Eftir tveggja ára búsetu Íslandi steig hin íslenskumælandi Oriana Agudelo Pineda upp í flugvél frá Íslandi til Venesúela í gær. Hún flaug með 180 samlöndum sínum frá Venesúela til heimalandsins. Eftir á Íslandi urðu móðir Oriönu, systir, mágur og tvö systrabörn hennar. Þau hafa öll fengið hæli hér en það fékk Oriana ekki þar sem hún er með tvöfalt ríkisfang – venesúelskt og kólumbískt.
Oriana og fólkið sem fór upp í vélina fór sjálfviljugt eftir að hafa fengið neitun um hæli hér á landi. En þau bjuggust ekki við því sem myndi taka við á vellinum.
„Síðan við stigum út úr vélinni hefur þetta verið algjör martröð,“ segir Oriana í skilaboðum til blaðamanns. „Ég vona að enginn annar ákveði að fara sjálfviljugur, það á enginn skilið að ganga í gegnum svona.“
Hún segir að fólkið hafi ekki fengið að hitta ættingja sína sem biðu á vellinum. Þá hafi þau verið kölluð í margar yfirheyrslur hjá lögreglu og rannsóknarlögreglu.
„Þau tóku myndir af okkur fyrir hverja yfirheyrslu,“ segir Oriana. „Á einni myndinni áttum við að halda á skilti með númerum, eins og við værum dæmdir glæpamenn.“
„Okkur er haldið gegn vilja okkar“
Fólkið hefur verið flutt í húsnæði þar sem það á nú að dvelja í tvo daga á meðan yfirheyrslur fara fram. „Okkur er haldið gegn vilja okkar,“ segir Oriana. „Þetta var ofboðslega niðurlægjandi, eins og refsing fyrir að hafa farið úr landi.“
Í nokkur ár veittu íslensk stjórnvöld nánast öllum þeim Venesúelabúum sem sóttu hér um hæli viðbótarvernd vegna slæmra aðstæðna í Venesúela. Fyrr á þessu ári staðfesti kærunefnd útlendingamála nokkra neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar í málum Venesúelabúa.
Þessu hafa Venesúelabúar mótmælt harðlega enda eru aðstæðurnar í Venesúela enn mjög slæmar, glæpatíðnin þar er ein sú hæsta í heimi, fáir hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu og flestir almennir borgarar eiga erfitt með að mæta grunnþörfum sínum.
Oriana hefur sótt um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Hún talar íslensku og var með vinnu í móttöku á hóteli hér á landi áður en hún var send burt. Hún vonast til þess að geta komið aftur til Íslands eins fljótt og hægt er, að hún fái að faðma börn systur sinnar og móður sína á nýjan leik.
Athugasemdir (1)