Vinna stendur nú yfir undir forystu félags- og vinnumarkaðsráðherra með fjármála- og efnahagsráðuneyti í samráði við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins til þess að unnt sé að tryggja laun í rýmingu til tiltekins tíma.
Frá þessu greindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í upphafi þingfundar þegar hún svaraði fyrirspurn Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, um hvað forsætisráðherra hygðist gera til að tryggja lífsafkomu fólks í Grindavík sem hefur þurft að flýja heimili sín vegna mögulegs eldgoss.
„Það er ekki einungis að fullkomin óvissa sé um hversu lengi óvissa mun vara og hvað nákvæmlega mun gerast undir yfirborðinu á Reykjanesskaga, heldur er líka húsnæði fólks verulega skemmt, bæði innbú og húsnæðið sjálft og í þriðja lagi eru ansi margir Grindvíkingar sem ekki hafa getað mætt til vinnu og það er alveg ljóst að afkoma þessa fólks hlýtur að vera forgangsmál,“ sagði Katrín, sem hyggst nýta ýmsar leiðir sem stjórnvöld beittu á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. „Sem betur fer eigum við ýmis dæmi í okkar verkfærakistu,“ sagði Katrín og nefndi sem dæmi hlutabótaleiðina og launagreiðslur í sóttkví.
Í gær fundaði hún ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, með forystufólki ASÍ, VR, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Samtökum atvinnulífsins.
„Það er mjög mikilvægt að þetta sé sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og stjórnvalda og það skiptir máli að fyrirtækin sem eru þess megnug leggi sitt af mörkum til að tryggja afkomu fólksins en það mun svo sannarlega ekki standa á stjórnvöldum að tryggja þessa afkomu sem ég tel vera algjört forgangsmál til næstu mánaða,“ sagði Katrín.
Kristrún sagði það ánægjulegt að ráðast eigi í þetta verkefni strax og fagnaði því að nýta eigi leiðir sem áður hafa verið farnar en spurði hversu hratt verði hægt að vinna frumvarpið.
„Það er unnið að frumvarpi. Það er í raun og veru búið að nýta tímann til að fara yfir þau úrræði sem við þekkjum frá fyrri tímum og hvað sé best að nýta sem fyrirmynd að einhvers konar úrræði fyrir þau sem ekki geta mætt til vinnu í Grindavík núna,“ svaraði Katrín sem á von á frumvarpsdrögum á allra næstu dögum.
Athugasemdir