Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði ríkisstjórnina „virðast vera í afneitunarham“ í óundirbúnum fyrispurnartíma á Alþingi í dag. Téð afneitun væri gagnvart bágri stöðu heimilanna vegna slæmra vaxtarkjara. Beindi hún máli sínu til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem svaraði að ekki væri raunsönn mynd að allt væri í kaldakoli.
Þorgerður gagnrýnir þau fjárlög sem leggja á fyrir þingið á morgun. Þau séu ekki eins og hennar flokkur myndi vilja hafa þau. „Við höfum ítrekað varað við þessari útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar alveg frá árinu 2018.“
Senda himinháa reikninga á heimili landsins
Hún viðurkennir að þingmenn Viðreisnar hafi „nöldrað“ út af fjárlögunum árum saman. Það sé vegna hræðslu við afleiðingarnar fyrir íslensk heimili auk lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hún segir ríkisstjórnina vera að „senda himinháa reikninga á heimili landsins.“ Það sé kostnaðurinn við „slælega efnahagsstjórnun ríkisstjórnarinnar“.
Þannig bendi ekkert til þess, að mati Þorgerðar, að ríkisstjórnin ætli að taka utan um bága stöðu heimilanna í landinu. Hún hafi áhyggjur af framhaldinu. „Ég er hrædd um að við séum bara rétt að sjá upphafið af þessum veruleika núna,“ segir hún.
Þorgerður segir að ríkisstjórnin hafi sýnt á spilin og að ekkert standi til að gera fyrir heimilin í landinu. „Meðan staðan er svona verðum við að taka tímabundið utan um þennan hóp.“
Bætur í málefnum barna og húsnæðismálum
Í svari sínu sagði Katrín Jakobsdóttir að stjórnvöld hefðu beitt sér með margvíslegum hætti til að draga úr fátækt barna. Máli sínu til stuðnings nefndi hún endurskoðun á barnabótakerfinu og frekari kerfisbreytingar.
Stjórnvöld hafi enn fremur endurskoðað húsnæðiskerfið. Hún og aðrir telji að rót vandans liggi í framboði af húsnæði. „Nú er staðan þannig að hátt í þriðjungur þeirra íbúða sem hefur verið byggður á undanförnum árum eru byggðar fyrir tilstuðlan opinberra framlaga,“ segir Katrín.
„Ef við viljum ráðast að rót vandans þegar kemur að húsnæðiskostnaði heimilanna þá skiptir máli að framboðið standi undir eftirspurn og þar hefur ríkisvaldið verið að beita sér.“
Katrín sagði ríkið bjóða upp á fjölþættan stuðning á sviði húsnæðismála. Vaxtabætur væru ekki eina leiðin til að styðja við heimilin í landinu. „Við erum að reyna að tryggja að ríkisfjármálin styðji við peningastefnuna þannig að verðbólgan gangi niður.“
Að lokum minntist Katrín á að kaupmáttur launa hefði hækkað um 3% á árinu. „Það að draga upp þá mynd að hér sé allt í kaldakoli, þótt vissulega sé verðbólgan þrálát og vaxtastigið hátt, er ekki raunsönn mynd.“
Kaupmáttur launa og kaupmáttur ráðstöfunartekna
Þess er vert að geta að í ræðu sinni vísaði forsætisráðherra í hækkun kaupmáttar launa. Þegar Hagstofan fjallar um kaupmátt, sem mælikvarða fyrir tekjuskiptingaruppgjör hagkerfisins, vísar hún til „kaupmáttar ráðstöfunartekna“, á meðan forsætisráðherra vísar til kaupmáttar sem munarins á þróun vísitölu launa og verðbólgu.
Þegar talað er um kaupmátt launa er ekki gert ráð fyrir vaxtagjöldum. Þau hafa hækkað umtalsvert. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur þannig lækkað fjóra ársfjórðunga í röð samhliða hækkun á kaupmætti launa. Þannig greindi Hagstofan frá því í mars síðastliðnum að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði fallið um 1,7% árið 2022 og í síðustu frétt sinni um kaupmátt launa greindi Hagstofan frá því að hann hefði fallið um 5,7% á öðrum ársfjórðungi 2023 miðað við árið áður.
Athugasemdir