Þegar ég gef þér gjöf liggur margt að baki, ósýnilegir þræðir sem tengja fortíð, framtíð og nútíð. Ég vel gjöf út frá hversu vel við þekkjumst, hversu náin við erum, í hvernig sambandi við eigum, ég hugsa líka hvað ég gaf þér í gjöf síðast, og hvað þú gafst mér og hvað við gáfum árið á undan og árið þar á undan. Hvaða verðflokki við erum í, er það kort eða merkimiði, hversu persónulegt þetta má vera og hvernig umhverfi þú ert í þegar pakkinn er opnaður.
Það eru ótal hlutir sem þarf að hafa í huga en fyrst og fremst ert það þú. Hvernig týpa þú ert, hvað myndir þú vilja fá, hvernig get ég glatt þig og hvernig getur gjöfin endurspeglað okkar samband. Erum við í ilmkerta- og sokkapakkanum, bóka- og tónlistarpakkanum eða þessum pakka sem krefst þess að ég byrji að skrifa niður hjá mér hluti sem þú minnist á þrjá mánuði áður en ég afhendi gjöfina, svo þetta hitti nú alveg örugglega í mark?
Það er samt ekki hægt að gefa sér tíma í svoleiðis ef það eru yfir þrjátíu gjafir á listanum. Við þyrftum öll að fá mánaðarlangt frí til að vinna hundrað prósent við gjafainnkaup ef sú jafna ætti að ganga upp.
Þessi hátíðlega athöfn verður kvöð og stressið og frestunaráráttan sér til þess að Kringlan er smekkfull af örvæntingarfullu fólki á Þorláksmessu sem er bara að reyna að finna eitthvað og lifa þessi jól af. Allir jákvæðu hormónarnir og taugaboðin sem eiga að fylgja því að velja gjöf fyrir ástvin bókstaflega köfnuð í stressi. Þegar þannig er í pottinn búið er mikilvægt að vera meðvitaður um að pælingin með gjöf er: að ég hugsi um þig og hvað þú þýðir fyrir mér, gefi mér stund til að vera þakklát fyrir þig. Ef enginn tími gefst fyrir það, er tilgangurinn enn til staðar?
Athugasemdir