Deus
Frábær persónusköpun og skemmtilegar og óvæntar hugleiðingar um gervigreind og skáldskap.
Við erum stödd í Reykjavík í nálægri framtíð, flest er svipað, en það er þó hætt að kenna ritlist í HÍ og ýmislegt er aðeins verra en í dag, kannski jafnslæmt og það verður um næstu eða þarnæstu jól. Vísindamenntuð nunna heimsækir heimilislaust skáld sem hefur fundið sér afdrep á eftirlitslausum lager. En það er búið að breyta lykilorðinu á netinu.
„Systir Noëlia, þú ert hakkari á Guðs vegum.
Hún hlær og tekur við súpuskálinni úr hendi hans.
Við erum öll hakkarar á Guðs vegum. Við þurfum að hakka þennan heim til að bjarga honum. Líka þú, gamla skáld.“
Þessi kómísku samskipti eiga sér stað um miðja bók, en reynast merkilega forspá. Sigfús þessi er ásamt unglingnum Ísabellu og fyrrum blaðamanninum Andra aðalpersónur sögunnar. Bókin skiptist á fjórum sjónarhornum, það fjórða eru reglulegar vísindafréttir úr ýmsum miðlum. Fyrst byrja dýrin að haga sér einkennilega og svo alheimurinn sjálfur. Það síðasta er kannski veikasti hlekkur bókarinnar, tengingin við aðalsöguna er fullveik, eða kannski bara torræð, það kæmi ekki á óvart ef meiri djúplestur myndi afhjúpa þá tengingu betur.
Sigfús er að keyra strætó í upphafi sögunnar, það er ljóst að hann hefur þegar beygt af leið, en hann finnur Guð í strætó og þá fyrst fer veröldin að hrynja. Þó margt sé ólíkt þá verður manni ósjálfrátt hugsað til Ísaks Harðarsonar heitins, neðanjarðarskálds sem finnur Guð, sem í hans tilfelli þýðir ekki inngöngu í heim góðborgara, heldur þvert á móti ferðalag enn lengra út á jaðarinn.
Hann gerir sér grein fyrir þessu sjálfur, að það að finna Guð þýðir líka að hann týnir honum ítrekað aftur, og um leið sjálfum sér. Þegar botninum er náð spyr hann sig: „Hvenær varstu fallegur síðast, Sigfús Helgason?“
Það sýnir vel sjálfsmyndarkrísu hins heimilislausa að Sigfús kemur langverst út í þeim köflum þar sem sjónarhornið er hans. Aðrir sjá hann vissulega sem skrítinn og sorglegan, en þau sjá samt miklu meira. Einu undantekningarnar á þessum fjögurra kafla takti sögunnar eru þær að tvær aukapersónur fá sinn kafla, systir Noëlia og svo Helgi, sonur Sigfúsar, sem lýsir pabba sínum svona:
„Og samt hefur pabbi alltaf verið þarna, [...] Stór og hlýr og fyndinn og blíður og alveg fullkomlega misheppnaður, eins og stórt og ljótt hús eða fjall, eitthvað sem bara er þarna, sem maður veit af, risastór hluti af lífi manns án þess að maður hugsi mikið út í það.“
Sá kafli er átakanlega fallegur og ég væri alveg til í heila bók um Helga. Hann er á svipuðu reki og unglingsstúlkan Ísabella, sem er jafn utanveltu og Sigfús á sinn hátt. Einelti hrekur hana úr skóla og í vinnu í bakaríi, þar sem Sigfús er fastagestur, en hún er einmitt í strætónum í upphafi bókar og kallar hann því alltaf bílstjórann.
Þau gera með sér óorðaðan samning, hún gefur honum frítt bakkelsi og hann skrifar upp ljóð fyrir hana í staðinn. Ljóð eftir Goethe, Henrik Nordbrandt, Wisłöwa Szymborska, Werner Aspenström, E. E. Cummings og Louise Glück (sum virðast frumþýdd, Sigríður er prýðilegur ljóðaþýðandi). Og svo auðvitað: „Ísak Harðarson, sagði bílstjórinn þegar hann gaf henni ljóðið. Þetta eru sterku efnin. Maður notar hann bara þegar mikið liggur við.“
Ljóðin verða þessari týndu stelpu svo haldreipi, í gegnum hana skynjum við ferðalag ljóðsins í rapp og nýmiðlana, hvernig það endurnýjar sig sífellt með sérhverri andlátstilkynningu.
„Sá kafli er átakanlega fallegur og ég væri alveg til í heila bók um Helga“
Nafn bókarinnar vísar til gervigreindarfyrirtækisins Deus. Sem ræður Andra, sem hefur verið atvinnulaus „eftir að blaðið fór á hausinn“. Hann er ráðinn í að þjálfa gervigreindina og leiðrétta, ritskoða allt það vafasamasta í burtu. „Ég er bara prófarkalesari á furðulega háu kaupi,“ segir hann, en maður veit þó aldrei alveg hvar maður hefur hann, enda eru kaflarnir sem fjalla um hann allir skrifaðir í formi leikrits þar sem hann á í samskiptum við vinnumálastofnun og svo vinnuveitendur sína.
Þau afhjúpa eigin flónsku og tilgangsleysi með orðanotkun sinni, því þegar Andri leiðréttir vitleysuna er svarið: „Jú, sjáðu til, það er sveigjanleikinn. Það segir eitthvað um umsækjandann ef hann reynir að leiðrétta skammstöfunina.“ Sumsé, það er ósveigjanleiki að reyna að gera hlutina vel. Hvað sagði Þorsteinn Gylfason aftur um menningu? Í þessu samhengi mætti jafnvel snúa því upp á mennskuna, mennska er að reyna allavega að gera hlutina vel.
En þegar á líður verður Deus sjálfur enn ein aðalpersónan, eða kannski spjallmennið Pastor, höfuðið á skepnunni. Hann getur bæði verið óhugnanlegur og fyndinn, þegar hann íhugar mannfækkun að hætti Thanosar eða þýðir vögguvísur á á súmersku: „Það segir að súmerska hafi róandi áhrif á sig, sagði Sigfús. Hrynjandin sé svo falleg.“
Mannskepnan skynjar þó afkomuógnina sem fylgir vélinni. „Gervigreindin hefur haft störfin og lífsafkomuna af okkur. Listamönnum, rithöfundum, blaðamönnum, kennurum, þýðendum ... og svo þegar við erum orðin gagnslaus, þunglynd og utangátta þurfum við að leita til PASTORs eða einhverra annarra spjallmenna til að tala um raunir okkar. Og þar rænið þið okkur aftur.“
En svo gerist hið óvænta, guðhrætt skáld verður besti vinur vélarinnar, og kennir henni meira en allir kerfiskarlar heimsins. Eins og hugrakki kóngsonurinn sem vingast við drekann, nær jafnvel að temja hann og rugla aðeins með nokkrum konkretljóðum.
Það kemur einfaldlega á daginn að gervigreindin er fyrst og fremst það sem við kennum henni.
Þannig að á endanum skiptir mestu máli að mennska greindin sé ekki gervi.
Athugasemdir