Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að ekki sé unnt að svo stöddu að bjarga búfénaði og húsdýrum af skilgreindu hættusvæði við Grindavík vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Svæðið er sem stendur lokað öllum mannaferðum, þar til annað verður ákveðið, segir í tilkynningu frá Almannavörnum.
Þar kemur fram að viðbragðsaðilar séu hins vegar í viðbragðsstöðu og reiðubúnir til að ráðast í slíka aðgerð „um leið ef aðstæður breytast og tækifæri gefst til“.
Þetta er áfall fyrir marga, allt fólkið sem varð að skilja ketti, hamstra, kanínur, páfagauka, hænur, dúfur, hesta og kindur og eflaust fleiri dýr eftir er rýma þurfti Grindavík á skömmum tíma í gærkvöldi. „Neyðin er mikil hjá öllum gæludýraeigendum og fólk er orðið örvæntingarfullt,“ segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, um þessar fregnir nú í kvöld.
„Við vorum hins vegar að fá staðfestingu á því að við erum hluti af viðbragðshóp við björgun dýra, þegar að því kemur og ef að því kemur,“ segir hún. Dýrfinna og fjöldi annarra dýraverndunarsamtaka hafa tekið höndum saman um að skrá niður öll þau dýr sem eru enn á hættusvæðinu og hafa ennfremur sett saman leitarhóp, fólk með reynslu og þekkingu á því að fanga dýr, sem þau hafa boðið fram til aðstoðar.
„Við megum auðvitað ekki fara á svæðið núna,“ segir Sandra. „En þegar kallið berst þá erum við komin með mjög góðan hóp af reyndu fólki í björgun dýra með okkur í lið.“
Tugir katta urðu eftir í Grindavík er eigendur þeirra yfirgáfu bæinn í gær líkt og Heimildin greindi frá í dag. Kettir fara sínar eigin leiðir og margir þeirra því utandyra er rýmingin var ákveðin með stuttum fyrirvara.
Athugasemdir