Ítalskir hægrimenn sögðu enn eitt glerþakið brotið þegar ljóst varð að þeim hafði tekist að koma sínum manni í stöðu æðsta stjórnanda Feneyjatvíæringsins, í lok október. Tvíæringurinn, sem er ótvírætt stærsta og mest áberandi listahátíð í heimi, er aðeins enn ein rósin í hnappagat íhaldsmanna sem hafa sópað til sín æðstu stöðum ítalskrar menningar frá því Giorgia Meloni tók við sem forsætisráðherra landsins fyrir rétt um ári síðan. Skipulag og aðferðarfræði hægrimanna um alla Evrópu rær í sömu átt; að fjandsamlegri yfirtöku á æðstu menningarstofnunum álfunnar.
Þetta er ekki fyrsta atlaga ríkisstjórnar Meloni, og vina hennar, að Feneyjatvíæringnum. Tvíæringurinn í arkitektúr lenti í meiri háttar vandræðum í vor þegar ljóst varð að ítölsk stjórnvöld hygðust ekki veita ganverskum sýningarstjórum listahátíðarinnar Visa-áritun og meinuðu þeim þar með um inngöngu inn í landið. Raunar sakaði ítalski sendiherrann í Gana stjórnendur tvíæringsins um að reyna að koma „ónauðsynlegum ungum mönnum“ inn á Schengen-svæðið, fyrir tilstuðlan hátíðarinnar. Stjórnendur tvíæringsins kölluðu atlöguna skýr skilaboð frá stjórnvöldum um þumalskrúfur þeirra á menningunni og birtingarmynd þess hvernig útlendingastefnu Ítalíu væri beitt á mannfjandsamlegan máta.
Hengingartak vinstra fólks
Yfirlýst skoðun stuðningsmanna Meloni er sú að vinstrafólk hafi of lengi haft krumlurnar á menningunni og nú sé kominn tími til að hreinsa til og hleypa öðrum listamönnum og listrænum stjórum að. En einnig, að of margir erlendir sérfræðingar hafi verið fengnir til að stýra listasöfnum Ítalíu þegar best færi á því að aðeins Ítalir stýrðu ítölskum menningarstofnunum. Markmiðið er því bæði að hrifsa til sín pólitísk völd en einnig að útrýma erlendum áhrifum á ítalska menningu.
Ríkisstjórn Meloni hefur sýnt fumlaus handtök við innáskiptingar sínar. Skipan hins nýja stjóra tvíæringsins, Pietrangelo Buttafuoco, kemur í kjölfar annarra pólitískra hrókeringa með æðstu menntastofnanir landsins. Útvarpsstjóri Ítala var til að mynda nauðbeygður til að taka poka sinn í vor eftir gríðarlegan pólitískan þrýsting, í kjölfar þess að tveir karlmenn kysstust í beinni útsendingu í sjónvarpinu.
Í stað ítalska útvarpsstjórans tók Roberto, Sergio stuðningsmaður Meloni og áróðursmeistari, við stjórnartaumunum, og hafði með sér nokkra nýja háttsetta stjórnendur inn í ítalska ríkissjónvarpið RAI. Þeirra á meðal hinn hægri sinnaða samsæriskenningasmið og bólusetninga-afneitunarsinna, Giampaolo Rossi, sem, eins og svo margir evrópskir íhaldsmenn, sér ungverska auðkýfinginn George Soros í hverju horni. Raunar hefur Rossi líkt Soros við risaköngulóna Shelob í Hringadróttinssögu en sagnaheimur Tolkiens virðist það listaverk sem ítalskir þjóðernissinnar kunna hvað best að meta og hafa í mestum hávegum. Og nei, ekki af því þeir dást að mikilfengleika Mordor.
Ekki lengur stödd í Skíri
Það eru ef til vill ekki margir sem draga samasemmerki á milli fólks sem iðkar hægri sinnaða forræðishyggju og smávaxinna hobbita með galsakennt viðhorf til lífsins, en það gera ítalskir þjóðernissinnar hins vegar. Þeir hafa lengi álitið Hringadróttinssögu vera sögu um baráttu hins tæra, hvíta og saklausa (hobbitanna) gegn erlendum áhrifum (orkanna). Í þeirra huga snýst baráttan um Miðgarð fyrst og fremst um að spyrna gegn blöndun á milli þjóðflokka.
Giorgia Meloni er þekkt fyrir aðdáun sína á sagnaheiminum, hún vísar reglulega til Hringadróttinssögu í bæði ræðu og riti. Hún hefur opinberlega klætt sig upp sem hobbiti og heitið því að verða ekki valdahringnum að bráð. Í sömu viku og tilkynnt var um yfirtöku hægrimanna á Feneyjatvíæringnum var opnuð Tolkie-sýning í Nýlistasafni Ítalíu í Róm, en sýningin hlaut opinberan styrk sem hljóðaði upp á 250.000 evrur og var lýst sem eiginlegri gjöf til Meloni, sem var viðstödd opnun hennar. Nýlistasafnið er einmitt ein þeirra ítölsku listastofnana sem farið hafa í gegnum stjórnendaskipti síðan Meloni og félagar tóku við lyklavöldum í landinu síðla árs 2022, með tilheyrandi sviptingum í sýningarstefnu safnsins.
Vöðvar, töfrar og myrkraverk
Þjóðernissinnaðir hægrimenn virðast, upp til hópa, og svo við leyfum okkur óforskammaðar alhæfingar, almennt hafa smekk fyrir nákvæmlega þeim merkjum sem fantasíuheimurinn hefur upp á að bjóða. Ítalir eru ekki einir um að dragast að þeirri táknhyggju. Í Ungverjalandi ber einn listamaður höfuð og herðar yfir aðra þegar kemur að opinberum stuðningi Orbán-stjórnarinnar. Sá heitir Gábor Miklós Szőke og gerir risavaxna dýraskúlptúra sem hann sækir innblástur til ungversks sagnaarfs. Það er ekkert skilið eftir fyrir ímyndunaraflið í verkunum, þau krefjast ekki flókinnar túlkunar en standa fyrir framan hinar ýmsu opinberu byggingar í mikilfengleika sínum og sem tákn um gróft, ógnvekjandi og sumpart töfrandi vald. Það er við hæfi að bandaríska NFL liðið Atlanta Falcons eigi stærðarinnar útilistaverk eftir listamanninn. Stílbragðið mætti kalla handboltarokk myndlistarinnar.
Í öllu falli virðist listsmekkurinn hanga saman við þjóðernissinnaða hugmyndafræði. Listaverkin sem heilla últra hægrimenn bera merki um efnislegt vald og físíska yfirburði. Þau eru ekki gagnrýnin á neitt og innibera hvorki flókin skilaboð né persónulegar skoðanir eða upplifanir. Frá þeirra bæjardyrum séð mætti segja að listaverk sem heilli hægrimenn snúist um upphafningu, í stað niðurrifs og gagnrýni. Þau sem aftur á móti trúa á list sem hreyfiafl sem byggi á frjálsri hugsun og andófi, líta málið öðrum augum. Málið kristallar viðkvæmar heimspekilegar spekúlasjónir um hvað flokkast sem list og hvað sem skraut. Um muninn á andans málum og glingri.
Me Ne Frego
Nú kynnu einhverjir lesendur að ætla að helstu menningarstofnunum Evrópu hafi hingað til öllum verið stýrt af vinstrisinnuðum hippum, en því fer fjarri. Það er grundvallarmunur á hægrimönnum og hægrimönnum, í þeim skilningi að frjálshyggjufólk hefur lengi setið í stjórnum merkustu listasafna heims í krafti auðs síns og samfélagslegra valda.
Listaheimurinn hefur um áratugaskeið verið vettvangur stjarnfræðilega stórra og áhættusamra viðskipta sem auðmenn heims hafa grætt stórkostlega á. Viðskipti í listaheiminum eru líka einstök að því leytinu til að þau fara nánast alfarið fram án nokkurs regluverks. Innherjaviðskipti og hagsmunatengsl eru fullkomlega lögleg í listaheiminum og það gerir setu í stjórnum listasafna eftirsóknarverða. Með margra mánaða fyrirvara geta þau sem sitja í slíkum stjórnum séð fyrir hvaða nýlistamenn munu hratt hækka í verði, hljóti þeir opinbera viðurkenningu með því að koma verkum sínum í virðingarverða safneign. Þess utan eru listasöfnin hentugur vettvangur mjúks valds, þar sem rétt fólk hittir annað rétt fólk og myndar persónuleg tengsl sem þróast í viðskiptaleg en lögleg hagsmunatengsl.
Umræddir frjálshyggjumenn virðast bera skynbragð á markaðsvirði og auðvitað fagurfræði þeirrar nýlistar sem hefur átt upp á pallborðið á listahátíðum á borð við Feneyjatvíæringinn. Evrópskir últra hægrimenn hafa aftur á móti meiri áhuga á að stöðva þau pólitísku skilaboð sem í listinni má finna og koma böndum á þá hugmyndafræði sem að baki listinni lúrir. Hugmyndafræði sem meðal annars snýst um mannréttindi, frjálsar ástir og að andæfa stríðsrekstri. Þeim gæti ekki verið meira sama um tilfinningar vinstrisinnaðra listamanna eða hvernig verk þeirra ganga kaupum og sölum fyrir háar fjárhæðir hjá evrópskri viðskiptaelítu. Við því hafa þeir bara eitt að segja: Me Ne Frego, sem er slagorð fasískra Ítala og þýðist sem: Mér er drullusama.
Þaulskipulögð aðför
Giorgia Meloni er ekki að finna upp hjólið í menningarhreinsunum sínum. Hún getur lært af mistökum og árangri Viktors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, við sömu iðju. Þá hafa pólsk stjórnvöld verið iðin við kolann undanfarin ár til að snúa sínum menningarstofnunum í átt að hugmyndafræði sem fellur betur að þeirra eigin. Sá viðsnúningur hefur þýtt aukin kaup opinberra stofnana á listaverkum sem bera merki pólskrar þjóðernishyggju, upphafningar fortíðar og svarthvítrar heimssýnar um baráttu góðs og ills. Kunnuglegt stef úr Miðgarði.
Rauði þráðurinn, og sá alvarlegasti, er þó ritskoðun innan safnanna sjálfra á mikilvægum pólitískum verkum er varða kvenfrelsi og málefni hinsegin fólks. Hörð afstaða íhaldssamra afla og flunkuný löggjöf í þessum Mið-Evrópuríkjum hefur gert það að verkum að feminísk og hinsegin list á hvergi lengur málsvara innan opinberra menningarstofnana þessara landa. Skaðinn sem verður þegar listaverk sem byggja á frjálslyndum viðhorfum eða lyfta mannréttindum eru ýmist seld úr safneign opinberu listasafnanna eða falin djúpt í iðrum safngeymslnanna og sjást því hvergi, er kannski ekki óbætanlegur en það mun kosta bæði tíma, peninga og ótrúlega samhæft átak frjálslynds fólks um alla álfuna, til að bæta hann. Og gatið sjálft sem ritskoðunin skapar í listasögunni verður bæði stórt og illgerlegt að stoppa í það þegar fram líða stundir.
Athugasemdir