Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), ætlar að bjóða sig fram til formanns KSÍ að nýju. Þetta segist hann gera vegna „fjölda áskorana.“
Guðni hætti sem formaður KSÍ í ágústmánuði árið 2021. Þá hafði KSÍ verið gagnrýnt harðlega fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan þess. Vanda Sigurgeirsdóttir tók þá við keflinu en hún tilkynnti í byrjun þessa mánaðar að hún hygðist ekki taka þátt í komandi formannskjöri.
Í desembermánuði það sama ár birti úttektarnefnd á vegum Íþróttafélags Íslands (ÍSÍ) úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna meints kynferðisofbeldis sem tengdist leikmönnum í landsliðum Íslands.
Fengu upplýsingar um meinta hópnauðgun
Þar kom fram að KSÍ hafi fengið upplýsingar um meinta hópnauðgun tveggja landsliðsmanna, sem var sögð hafa átt sér stað ellefu árum fyrr, í júní árið 2021. Eftir tilkynningu þar um frá starfsmanni sambandsins, tengdamóður þolandans, var meðal annars rætt við annan gerandann. Samt ákvað KSÍ að hlíta ráðleggingu almannatengslafyrirtækis og svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið með villandi hætti.
Í yfirlýsingu sem Guðni sendi frá sér í kjölfar birtingar úttektarinnar sagðist hann hafa borið ábyrgð á viðbrögðum sambandsins, vegna þeirra ofbeldismála sem komu upp í formannstíð hans. Sömu sögu hafi verið að segja um miðlun upplýsinga til fjölmiðla og almennings. „Þar hefði ég getað gert betur,“ sagði Guðni þá.
Hann bætti því við að hann hafi einblínt um of á formið og trúnað við málsaðila. „Ég reyndi þó eftir bestu getu í þeim tveimur málum sem komu til minnar vitundar að finna þeim réttan farveg,“ sagði Guðni.
„Annað var leyst með sátt á milli málsaðilanna sjálfra en hitt málið er nú loks komið í farveg hjá lögreglu. Sem samfélag erum við að stíga erfið en mikilvæg skref í samtalinu um kynferðisbrot og hvernig við tökumst á við þau. Verkefnið framundan hjá knattspyrnuhreyfingunni er að taka umræðu og fræðslu um það hvernig við fyrirbyggjum kynferðisofbeldi, og að brugðist verði við þeim málum sem upp kunna að koma af festu.“
Ekkert um forvarnir í yfirlýsingunni
Formannskjörið fer fram í lok febrúar næstkomandi.
„Fótboltinn hefur verið í stóru hlutverki allt mitt líf og ég brenn fyrir íþróttina,“ skrifar Guðni í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum fyrir skemmstu. Þar segist hann jafnframt vilja vinna að því betrumbótum á starfi KSÍ og aðildarfélaga sambandsins.
Markmiðið segir Guðni að sé „framgangur fótboltans í landinu.“
Hann segist ætla að kynna áherslur sínar betur síðar en minnist ekki einu orði á það sem hann sagði mikilvægt fyrir tveimur árum síðan, forvarnir gegn kynferðisofbeldi.
Framgangur fótboltans getur varla orðið meiri. "Colosseum" í Reykjavík, hallir og vellir um allt land. Allt í boði skattgreiðenda.