herraþjóðarinnar um velferð náunga síns. Með þessu framferði hafa Ísraelsmenn uppskorið hatur hins undirokaða.
Þekkt er að úr slíkum jarðvegi misréttis spretta öfgafullir hópar ungra reiðra karlmanna sem meta aðstæður svo, að þeir eigi sér hvorki framtíð né von. Sært þjóðarstolt er kannski það eina sem eftir er. Á fagmáli er þetta kallað „Angry young man syndrome” eða „Irritable male syndrome"(IMS). Því eru sumir einstaklingar á meðal Palestínumanna tilbúnir að leggja allt í sölurnar -lífið þar með- til að láta með voðaverkum reiði sína í ljós gagnvart valdníðslu sem þeir telja sig vera beittir. Í raun eru þessar aðstæður, hatur og vonleysi, eins konar tímasprengja sem smám saman þróast út í brjálæði og getur leitt af sér jafn skelfilegan atburð og mannkynið varð vitni að þann 7. október s.l.
Þrátt fyrir að tónninn hafi verið gefinn árið 2011 með viðurkenningu ríkis Palestínumanna, stöndum við Íslendingar nú hjá og horfum á úr fjarlægð. Sér í lagi hikandi ráðamenn okkar, hnjótandi um hverja örðu sem finna má í götunni. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki haft þor til að ganga fram fyrir skjöldu hinna hlutlausu og huglausu ríkja og fordæma framferði Ísraela við að beita einni öflugustu vígvél jarðar fyrst og fremst gegn saklausu fólki. Herja á rústuð börn á rústuðum svæðum, börn sem standa óvarin í hringiðu þjóðarmorðs, börn sem hafa unnið sér það eitt til saka að fæðast og vera til. Eru svo lítils virði í hugum ráðamanna herraþjóðarinnar að dýr – allt frá býflugum til hryggdýra, sem varin eru hér á landi með lögum um velferð þeirra – eru mun betur sett og í mannúðlegra umhverfi heldur en þessi börn á Gaza. Á menntaskólaárum mínum lásum við í enskutímum sögu eftir Georg Orwell sem heitir „Animal Farm”. Helsta kennisetningin þar var „All animals are equal - but some are more equal than others”. Þetta var haft eftir svínunum. Mér verður tíðhugsað til þessara orða í sambandi við það ójafna og því næst einhliða útrýmingarstríð sem nú geisar á Gazaströndinni.
Við Íslendingar getum sennilega ekki stöðvað þetta stríð vitfirringar og mannfyrirlitningar sem er svo óhugnanlegt, að íbúar Gazastrandarinnar eru farnir að óska með sér að kjarnorkusprengju verði varpað á svæðið til að binda endi á þjáningar fólksins þar. En við getum sýnt í verki að íslensk þjóð í heild sinni hafi samkennd með þeim sem sannarlega eru ofbeldi og órétti beitt. Við getum látið skoðun okkar í ljós með því að koma munaðarlausum, brotnum börnum úr þessum hildarleik sem fyrst til hjálpar á meðan engan endi hörmunganna er að sjá. Hjálpa palestínskum börnum til að hefja nýtt líf, eignast öruggt skjól og bjartari framtíð hér á landi.
Hún er afleiðing af yfir 70 ára kúgun, ofbeldi, morðum og landráni zionískra blóðþystra stríðsglæpamanna.
Fólk sem heldur því fram að hamas hafi startað þessu.
Er annað hvort afskaplega fáfrótt um þessa ömurlegu sögu eða það er bara sorglega illa gefið og eða með hraða beinmyndun á milli eyrnana.
Ég fordæmi bæði zionista og hamas út í eitt!