Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, segir í samtali við Heimildina að afstaða RÚV gagnvart þátttöku Ísrael í Eurovision sé „á sömu línu og EBU og annara almannaþjónustumiðla.“ Það eigi bæði við um ákvörðun sambandsins um reka Rússland úr söngvakeppninni, og svo þeirrar að leyfa Ísrael að halda áfram að taka þátt í söngvakeppninni.
Þá vísar Stefán í nýlega yfirlýsingu Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU), þar sem þátttaka Ísrael er rædd með tilliti til afstöðu samtakanna gagnvart Rússlandi. Þar segir að ákvörðunin um að víkja Rússlandi úr keppni og samtökunum hafi verið vegna þess að rússneski ríkisfjölmiðillinn hafi brotið gegn reglum sambandsins og gildum almannaþjónustumiðla.
Úttekt EBU hafi hins vegar sýnt fram á að ísraelski ríkisfjölmiðillinn færi eftir settum reglum og uppfyllti öll skilyrði fyrir áframhaldandi þátttöku í keppninni. Auk þess benti Stefán að Rússland taki ekki þátt í neinum öðrum alþjóðlegum keppnum á alþjóðlegum vettvangi, eins og fótbolti og ólympíuleikar eru gott dæmi um, það sama á ekki við um Ísrael.“
Þátttaka Ísraels í Eurovision hefur lengi verið til umræðu. Mörg erindi hafa borist í gegnum tíðina þar sem kallað eftir því Ísland dragi sig úr söngvakeppninni í mótmælaskyni við stefnu ísraelskra stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum. Sú umræða hefur orðið sérstaklega hávær núna vegna átakanna sem nú geysa og hernaðaraðgerða Ísraela á Gazasvæðinu, þar sem tugþúsundir Palestínumanna hafa farist.
Þátttaka Íslands gagnrýnd
Um 5.900 manns hafa skrifað undir lista þar sem skorað er á RÚV að draga sig úr keppni. Stefán Eiríksson hefur tilkynnt að RÚV muni ekki bregðast við þessari áskorun. Stefnt er að því RÚV taka þátt í keppninni eins það hefur gert síðan 1986.
Margir hafa stigið fram og gagnrýnt þessa ákvörðun RÚV. Þar á meðal rithöfundurinn Bragi Páll sem vakti athygli á gjörólíkri afstöðu útvarpsstjóra gagnvart þátttöku Rússlands annars vegar og gagnvart Ísrael hins vegar. Í færslunni lýsir Bragi þessu sem „tvöföldu siðgæði.“
Spurður út í þessa gagnrýni þar sem bent er á þessa ólíku stefnur RÚV segir Stefán að „RÚV hefur engar sérstakar skoðanir á þessum átökum per se, við erum bara að tala þarna um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og það sem að henni snýr. Þannig það er alveg skýrt, RÚV hefur ekki það hlutverk að taka afstöðu.“
Stefán segir hlutverk RÚV vera fyrst og fremst að flytja fréttir gæta þess að sá fréttaflutningur sé hlutlaus og hlutlægur eins og lög kveða á um.
Athugasemdir