Samkeppniseftirlitið hefur skilað inn viðbótarumsögn um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp þar sem það vill „undirstrika þá grafalvarlegu stöðu sem eftirlit með samkeppni á Íslandi er komið í.“
Í umsögninni, sem Sveinn Agnarsson stjórnarformaður og Páll Gunnar Pálsson forstjóri skrifa undir, er bent á að eftirlitið hafi ítrekað varað stjórnvöld við þeim þrönga stakk sem því hafi verið skorinn og leitt hafi til þess að það hafi til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Vegna þessa hafi Samkeppniseftirlitið þurft að beita forgangsröðun verkefna og þannig neyðst til að draga úr starfsemi í mikilvægum verkefnaflokkum.
Eftirlitið bendir á að samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi muni fjárframlög til þess verða 20 prósent lægri á næsta ári á föstu verðlagi en þau voru árið 2014. „Á sama árabili munu umsvif í efnahagslífinu aukast um og yfir 35- 40 prósent. Á sama tíma hafa ný verkefni bæst við og meiri kröfur gerðar, t.d. um rannsókn samrunamála. Þessi þróun er komin langt út fyrir öll þolmörk.“
Fjárframlög til eftirlitsins á næsta ári verða 582 milljónir króna en væru um einn milljarður króna ef þau hefðu fylgt breytingum á umsvifum efnahagslífsins frá árinu 2014. Ef þau hefðu haldist óbreytt á föstu verðlagi frá því ári væru þau 723 milljónir króna. Um 80 prósent af útgjöldum Samkeppniseftirlitsins eru vegna launa og launatengdra gjalda starfsfólks. Fjöldi ársverka hjá eftirlitinu er, þrátt fyrir stóraukin umsvif efnahagslífsins, nánast sá sami og hann var fyrir áratug. Þá voru ársverkin 24,1 en í fyrra voru þau 25,6.
Aðhaldskrafa stenst enga skoðun
Í umsögninni segir að það standist enga skoðun að stjórnvöld taki ekki tillit til þessarar þróunar þegar fjárheimildir eftirlitsins eru ákveðnar, heldur séu þau þvert á móti að gera aðhaldskröfu til þess. Það sé sérstaklega alvarlegt meðal annars vegna þess að viðurkennt sé að samkeppni á mikilvægum mörkuðum á Íslandi sé ábótavant. Fyrri rannsóknir Samkeppniseftirlitsins, sem margar hafi verið staðfestar af dómstólum, varpi skýru ljósi á þetta. Sömuleiðis liggi fyrir að samkeppnishindranir geti verið sérstaklega skaðlegar í litlum hagkerfum.
Þá er efling samkeppni rétt viðbrögð við efnahagserfiðleikum eins og þeim sem nú ríkja, þegar verðbólga er átta prósent og verðhækkanir eru miklar. „Breið samstaða er um það meðal þjóða að virk samkeppni á mörkuðum stuðli til lengri tíma að heilbrigðri atvinnustarfsemi og þar með traustara efnahagslífi. Seðlabankinn og ýmsir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa undanfarið bent á þetta. Víða á meðal nágrannalanda er verið að styrkja samkeppniseftirlit.“
Ábatinn 18-31föld fjárframlög til eftirlitsins
Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi skilað af sér stjórnsýsluúttekt í júlí 2022 um starfsemi Samkeppniseftirlitsins, þar sem fram hafi komið að engir stórkostlegir ágallar væru á því og lagðar voru til ýmsar aðgerðir til að styrka eftirlitið, sem kölluðu á auknar fjárheimildir, hafi ekkert verið gert.
Ein af styrkingartillögum Ríkisendurskoðunar hafi verið að framkvæma skyldi reglubundið mat á ábata af íhlutunum Samkeppniseftirlitsins, sem rýnt yrði af utanaðkomandi aðila. „Á næstunni verður birt ábatamat í samræmi við þessi tilmæli, en það hefur verið rýnt af Jóni Þór Sturlusyni, forseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Niðurstöður ábatamatsins sýna að á árabilinu 2013-2022 hefur árlegur reiknaður ábati af íhlutunum Samkeppniseftirlitsins numið um 18-31 földum fjárveitingum til eftirlitsins, eða 0,31 - 0,53 prósent af vergri landsframleiðslu.“
Í gildandi fjármálaáætlun eru sett markmið um að reiknaður ábati af starfi eftirlitsins skuli nema 0,5 prósent á hverju tíu ára tímabili. Miðað við gildandi og fyrirhugaðar fjárheimildir eftirlitsins ætlar Samkeppniseftirlitið að þeim markmiðum verði ekki náð. „Núgildandi og fyrirhugaðar fjárheimildir skerða því ábata almennings af samkeppniseftirliti. Í þessu samhengi ber jafnframt að nefna að frá árinu 2014 til 2024 má ætla að hlutfall framlaga til Samkeppniseftirlitsins lækki úr um 0,019 prósent af VLF í 0,013 prósent.“
Athugasemdir (2)