Einn af æðstu embættismönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var settur í tímabundið leyfi fyrr á þessu ári. Upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfesti við Heimildina í dag að maðurinn væri kominn aftur til starfa. Eitt af því sem var til skoðunar áður en hann fór í leyfi var ákvörðun hans um að taka kvenkyns undirmann sinn úr fyrirhugaðri aðgerð hjá embættinu án faglegrar ástæðu.
„Stöðug skilaboð í gegn um samfélagsmiðla, stundum marga tugi á einni helgi“
RUV greindi frá því í kvöld að maðurinn hafi áreitt lögreglukonuna og sýnt henni ofbeldisfulla hegðun. Hann hafi valdið henni mikilli vanlíðan og ótta, auk þess sem valdaójafnvægið hafi verið mikið en hann var ekki aðeins í valdameiri stöðu en hún heldur er hann um þrjátíu árum eldri. Þá hafi hann þvingað hana til að taka á móti sér á heimili hennar seint að kvöldi, setið fyrir henni í vinnunni og „sendi henni stöðug skilaboð í gegn um samfélagsmiðla, stundum marga tugi á einni helgi,“ að því er kom fram í Kastljósi.
Engin stuðningur frá yfirstjórn
Sálfræðistofa var fengin til að skoða málið eftir að konan lagði fram kvörtun vegna háttsemi mannsins. Af tólf atvikum sem þar voru skoðuð þóttu tíu falla undir skilgreiningu á ofbeldi. Samkvæmt heimildum RUV hefur yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ekki sýnt konunni neinn stuðning vegna málsins, hvorki Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri né undirmenn hennar. Konan óskaði eftir flutningi í starfi og er nú kominn á aðra starfsstöð.
Í umfjölluninni kom ennfremur fram að mikil óánægja væri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með hvernig tekið var á málinu. Halla Bergþóra neitaði að veita Kastljósi viðtal vegna málsins.
Neitaði fyrir leyfi mannsins
Blaðamaður Heimildarinnar hafði samband við Höllu Bergþóru í haust með fyrirspurn um hvort umræddur lögreglumaður væri kominn í leyfi en hún sagði það rangt. Nokkrum dögum síðar birtist frétt á öðrum miðli um að maðurinn væri sannarlega kominn í leyfi. Þegar blaðamaður Heimildarinnar spurði kynningarfulltrúa embættisins út í svörin sem höfðu fengist frá Höllu Bergþóru stuttu áður sagði hann að maðurinn hafi sannarlega verið í leyfi en lögreglustjóri hafi verið að að vísa til þess að umræddum starfsmanni hafi ekki verið veitt lausn frá embætti.
Þá var vísað til þess að þetta sé ekki eina málið sem mikil óánægja sé innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með hvernig tekið hafi verið á, og rifjuð upp frétt Heimildarinnar frá því á föstudag um að þrjár starfskonur embættisins hafi pantað þjónustu strippara í fræðsluferð til Auschwitz í síðasta mánuði.
Athugasemdir