Ég sé á vefmiðlum að minn ágæti gamli vinur, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er ósáttur við gagnrýni mína og Viðreisnar á íslensku krónuna og þann óverjandi óstöðugleika sem hún veldur. Hann segir sorglegt að fólk „noti gjaldmiðil okkar Íslendinga endurtekið sem blóraböggul fyrir efnahagslega krefjandi aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir.“
Það er vissulega leitt að hafa raskað ró ráðherrans með gagnrýni á þann helgidóm sem krónan er í hans huga. Hugarró Bjarna er þó smámál í samanburði við þær efnahagslegu hörmungar sem fjölskyldur landsins þurfa að þola vegna séríslensku ofurvaxtanna og verðbólgunnar sem hér geisar í skjóli þeirrar vinstri stjórnar sem nú er við völd.
Sú staðreynd að afborganir margra fjölskyldna af húsnæðislánum hafa hækkað um allt að 250 þúsund krónur á mánuði, kallast í skrúðmælgi ráðherrans „efnahagslega krefjandi aðstæður.“
Að smætta þetta grafalvarlega ástand í orðin „krefjandi aðstæður“ er hreinn brandari í landi þar sem fólk getur allra náðarsamlegast keypt sér húsnæði á okurvöxtum sem jafnvel forhertir handrukkarar myndu skammast sín fyrir að innheimta.
Fólk og fyrirtæki á Íslandi borga alltaf miklu hærri vexti en þekkist í nágrannalöndunum. Alltaf. Það liggja fyrir margar skýrslur, úttektir og greiningar sem leiða skýrt fram þá niðurstöðu að okkar litla myntsvæði, í alþjóðlegu umhverfi, ræður þar mestu.
Þeirri fullyrðingu Bjarna að Íslendingar hafi allt sem þurfi til að ná niður verðbólgu og vöxtum og tryggja þannig stöðugleika er eiginlega auðveldast að svara með spurningu. Úr því svo er, hvers vegna hefur þá flokknum og manninum sem hefur stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar samfleytt í áratug ekki tekist það? Hvers vegna hefur engri ríkisstjórn á lýðveldistímanum tekist að tryggja sambærilegt vaxta og verðbólgustig og þekkist í nágrannalöndunum?
Úr því krónan er saklaus, þá hlýtur slök hagstjórn að vera skýringin. Ég hef ákveðnar efasemdir um að sú málsvörn sé heppilegri fyrir mann sem setið hefur sem fjármálaráðherra meira og minna síðasta áratuginn.
Það er nefnilega ekki hægt að skella alltaf skuldinni á vinnumarkaðinn eða stríð og orkukreppu eins og Bjarni gerir gjarnan. Nágrannaþjóðir okkar búa í sömu veröld og Íslendingar, upplifa sömu stríð og orkukrísur, og þurfa ekki að þola svo háa verðbólgu né að berja hana niður með svona háum vöxtum. Að auki hjaðnar verðbólgan og vextirnir miklu hraðar þar en hér á Íslandi. Ástandið á vinnumarkaði er svo bein afleiðing af sveiflum krónunnar en ekki orsök.
Það er sjálfsagt og eðlilegt að fyrirtæki sem eru með tekjur í erlendri mynt geri upp bókhald sitt í þeim gjaldmiðli. Viðreisn hefur aldrei fett fingur út í það. Viðreisn vill hins vegar að allir landsmenn fái að búa við sama stöðugleika og þessi fyrirtæki og losni undan sveiflóttum gjaldmiðli. Þess vegna viljum við fleygja krónunni og taka upp traustari mynt sem gjaldmiðil allra Íslendinga.
Ég tek líka heilshugar undir með Bjarna að það væri ákaflega varasamt fyrir íslenskar fjölskyldur í krónuhagkerfinu að fjármagna sig að einhverju leiti í erlendri mynt. Bjarni gleymdi hins vegar alveg að nefna hvers vegna það er hættuspil. Það er varhugavert vegna þess að íslenska krónan sekkur reglulega niður á hafsbotn líkt og gerðist í hruninu. Í slíkum aðstæðum er krónan skaðvaldur fyrir heimilin.
Athugasemdir (1)