Þann 5. október setti hæstiréttur Svíþjóðar punkt aftan við langferð réttvísinnar í átt að dómi yfir ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini. Hann fékk tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir plastbarkaaðgerðirnar á háskólasjúkrahúsinu Karolinska.
Þetta þýðir að nú hefur verið staðfest með dómi að skurðaðgerðirnar á Karolinska-sjúkrahúsinu áttu aldrei nokkurn möguleika á því að ganga upp læknisfræðilega séð. Hæstiréttur tekur þar með afstöðu með þeim vel skrifaða og skýra dómi sem féll á millidómstigi í Svea-hovrrätt í júní á þessu ári.
Aðgerðatæknin sem notuð var á Karolinska skorti vísinda- og læknisfræðilega kjölfestu. Skurðaðgerðirnar höfðu ekki verið undirbyggðar með tilraunum á dýrum, sem þýddi í reynd að sjúklingarnir voru notaðir eins og mannleg tilraunadýr.
„Sjúklingarnir voru notaðir eins og mannleg tilraunadýr“
Öfugt við það sem stjórnendur sjúkrahússins og háskólinn höfðu staðhæft þá voru aðgerðirnar ekki gerðar í neyð vegna þess að sjúklingarnir lágu fyrir dauðanum. Þeir höfðu ferðast sjálfir til Svíþjóðar vegna sjúkdóma sinna og ekki var búið að útiloka aðrar læknismeðferðir.
Allt þetta felur í sér að á virtasta sjúkrahúsi Svíþjóðar, sem og í læknadeildinni á Karolinska-háskólanum, var stunduð starfsemi sem var ólögleg. Í stað þess að fá heilbrigðisþjónustu urðu sjúklingarnir fyrir grófum líkamsmeiðingum sem leiddu til dauða þeirra.
Bara einn fékk dóm
Dómurinn yfir Macchiarini á millidómsstigi felur það sem sagt í sér að einum einstaklingi er refsað fyrir þetta. En eins og Macchiarini sjálfur hefur réttilega bent á þá gerði hann þetta allt saman ekki einn. Ekki er hægt að stunda tilraunir á mönnum í skurðaðgerðum á sjúkrahúsi á Norðurlöndunum án aðstoðar og samþykkis frá yfirmönnum og stjórnendum.
Allir þeir sem störfuðu með Macchiarini, studdu hann og aðstoðuðu, leyndu því sem hann gerði og vörðu hann, hafa ekki verið látnir sæta ábyrgð. Vissulega urðu nokkrir þeirra að fara í leyfi frá störfum tímabundið eða skipta um vinnu. En margir þeirra hafa snúið aftur í stjórnendastöður á sjúkrahúsum og háskólum.
Æðsti yfirmaður Maccharinis í Karolinska-háskólanum, þáverandi rektorinn Anders Hamsten, varð fyrst rannsakandi fyrir ríkisstjórnina í Svíþjóð og var síðan skipaður sérstakur ráðgjafi rektorsins við Háskólann í Lundi. Yfirlæknirinn á Karolinska-sjúkrahúsinu, Johann Bratt, sem varði aðgerðirnar um árabil og hélt því fram að eingöngu hafi verið um að ræða aðgerðir til að bjarga mannslífum, fékk skjótan framgang í starfi eftir plastbarkahneykslið og stýrir öryggismálum í heilbrigðiskerfinu á öllu Stokkhólmssvæðinu.
Þessi skortur á afleiðingum fyrir aðra en Macchiarini helst, að ég held, í hendur við þá staðreynd að hvorki sænskar stofnanir né sjúkrahús hafa rannsakað af nokkurri alvöru hvernig aðgerðirnar á Karolinska gátu átt sér stað til að byrja með. Það eina sem hefur verið gert er að Karolinska-sjúkrahúsið og Karolinska-háskólinn fengu að rannsaka sig sjálf.
Þetta leiddi til þeirrar niðurstöðu, sem var reyndar alls ekki óvænt, að nokkrum af helstu spurningunum um ábyrgðina í málinu var sópað undir teppið. Hvernig gerðist það að nokkrir af virtustu læknum og fræðimönnum í læknavísindum voru þátttakendur í tilraunum og misferli Macchiarinis? Hvað gerði það að verkum að þessir einstaklingar fóru gegn viðurkenndum vísindum og vinnubrögðum í læknisfræði? Hvernig vildi það til að stjórnendur sjúkrahússins og háskólans unnu gegn sínum eigin læknum og reyndu að koma í veg fyrir uppljóstranir þeirra um það sem var í gangi? Var það sóknin eftir peningum og heiðri sem meðal annars fékk þá til að standa vörð um Macchiarini?
Ábyrgðin á Íslandi
Hér á Íslandi voru viðbrögðin við Macchiarini-málinu að hluta til önnur. Háskóli Íslands og Landspítalinn létu gera mjög nákvæma og yfirgripsmikla rannsókn á plastbarkamálinu sem skilaði sér í merkilegri skýrslu. Í þessari rannsókn, öfugt við það sem gerðist í rannsóknunum í Svíþjóð, var reynt að kafa til botns í málinu hvað varðar persónulega ábyrgð þátttakendanna og hvaða aðrar leiðir hefði verið hægt að fara við læknismeðferð sjúklinganna. Þökk sé þessari rannsókn liggur ljóst fyrir að örlög fórnarlamba plastbarkamálsins hefðu getað orðið önnur ef afdrifarík mistök hefðu ekki verið gerð í Reykjavík.
Tómas Guðbjartsson á Landspítalanum var læknirinn sem bar ábyrgð á og sá um meðferðina á fyrsta plastbarkaþega Macchiarinis: Andemariam Beyene.
Upphaflega tilvísunin sem Tómas Guðbjartsson sendi til Svíþjóðar fól bara í sér beiðni um að læknarnir þar myndu kanna hvort í boði væri læknismeðferð fyrir hann sem fæli í sér skurðaðgerð vegna krabbameinsins sem hann glímdi við. En að beiðni Macchiarinis breytti Tómas Guðbjartsson textanum í tilvísuninni þannig að í stað þess að biðja um klínískt mat á því hvort hægt væri að framkvæma skurðaðgerð á Andemariam sagði hann eftirfarandi, sem var ósatt: „This patient has already exhausted every medical treatment and his only hope of survival and cure is, given that the tumor is only locally invasive and has no regional or systemic metastasis, the resection of the tumor with a safe reconstruction, either via standard airway surgery or using a transplant.“
Þetta gerði Tómas þrátt fyrir að læknir við eitt af bestu sjúkrahúsum Bandaríkjanna hefði komið með annað álit þar sem hann mælti með líknandi meðferð þar sem krabbameinið sem Andemariam var með í hálsi væri reglulega skafið burt.
Með þessum hætti lét Tómas Guðbjartsson ástand Andemariams Beyene líta talsvert verr út en það í reynd var, og staðhæfði jafnframt að það væri ekki möguleiki á nokkurri annarri læknismeðferð.
Enn hefur þeirri spurningu ekki verið svarað af hverju Tómas Guðbjartsson gerði þetta. Einnig hefur þeirri spurningu ekki verið svarað af hverju hann ákvað að taka þátt í að skrifa fyrstu röngu vísindagreinina, þar sem aðgerðinni á Andemariam Beyene er lýst þannig að hún hafi gengið vel þrátt fyrir að hann hafi upplifað alvarlegar líkamlegar afleiðingar af henni. Tómas Guðbjartsson var einnig einn af skipuleggjendum málþingsins sem Landspítalinn skipulagði ári eftir aðgerðina þar sem gefið var í skyn að Andemariam væri byrjaður að fá barka úr plastinu sem væri eins og alvöru barki í manni, þrátt fyrir að sannleikurinn væri hinn gagnstæði.
Upplifðu kvalafullan dauða
Önnur spurning sem er álíka mikilvæg er: Hvað varð um fórnarlömbin?
Allir sjúklingarnir upplifðu jú mjög sársaukafullan dauðdaga, þeim leið mjög illa og glímdu við lífshættulegar blæðingar og sum innri líffæri þeirra rotnuðu eftir aðgerðina meðan þeir voru enn á lífi.
Fjölskyldurnar, börnin og aðrir aðstandendur sem sjúklingarnir skildu eftir sig hafa varla fengið afsökunarbeiðni. Unga ekkjan og litlu börnin hennar þrjú sem fyrsti plastbarkaþeginn, Andemariam Beyne, skildi eftir sig misstu allt: Fjölskylduföður, afkomu, öruggan samastað í tilverunni. Fjölskyldan hefur ekki enn þá fengið hjálp eða nokkrar bætur frá einhverju af sjúkrahúsunum eða háskólum sem tengdust aðgerðinni, ef frá eru taldir peningar fyrir líkkistunni.
Hvað með ábyrgðina á fortíðinni?
Stjórnendur Karolinska-sjúkrahússins og samnefnds háskóla vilja meina að það mikilvægasta sé að horfa fram á veginn. Búið er að strika yfir fortíðina án þess að læknarnir sem voru uppljóstrarar í málinu, og reynt var að reka, hafi fengið uppreist æru. Stofnanirnar þvo hendur sínar í málinu: Bæði hvað varðar eigin þátttöku og ábyrgð á því sem átti sér stað og eins með því að láta ógert að greiða bætur til þeirra sem voru plataðir til þess að leggja líf sitt að veði í plastbarkaaðgerðunum.
Svona þarf þetta ekki að vera. Í mínum huga er það sanngjörn siðferðiskrafa að læknir eins og Johann Bratt, sem er í háttsettri stjórnendastöðu við að hafa yfirumsjón með öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum í Stokkhólmi, útskýri hvernig hann gat varið og reynt að réttlæta lífshættulegar og siðlausar aðgerðir Macchiarinis sem voru alls ekki dæmi um neyðarinngrip til að bjarga mannslífum. Hið sama á við um Tómas Guðbjartsson prófessor og þátttöku hans í plastbarkaaðgerðinni á Andemariam og aðkomu hans að því að lýsa henni þannig fyrir umheiminum að hún hafi skilað tilætluðum árangri.
Ein af afleiðingum dómsins yfir Macchiarini ætti að vera sú að sjúkrahús og háskólar í Svíþjóð fylgi fordæminu frá Íslandi og láti framkvæma fyrstu sjálfstæðu og óháðu rannsóknina á Macchiarini-málinu. Hvernig gerðist það að ólöglegar tilraunir á mönnum voru framkvæmdar, þær varðar og þeim leynt á Karolinska-sjúkrahúsinu og í háskólanum sem er tengdur því? Aðeins þannig getum við dregið lærdóm af því sem hefur átt sér stað og þá verður ekki eins auðvelt að gera sömu mistökin aftur.
Að lokum, og þetta er mikilvægt, eiga stjórnendur íslensku og sænsku sjúkrahúsanna og háskólanna sem komu að plastbarkamálinu að sýna ábyrgð og samúð í verki og setja sig í samband við fjölskyldur hinna látnu og rétta þeim hjálparhönd og bjóða þeim skaðabætur. Með þessu geta þeir sýnt að notendur heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum eiga heimtingu á því að njóta réttinda sem ekki er hægt að taka frá þeim. Eins og staðan er núna hafa þessar stofnanir ekki staðið vörð um þessi réttindi sjúklinga.
Höfundur er heimildarmyndagerðarmaður og höfundur bókarinnar: „Macchiariniaffären – sanningar och lögner på Karolinska“
Athugasemdir