Ég var bara barn þegar mér var kippt inn í fullorðinsheiminn. Það var ekki mitt val – svoleiðis er bara lífið stundum. Ég ólst upp á Flateyri í skugga snjóflóðsins og áfalla því tengdu. Ég axlaði óhóflega ábyrgð á sjálfri mér og systkinum mínum. Á foreldrum mínum og tilverunni.
Ég fattaði það ekki þá – en ég hafði engan þroska í þessa ábyrgð. Það hefur viss áhrif á taugaþroska barns að vera svona stútfullt af ábyrgð. Ég var góð – prúð – klár og dugleg. Ég stóð mig vel. En þegar ég fór líka að bera ábyrgð á kynferðisofbeldi sem stjúpfaðir minn beitti mig þegar ég var á tólfta ári fóru lamirnar að bogna. Ég bar ábyrgð á öllum hans gjörðum í mínum huga. Bar ábyrgð á því að þegja og segja ekki frá. Bar ábyrgð á því að halda fjölskyldunni minni góðri. Að tryggja það að systkini mín myndu nú alast upp við kjarnafjölskyldu – helst hamingjusama líka. Ég bar ábyrgð á hjónabandi foreldra minna. Ég bar ábyrgð á hamingju þeirra. Ég bar ábyrgð á lífi stjúpa míns. Því ef ég myndi tala og segja frá – færi allt til fjandans. Skrokkurinn var líkami barns en hausinn fullorðinn. Að mér fannst. Þessi ábyrgðartilfinning lak svo út í öll mín samskipti. Ég almennt var mjög dugleg að taka á mig ábyrgð á hamingju annarra. Velferð annarra. Tryggja það að öllum liði nú vel og væri í góðu standi. Alveg þangað til að ég stóð eftir – skelin af sjálfri mér og átti ekki einn dropa eftir á tankinum.
„Þegar ég fór líka að bera ábyrgð á kynferðisofbeldi sem stjúpfaðir minn beitti mig þegar ég var á tólfta ári fóru lamirnar að bogna“
Það átti samt sinn aðdraganda. Ég nefnilega trúði því um langt skeið að ég væri dæmd til að vera alltaf föst í tilfinningum þolandans. Ég var pikkföst í ábyrgðinni – skömminni. Skömm sem hafði farið svo djúpt ofan í kvikuna mína að enn þann dag í dag verð ég algjörlega dofin af minnsta samviskubiti. Og ég skammast mín mjög djúpt fyrir hönd annarra (ég er samt að æfa mig í að hætta því). Ég trúði því og var eiginlega búin að sætta mig við það hlutskipti að ofbeldið sem ég varð fyrir sem barn myndi alltaf skilgreina mig. Myndi alltaf vera hluti af mér – að ofbeldið væri ég. Rétt eins og ég var einu sinni búin að sætta mig við að vera tilfinningalaus og aldrei almennilega skotin í neinum – þangað til ég áttaði mig á því að ég væri lesbía – en það er efni í annan pistil.
Það sem ég hef lært er nefnilega það að ofbeldið þarf ekki að skilgreina mig. Eftir að hafa tekið mörg ár í aktívisma – þar sem ég öskraði mig hása yfir ónýtu kerfi um mikilvægi þess að tryggja þolendum úrræði við hæfi og réttlæti. Eftir ótal Druslugöngur, viðtöl og skrif á aðgerðaáætlun fyrir stjórnvöld rann það upp fyrir mér að ég væri endanlega búin að skila skömminni minni. Að ég mætti gefa mér leyfi til að labba í burtu frá ábyrgðinni og skömminni. Ég klæddi mig úr skömminni og úr þolandanum. Fyrst fannst mér það skrýtið – eins og ég stæði nakin í mannmergð. Því ég vissi ekki alveg almennilega hver ég væri – án skammar og ábyrgðar.
Ég hafði aldrei leyft mér að pæla í því – fyrir hvað ég stæði og hvað mér fyndist. Hvað langaði mig? Hver er ég? Ég hafði lifað mjög hröðu lífi. Í mjög háu tempói. Leyfði mér aldrei að slaka á. Dauð stund var ekki til. Því það sem ég óttaðist mest var stefnumót við sjálfa mig. Að ég þyrfti að sitja ein í þögn með sjálfri mér. Versta hugmynd í heimi. Ég varð mamma átján ára og keyrði mig bara í gegnum alla skafla. Hélt niðri í mér andanum og keyrði áfram, áfram, áfram. Trukkaði mig í gegnum hvern dag – án þess að staldra við. Án þess að anda.
Það var svo ekki fyrr en ég kynntist Ingileif, konunni minni, fyrir tíu árum að ég lærði að hægja aðeins á. Hún kenndi mér að anda og njóta. Að leyfa mér að vera í hversdagsleikanum. Stundum jafnvel bara að hugsa og vera til. Í dag eigum við þrjú börn og fallegt heimili sem er stútfullt af hlátri og góðum minningum. Eitthvað sem litla-ég trúði ekki að gæti verið möguleiki fyrir mig. Svona skemmd og ónýt. Hamingja var tilfinning sem ég kunni ekki á. Ást var svo tilfinning sem ég forðaðist. En í dag kann ég á báðar tilfinningar – alveg þannig að hjartað er stundum alveg að springa.
„Ég er að læra að vera ég. Ekki litla stelpan með fullorðinsheilann. Heldur bara fullorðna konan með fullorðinsheilann sem skilgreinir sig sjálf“
Ég hef verið hjá sama sálfræðingi síðan 2007. Þar hef ég unnið úr mínum sárustu sárum og byggt upp bestu verkfærakistuna. Núna fer ég öðru hvoru til hennar í gott tékk og spjall. Svona eins og að fara með bílinn í skoðun. Það er nefnilega hægt að ná bata. Ofbeldið sem maður varð fyrir þarf ekki að skilgreina mann um aldur og ævi. Áfallastreita er heldur ekki ástand sem maður er dæmdur til að lifa við. Maður lærir öllu heldur að lifa með henni.
Tvítuga María sem sá ekkert annað en framtíð með svartan köggul í maganum af skömm og ábyrgð hefði alveg mátt vita þetta. Þess vegna kannski ákvað ég að skrifa þetta. Því ég hef lært að lifa lífinu í lit. Ég hef lært að elska fyrsta kaffibolla morgunsins. Ég er að læra að elska sjálfa mig – skilyrðislaust.
Ég er að læra að vera ég. Ekki litla stelpan með fullorðinsheilann. Heldur bara fullorðna konan með fullorðinsheilann sem skilgreinir sig sjálf. Af því að ég má það – því ég á mig sjálf.
Athugasemdir