Við köllum okkur bókmenntaþjóð en eigum ekki eina bókabúð í miðbænum sem ekki er búið að breyta í gjafavöruverslun fyrir túrista. Við köllum okkur menningarborg en rukkum námsmenn inn á listasöfn, leggjum virðisaukaskatt á bækur og eigum ekki hús fyrir danslistir. Við köllum okkur vistvæn en helluleggjum heilu torgin án þess að planta svo miklu sem einu tré. Við köllum Reykjavík höfuðborg Íslendinga en breytum henni í skemmtigarð fyrir útlendinga og drekkjum borgarlandslaginu í falskri ímynd af þjóð sem er ekki til nema í auglýsingabæklingum á ferðaskrifstofum.
Það er ástæða fyrir því að við höfum ekki tekið upp enskuna af einskærri nytsemi, slitið sambandi við kirkjuna og einkavætt sundlaugarnar. Það er ástæða fyrir útrásarþörfinni sem flæðir um taugakerfið kynslóð eftir kynslóð, sagnagleðinni sem hlutfallslega framleiðir fleiri rithöfunda en nokkur önnur þjóð; nýjungagirninni sem hefur gert okkur að tæknivæddustu þjóð heims þrátt fyrir að hafa skriðið endanlega úr torfkofunum fyrir rétt tæpri öld síðan. Þessir siðir eru ekki bara lærðir heldur sögulega samgrónir þjóðvitund okkar.
„Baksagan okkar er að hverfa bak við innflutt andleysi og ef við varðveitum ekki eigin sögu, eigin menningu, eigin sjálfsmynd – gerir það enginn“
Menning er ekki elítusport, heldur umhverfi sem endurspeglar samfélag. Byggingarlistin endurspeglar okkar hugmyndafræðilega arkitektúr; veðráttan endurspeglar veðurofsann innra með okkur; listirnar endurspegla þjóðfélagsástandið – en þegar bókmenntunum, myndlistinni og sviðslistunum er haldið frá okkur missum við tenginguna við eigið þjóðfélag. Þegar Íslendingar eru ekki lengur markhópur sinnar eigin höfuðborgar og sérkennin víkja fyrir alþjóðlegum túristabrellum er tímaspursmál hvenær við gleymum hvaðan við komum, og sá sem man ekki hvaðan hann kemur, veit ekki hvert hann á að stefna.
Þótt Bandaríkjamenn hafi gert undirmeðvitund okkar að nýlendum sínum og nágrannalöndin hafi forritað í okkur tilbúið gildismat, er staðreyndin sú að við erfum þróttmikið taugakerfi. Þrátt fyrir pólitískan vilja erum við hvorki vestanhafsfylki né meginlandsríki heldur eyja í miðju Atlantshafi; afkomendur eftirlifenda náttúruafla sem þekkjast hvergi annars staðar og gera okkur fær um ótrúlegustu hluti. En baksagan okkar er að hverfa bak við innflutt andleysi og ef við varðveitum ekki eigin sögu, eigin menningu, eigin sjálfsmynd – gerir það enginn.
Þær eru þrjár og svo er eitt bókakaffi sem selur bækur, penninn rekur 3 bókabúðir á litlum kafla sem allar selja smá minjagripi en þeir eru í minnihluta miðað við bækurnar.
Svo er næsta bókabúð úti á Granda.