Lögreglan á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að hleypa öllum íbúum Grindavíkur til síns heima í dag, til að safna saman nauðsynjum og verðmætum.
Fólk getur nú ekið á eigin bílum um Suðurstrandarveg til Grindavíkur, að hámarki tveir í hverri bifreið og biður lögregla „alla um að taka eins stuttan tíma og hægt er“ þar sem einungis er hægt að vinna í dagsbirtu.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að búið sé að merkja hvar skemmdir eru í bænum með keilum. Þá verði íbúar að hlusta eftir hljóðmerkjum, ef viðbragðsaðilar gefi slík, og virða þau. Einungis ein flóttaleið er út úr bænum, Suðurstrandarvegur.
Tilkynnt var um kl. 10 í morgun að íbúum á ákveðnum svæðum í Grindavík yrði heimilt að fara inn í bæinn í fylgd með björgunarsveitum. Laust fyrir tólf á hádegi var svo tilkynnt að íbúar fleiri svæða í bænum mættu gefa sig fram á Suðurstrandavegi kl. 13 í dag.
Í kjölfarið var svo tekin ákvörðun um að hleypa öllum íbúum inn í bæinn, að sækja verðmæti og nauðsynjar á heimili sín.
Athugasemdir