„Ég verð drottning Frakklands!“ staðhæfði Jósefína innan um rotturnar í fangelsi ógnarstjórnarinnar
María Antonetta drottning Loðvíks 16. á leið undir fallöxina í kvikmynd Ridleys Scotts um Napóleón. Allar líkur voru á að verðandi drottning Napóleons, Jósefína/Rose Tascher færi sömu leið.
Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Ég verð drottning Frakklands!“ staðhæfði Jósefína innan um rotturnar í fangelsi ógnarstjórnarinnar

Hún hélt að hún væri á leið und­ir fallöx­ina, en þá sást göm­ul kona dansa fyr­ir ut­an fang­els­ið.

Þar var komið sögu af Jósefínu Bónaparte að sumarið 1794 var hún enn nefnd Rose Tascher. Hún var þrítug og af gamalgrónum aðalsættum en þó í rauninni bláfátæk og franska stjórnarbyltingin stóð sem hæst með öllum sínum viðsjám. Hún og eiginmaður hennar, greifinn Alexandre de Beauharnais, höfðu í reynd slitið sambandi en í gegnum hann komst hún þó í samband við ýmsa vel stæða mektar- og valdamenn sem hún þáði af fé, greiða og uppihald nokkur misseri.

Hugðist flýja til Bretlands

Einhvern veginn varð Rose náttúrlega að sjá fyrir sér og börnunum, Eugène, 12 ára og Hortense, 11 ára. Snemma árs 1793 hafði kóngurinn Loðvík 16. verið tekinn af lífi af byltingarmönnum og þá voru róstur svo miklar í Frakklandi að Rose hugðist senda börn sín til Bretlands og flýja svo sjálf á eftir þeim en Alexandre kom í veg fyrir það. Hann hafði þá náð miklum frama í röðum byltingarmanna og stýrði stórum her á þeirra vegum við Rínarfljót.

Ekki er ætlunin að rekja hér sögu byltingarinnar, svo merkileg sem hún er. Í bili dugar að taka fram að undanfarin misseri höfðu deilur farið mjög vaxandi milli byltingarmanna um hvert stefna skyldi og hve hratt fara.

Þeir róttækustu voru nefndir Jakobínar og náðu helstu völdum í París og helstu borgum Frakklands sumarið 1793. Þeir kölluðu sig Nefnd um öryggi almennings og töldu réttlætanlegt að ná hinum göfugu markmiðum byltingarinnar með offorsi og ofbeldi. Upphófst þá sannkölluð, meðvituð og markviss ógnarstjórn þar sem sífellt hvein í fallöxinni og nokkrar tugþúsundir „óvina byltingarinnar“ voru gerðar höfðinu styttri eða skotnar með fallbyssum og þurfti ekki miklar sakir til.

Stundum engar.

Ógnarstjórnin

Í tæpt ár varð ógnarstjórn Jakobína sífellt ógnarlegri og yfirþyrmandi ótti lagðist yfir samfélagið. Um leið óx „siðprýði“ mið- og yfirstéttanna því fólk vildi ekki taka mikla áhættu, hvorki í opinberu né einkalífi; aldrei að vita hvar kjaftatífur og njósnarfólk ógnarstjórnarinnar leyndist. Hinn strangi og siðavandi leiðtogi Jakobína, Robespierre, leyfði hvorki léttúð né skiptar skoðanir; þá blasti fallöxin við.

Lamandi drungi lagðist yfir. Allir gengu um gráklæddir í von um að enginn tæki eftir þeim. Fæðandi konur voru dregnar úr sænginni og út á Place de la Révolution þar sem fallöxin beið. Óttinn var slíkur að þegar byltingarverðir komu og handtóku einhvern og tróðu upp á vagn til að flytja á torgið, þá komu ástvinir hans sér fyrir á gangstéttinni og fögnuðu sem mest þeir máttu að komist hefði upp um „sökudólginn“.

Því annað mátti túlka sem „stuðning við harðstjóra“ konungsveldisins gamla 

David undirritaði handtökuskipan Alexandres

Í mars 1794 brá svo við að Alexandre de Beauharnais hershöfðingi var handtekinn, sakaður um landráð, því hann þótti hafa staðið sig hraksmánarlega illa í stríði sem byltingarstjórnin átti þá í við óvini sína í Þýskalandi. Auk þess gerði aðalstign hans hann nú sjálfkrafa tortryggilegan í augum Jakobína.

Það var málarinn víðfrægi David sem undirritaði handtökuskipan Alexandres. Hann var þá æstur Jakobíni og byltingarseggur þó síðar yrði hann hirðmálari keisarans.

Rose skrifaði öryggisnefndinni og bað eiginmanni sínum griða. Þar með voru örlög hennar sjálfrar ráðin. Nefndinni barst kæra um að á heimili hennar kæmu stundum saman „grunsamlegir aðilar“. Tveir menn á snærum nefndarinnar leituðu í húsakynnum hennar og tilkynntu reyndar að þeir fyndu ekkert grunsamlegt. En það breytti engu þegar myllur Robespierre voru teknar að mala. Byltingarverðir börðu snemma morguns að dyrum hjá Rose.

Hún gat ekki fengið af sér að vekja börnin sín til að kveðja þau.

„Ég gat ekki afborið að sjá þau gráta,“ sagði hún seinna.

Blóðugir veggir

Hún var flutt í illræmdasta fangelsi Parísar, Les Carmes, þar sem áður hafði verið klaustur. Tæpum tveim árum fyrr höfðu byltingarmenn framið þar grimmileg fjöldamorð á mörg hundruð föngum sem voru grunaðir um andstöðu við byltinguna. Þetta voru aðallega kirkjunnar menn og enn mátti sjá blóðslettur á veggjum fangelsisins og för eftir sverð og lurka þar sem prestar og munkar og nunnur höfðu verið hökkuð í spað í nafni frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Þarna sátu nú hundruð lúsugra niðurbrotinna fanga innan um rottur og mýs, sumir nærri allsberir huldir eigin skít, sinnulitlir og vonlausir. Aðrir báru sig furðu vel og á samverustundum fanganna síðdegis var siður að veifa glaðlega í kveðjuskyni til þeirra sem byltingarverðirnir komu til að flytja undir fallöxina þann daginn.

Varla nokkur maður lifði af vist í Les Carmes þessi misserin. Rose gat því ekki búist við öðru en vera flutt á hverri stundu á aftökustað. Hún deildi klefa með mörgum öðrum konum, allt frá götudrósum til hertogaynja. Það hafði verið málað yfir alla glugga svo dagsbirta komst varla inn.

En þrátt fyrir allan þennan ömurleika þá kviknaði þó ást innan múranna.

Ást, eða hvað við viljum kalla það.

Ást í fangelsinu

Alexandre átti illa vist í Les Carmes, hann var orðinn fársjúkur og vissi vel að brátt fengi hausinn að fjúka. Samt náði hann sér í kærustu þar inni og naut hennar síðustu vikurnar. Og það gerði Rose líka. Þarna var einn fangi sem naut nokkurrar sérstöðu, var í eins manns klefa, fékk góðan mat og vín og ekki var víst að yrði á endanum höggvinn. Þetta var kornungur og frægur hershöfðingi, Lazare Hoche, glæsilegur skörulegur maður og Rose lagði snörur sínar fyrir hann. Þeim árum sem hún hafði varið til að fínpússa þá hæfileika að veiða valdamikla og/eða auðuga karlmenn í net sín til að tryggja sér og börnunum viðurværi, þeim hafði verið vel varið og þau Hoche áttu ástríðufullar vikur í Les Carmes í sumarbyrjun 1794.

En svo var hann fluttur í annað fangelsi svo öryggisnefndin ætti hægara með að yfirheyra hann. Allir vissu að ef Lazare Hoche slyppi lifandi úr greipum nefndarinnar ætti hann mikinn frama í vændum, slíkir voru mannkostir hans og persónutöfrar. Af örlögum hans segir kannski síðar en nú var hann genginn Rose úr greipum og vonleysið lagðist aftur yfir hana, líkt og hina fangana.

Hundurinn bar skilaboð

Eina gleði hennar fólst í örstuttum bréfum sem hún fékk stöku sinnum frá börnunum sínum en þau þjálfuðu smáhundinn hennar Fortuné til að skjótast inn í fangelsið, sneiða hjá risavöxnum rottunum og finna húsmóður sína og færa henni bréfmiða, falda undir hálsólinni. Einu sinni tókst Rose og Alexandre að múta fangavörðunum til að opna glugga á fangelsismúrnum svolitla stund og þá höfðu Eugène og Hortense komið sér fyrir í sjónmáli við þennan glugga og öll fjögur grétu af gleði og sorg.

Seint í júlí var Alexandre leiddur undir fallöxina. Hann vissi hvað til stóð og þessi armi þrjótur gerðist nú óvænt göfuglynt stórmenni á sínum hinsta degi og skrifaði Rose fallegt kveðjubréf þar sem hann bað hana fyrir börnin þeirra og fór fögrum orðum um mannkosti hennar og vináttu þeirra. Þetta var örvæntingarfull tilraun dauðadæmds manns til að bjarga lífi hennar, móður barnanna hans, en allir máttu þó vita að það væri þýðingarlaust.

Því nú hafði Robespierre fellt úr gildi síðustu leifarnar af réttarvernd fanga öryggisnefndarinnar. Nú mátti drepa alla, bókstaflega alla, án þess nokkur mætti bera við að verja sig.

„Þú verður mín hefðarmær“

Nokkrum dögum síðar komu fangaverðir í klefa Rose og hirtu rúmbekkinn hennar. Einn klefanautur hennar, hertogaynjan d’Aguillon, spurði hvort hún fengi ekki skárra flet í staðinn.

„Nei, hún þarf þess ekki,“ sagði fangavörðurinn. „Það er búið að ákveða að hún fari í fallöxina.“

„Nei, hún þarf þess ekki,“ sagði fangavörðurinn. „Það er búið að ákveða að hún fari í fallöxina.“

Konurnar brustu í grát – nema Rose Tascher. Svipur hennar var stilltur þegar hún sagði öllum til stórrar furðu: „Nei, ég mun ekki deyja. Þvert á móti verð ég drottning Frakklands.“

Engin hugmynd var fráleitari þá en að þessi lúsuga, snoðklippta dauðadæmda drós yrði drottning Frakklands. Hertogaynjan hélt að hún hefði skyndilega brjálast við fréttir fangavarðarins og ætlaði að taka þátt í leiknum með því að segja: „Jæja góða, og ertu búin að skipa í hirð þína?“

„Já, þú verður mín aðal hefðarmær,“ svaraði Rose Tascher rólega.

Konurnar grétu enn meir.

Gömul kona stígur dans

En síðar þann sama dag gerðust óvænt tíðindi. Hertogaynjan og Rose fengu að gægjast út um glugga á fangelsinu svolitla stund og sáu gamla konu í fjarska við óvænta iðju á götunni.

Fyrst lyfti hún pilsum sínum. Svo þreif hún upp stein af götunni og vafði inn í pilsið. Svo dró hún fingur yfir hálsinn og glotti.

Loks dansaði hún eins og gleðidans.

Eftir svolitla stund áttuðu konurnar sig á því hvaða skilaboð gamla konan var að bera.

Pils – robe. Steinn – pétur, pierre. Fingurinn, skorið á háls – dauði.

Robespierre var dauður.

Var furða þótt gamla konan dansaði af gleði?

Kjósa
23
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • TM
    Tómas Maríuson skrifaði
    Og hún var 6 árum eldri en Napoleon en slíkt fer auðvitað ekki vel í kvikmyndaiðnaðinn enda lagðist Ridley Scott svo lágt að velja leikkonu í hennar hlutverk sem er 14 árum yngri en leikarinn sem fer með hlutverk Napoleons.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár