Ísrael liggur í Vestur Asíu, við botn Miðjarðarhafs, og eru nágrannaríkin Egyptaland, Jórdanía, Sýrland og Líbanon. Ísrael er þannig auðvitað ekki hluti af Evrópu, eða í Evrópu, heldur hinu megin við Miðjarðarhaf, sem aðskilur Vestur Asíu og Norður Afríku frá, einmitt, Evrópu.
Það vekur því nokkra undrun, að Ísrael er haft með í margvíslegum viðburðum, íþróttamótum og skemmtanahaldi, knattspyrnumótum og söngvakeppnum, sem eru kenndir við Evrópu og ættu eingöngu að vera fyrir evrópskar þjóðir.
Hví er Ísrael þar með ein allra þjóða á þessu svæði!? Líka má spyrja, hví er Ísrael með í evrópskri knattspyrnu, Meistaradeild Evrópu?
Þessari spurningu má velta fyrir sér, en líklegt er, að sterk viðvera og mikil áhrif Gyðinga í Evrópu, og, reyndar, víða um heim, ekki sízt í Bandaríkjunum, hafi tryggt þeim þessa sérstöðu, þessi „forréttindi“, en Ísrael hefur aðeins notið takmarkaðrar vináttu við nágrannaríkin, og varð því að leita lengra eftir samvinnu, félagsskap og vináttu á þessum sviðum.
Nú er það góð alþjóðleg regla, að blanda sem minnst saman stjórnmálum, annars vegar, og íþróttum eða menningar- og skemmtanamálum, hins vegar. Á margan hátt eru einmitt þessi samskipti þau, sem halda alþjóðasamfélaginu saman. Þau eru því geysi þýðingarmikill.
Það eru þó mörk í öllum málum, og hefur bæði rússneskt íþróttafólk og tónlistarmenn orðið að sæta þátttökubanni, meira og minna, t.a.m. nú í Eurovision, vegna þess, að Pútín/Rússland hefur gert sig sekan um óforsvaranlegt, óréttlætanlegt og grimmilegt árásarstríð gegn Úkraínu að mati alþjóðasamfélagsins. Þarna hafa verið mörkuð ákveðin siðferðismörk. Rauð lína.
Það er óumdeilanlegt, að árás Hamas á Ísrael 7. október sl. var ómennsk og með öllu forkastanleg, þó að hún hafi ekki komið úr tómarúmi, eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, benti á í ræðu fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, og, að Ísrael, eins og öll sjálfstæð og fullvalda ríki, hafi fyllsta rétt til að verja sitt land og fólk, en gagnárásin, hefndin, virðist hafa farið yfir öll mennsk og siðferðisleg mörk. Alla vega er það mitt mat.
Gömul réttlætis- og refsiregla, sem hefur verið höfð í hávegum um aldir og árþúsund, m.a. sem hluti margra trúarbragða, og ég hef vitna í áður, segir: „Auga-fyrir-auga-og-tönn-fyrir-tönn“.
Þessi regla á að tryggja, að refsing eða hefnd jafngildi broti eða sök, að þar sé jafnræði á milli. Hún á ekki að ganga lengra en brot. Þetta hefur verið talið réttlæti.
Gagnárás og refsing Ísraelshers hefur, hins vegar, frekar mátt kenna við reglu, sem héti „tennur-fyrir-tönn-og-augu-fyrir-auga“, því, þó að brotið hafi verið illt og heiftarlegt, hefur refsingin, hefndin, verið margföld að umfangi, þunga og djöfulgangi. Tíföld í mannslífum, þar af mikill hluti börn, unglingar, konur og gamalmenni.
Þarna hefur grimmdin og ómennskan, tillitsleysis við lífi, limi og velferð annarra, gengið allt of langt, allar línur Sameinuðu þjóðanna og allra helztu mannúðar- og læknasamtaka heims, Rauða krossins og Rauða hálfmánans, öll alþjóðalög, svo og mótmæli og tilmæli flestra þjóðarleiðtoga og áhrifamanna, 153 þjóða á Allsherjarþingi SÞ 12. desember sl., verið hunzaðar með öllu.
Og, fyrir mér er vondur þefur af því, að, af þeim 9 þjóðum, sem stóðu með Ísrael í atkvæðagreiðslunni 12. desember, voru 6 ýmist óþekkt smáríki í Kyrrahafi eða ríki, sem lítils eða einskis mega sín á alþjóðavettvangi:
Gvatemala, Líbería, Míkrónesía, Náúru, Papúa Nýja-Gínea, Paragvæ. Skyldu þau hafa verið „keypt“?
Í 15-þjóða Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, stærstu og áhrifamestu þjóða heims, kröfðust 13 þeirra tafarlauss vopnahlés á dögunum, ein sat hjá og aðeins ein beitti neitunarvaldi, og svo hélt Ísraelsher því, sem ég vil kalla ódæði og þjóðarmorð, að fullu áfram, eins og ekkert hefði í skorizt.
Engin virðing ekki einu sinni við Sameinuðu þjóðirnar, þingi allra þjóða heims, sem er eina samkundan, sem er að reyna að halda þessari veröld saman, í mennsku formi.
Fyrir mér hafa Ísraelsmenn líka farið langt yfir rauða línu, eins og Rússar, þó að með nokkuð öðrum hætti sé. Þeir eru heldur ekki Evrópubúar.
Hver og einn, sem getur ekki sætt sig við eða unað blóðbaðinu og þeirri illvígu aðför að almenningi, sem Ísraelsher stendur að á Gaza, verður að senda þeim sín skilaboð þar um, með þeim hætti, sem hann getur eða kann.
Ég tek undir kröfu þeirra, sem fara fram á, að fulltrúa Ísraels verði meinað að taka þátt í Eurovision, sem á að fara fram í Malmö í maí 2024, eða, að Ísland dragi annars sína þátttöku til baka.
Hér væri um skýr skilaboð til Ísraelsmanna að ræða, um það, að við, Íslendingar, sættum okkur ekki þegjandi og hljóðalaust við barnamorð og rústun byggðar og innviða á Gaza.
Kannske myndu aðrar þjóðir, þátttakendur í Eurovision, taka undir, sem gæti magnað áhrif skilaboðanna, og væri það vel. Þessu ferli þyrfti að hraða.
Höfundur er stofnandi Jarðarvina.
Athugasemdir (3)