Ég var á ferð um vesturströnd Írlands í nóvemberlok og dvaldi í þeim fallega bæ, Galway. Þar búa áttatíuþúsund manns við mynni Corrib árinnar þar sem hún rennur út í Atlantshafið. Þetta er ferðamannabær, mikið menningarsvæði og vesturströndin er ægifögur. Írar eru bókmenntaþjóð. Þeir tala ekki mikið um það, en eru það bara. Bókmenntir eru hluti af tilvistarkerfinu, skipulaginu og háttalaginu.
Í bænum Galway eru átta bókabúðir, fyrir nú utan margar aðrar í bæjarjaðri. Á Írlandi er ekki árlegt og sturlað jólabókaflóð sem matvöruverslanir hafa yfirtekið, heldur nokkuð jafnt og stöðugt sírennsli bóka um næringarkerfi þjóðarinnar allt árið um kring þar sem bókaverslanir hafa vigt og samfélagsstöðu.
Og bókabúðirnar í Galway eru alvöru bókabúðir, ekki minjagripaverslanir og veitingahús, heldur bókabúðir sem selja bara bækur. Þessir staðir eru hjartastöðvar, menningarmiðjur og bókfélagsmiðstöðvar með bókaklúbbum, upplestrum og bókahátíðum allt árið um kring. Við mæðgur römbuðum inn í Charlie Byrne´s Bookshop sem selur nýjar og notaðar bækur. Charlie Byrne´s er sneisafull af bókum upp í rjáfur. Þar eru herbergi og ranghalar, engar stílíseraðar uppstillingar, bara aðgengilegar bækur allsstaðar, vel flokkaðar og nóg af þeim.
„Við erum í þessu af því að við erum bókafólk og af því að við elskum bækur,“
Verslunin er með lager skammt utan við bæinn og tekur þar á móti bókum sem fólk vill losna við. Þannig lenda fornbækur síður á haugunum. Þar flokka starfsmenn gamlar bækur í þrjá flokka: búðasöluvænar, ónýtar og nytjamarkaðsvænar. Þá er gæðastjórnun í innkaupum á nýjum bókum í verslunina. Og það er ekki hvað sem er sem ratar í hillurnar hjá Charlie Byrne´s því starfsfólk velur efnið af næmi og þekkingu.
Barnabækur þungamiðja
Og lykillinn að þessum aðstæðum? Á Írlandi er enginn virðisaukaskattur á bækur. Þannig er hvetjandi fyrir bóksalann að bæta ekki við sig dótasölu og starfssemi sem er virðisaukaskattsskyld en helga sig einungis þeirri ástríðu að selja bækur. „Við erum í þessu af því að við erum bókafólk og af því að við elskum bækur,“ sagði starfsmaður Charlie Byrne´s. Verslunin stendur líka, ásamt fleiri stofnunum, að bókmenntahátíðinni Cúirt international Literature Festival á hverju vori.
Í Charlie Byrne‘s, líkt og í mörgum öðrum írskum bókaverslunum, eru starfandi átta bókaklúbbar. Fimm klúbbar fyrir fullorðna og þrír fyrir alla aldurshópa barna og ungmenna. Klúbbarnir eru mjög virkir og meðlimir hittast í versluninni einu sinni í mánuði. Þá er barnabókadeildin að sjálfsögðu lykillinn að góðri bókaverslun, þungamiðja og lyftistöng, sagði Meabh Mcdonnell, deildarstjóri barnabóka hjá Charlie Byrne´s. Barnabækur verða að vera sýnilegar og aðgengilegar, sagði hún. Það vita allir. Í barnabókadeildinni eru svo upplestrar á hverjum laugardegi og margt um manninn.
En hvað með hljóðbækurnar? Eru þær ekki að yfirtaka írska markaðinn? Nei, þvert á móti, svaraði Meahb. Hljóðbækur eru meira viðbót. Fólk sem las ekki bækur hvort eð var hlustar nú á hljóðbækur. Svo kemur það til okkar og vill eignast bókina eftir að hafa hlustað á hana.
Örlög íslensku bókabúðarinnar
Það sérstök upplifun að koma inn í Charlie Byrne´s. Á venjulegum degi, rétt um hádegisbil er búðin troðfull af fólki. Upplestur, bókaspjall, klúbbfélagar að velja nýjar bækur, allsstaðar fólk að sækja sér bækur og ræða um bækur. Verslunarstjórinn, Vinny Browne, er á þönum en gefur sér tíma í stutt spjall og veltir fyrir sér galdrinum að góðri bókabúð.
Um leið og það var svo hjartastyrkjandi og alltumvefjandi að verja tíma inni í Charlie Byrne´s, þvælast um og gleyma sér, skoða og lesa og hitta gamla vini í bókum og kynnast nýjum og upplifa allan mannfjöldann sem streymdi inn og út úr búðinni, þá læddist að mér einhver sorg yfir örlögum íslensku bókabúðarinnar. Sorgin yfir matvörubóksölunni og virðisaukaskattinum hans Bjarna Ben á bækur, en hann er sá ráðherra sem beitti sér hvað harðast gegn afnámi virðisaukaskatts á bækur svo því sé haldið til haga, því allt eru þetta mannanna verk. Og ég fann fyrir leiða yfir barnabókum ofan í kjöllurum, undir tuskulunda-fjöllunum og víkingahornum og yfir öllu kaffinu og kökunum sem þarf að selja svo fólk nenni að koma inn og skoða kannski bækur í leiðinni. Og yfir því að á hringferð í kringum landið er vart hægt að finna bókaverslun á löngum köflum.
Hugarfar
En það er sérstakt hugarfar sem mætir ferðalöngum strax á flugvellinum þegar komið er til Írlands. Það er elskusemi gagnvart tungumáli og menningu. Allsstaðar er írskan fyrst og fremst og svo enska í smáu letri neðanmáls - og það í landi þar sem þó er töluð enska alla daga. Hjá íslenska flugfélaginu Leik var allt annað í gangi og á heimleið voru öll ávörp flugliða um borð flutt fyrst á ensku. Alvörugefinn flugliði hjá Leik útskýrði fyrir mér að það væri gert af öryggisástæðum. En sjálfur flugstjóri Leiks flutti þó sín farþegaávörp fyrst á íslensku og svo á ensku.
Ætli þetta sé ekki alltaf spurning um forgangsröðun þegar upp er staðið. Og við höfum lengi forgangsraðað svo vitlaust þegar kemur að tungumáli og læsi. En það má nú lesa um það í blöðunum alla daga um þessar mundir.
Njótið dagsins - Lá maith agat.
Athugasemdir