Við stöndum hér, gyðingar, Danir, Palestínumenn, því að við erum, í öllum okkar fjölbreytileika, sameinuð í hryllingi okkar gagnvart því sem á sér stað þessa daga og vikur í Ísrael og á Gaza. Sjöundi október, þegar 1400 Ísraelar voru myrtir eða teknir sem gíslar af Hamas, var hryllilegur dagur. Sérhver dagur á Gaza er hryllilegur dagur, bráðum 10.000 dauðir, þar af 4000 börn og meira en 30.000 særðir. Á bak við hverja einustu tölu er andlit, líkami, ævisaga, von, draumur, sem slökkt hefur verið á að eilífu, eins og kerti sem fellibyllur stríðsins hefur slökkt á.
Höfum eitt á hreinu: það er í stríði sem öfgamennirnir þrífast, því í stríði eru aðeins óvinir og það er grænt ljós til að drepa. Allir geta orðið fórnarlömb, ekki aðeins vopnfærir karlmenn, heldur konur, börn, lamaðir, veikir og aldraðir, sem geta ekki einu sinni farið út úr húsi.
Í stríðsdyninum þagna allar raddir. Enginn heyrir bænina um vopnahlé, lausnir eða frið, því sprengjugnýrinn yfirgnæfir allt. Líti maður í augu óvinar síns, þá er það bara til að finna út hvar sé best að koma drápskúlunni fyrir, ekki til að uppgötva sameiginlega mennsku, sem getur komið hendinni til að hika.
Á Gaza hafa ekki verið kosningar í 16 ár, svo Hamas getur óhindrað haldið áfram á sinni braut inn í stríðið. Í Ísrael er verið að kæfa síðustu leyfar lýðræðisins í höndunum á öfgahægristjórn Netanyahus.
Þar sem á að tala, rökræða og sýna virðingu eiga öfgamenn engan séns. Núna, þegar stríðið eyðileggur allt, dafna þeir bæði í Ísrael og á Gaza. Þannig hafa öfgamennirnir kallað ógæfu yfir eigin þjóðir, og enginn talar máli almennra borgara.
1400 myrtir í Ísrael. Bráðum 10.000 myrtir á Gaza. Hversu hátt á endurgjaldið að vera? Hvar endar það? Hversu djúp á gjáin milli tveggja þjóða að vera, áður en allir falla í hana?
Ef mannfall óvinarins er miklu meira en þitt eigið, og ef margir þeirra eru börn, hefurðu þá í alvöru unnið? Eða hefurðu þvert á móti tapað síðustu leyfunum af mennskunni, sem ætti að vera grundvöllur sérhvers samfélags?
Hvað annað gerir land sem á í sífelldum erjum, íbúum sínum, en að kenna þeim fyrirlitningu í garð sinna eigin nágranna? Börn fæðast án þjóðernisvitundar. En þau öðlast hana fljótt, og í landi sem á í stríði verður vitundin ekki að öðru en hatri.
Hvað er það fyrsta sem þú lærir sem barn á Gaza? Að þú eigir þér enga framtíð. Allt annað, það sem þú þarft til að halda þér á lífi, verðurðu að læra þrátt fyrir það. Þú nemur iðn þrátt fyrir það. Þú verður ástfangin(n) þrátt fyrir það. Þú eignast börn þrátt fyrir það. Ef þú reynir að sleppa, þá uppgötvarðu að allar leiðir eru þér lokaðar. Þú getur ekki einu sinni orðið flóttamaður. Þú átt þér hvorki samastað né framtíð á jörðinni. Og þegar sprengjurnar falla svo á húsið þitt, þá rætist sú bölvun sem þér var ásköpuð í fæðingu.
Svokallað mannúðarhlé í vonleysinu, samloka í hendinni, áður en síðustu eftirlifendurnir í fjölskyldunni þinni verða myrtir - það er það sem alþjóðasamfélagið býður þér. Lengra hrekkur stuðningur okkar ekki.
Hvar er von að finna? Ég eygi von þegar bandarísku samtökin Jewish Voice for Peace heldur kröfugöngur aftur og aftur. Ég eygi von þegar ísraelskir menntamenn ráðast gegn eigin ríkisstjórn og benda á samsekt hennar. Ég eygi von þegar múslimakonur í Bretlandi koma saman í gegnum tengslanetið Nisa-Nashim.
Ég eygi von þegar palestínskur faðir og ísraelskur faðir, sem báðir hafa misst börnin sín í hinu eilífa stríði, ná saman í samtökum foreldra barna sem hafa verið drepin. Rami Elhanan missti 14 ára dóttur sína þegar palestínskur sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi hana í loft upp. Bassam Aramin missti 10 ára gamla dóttur sína, þegar ísraelskur hermaður skaut hana. En þeir hafa rétt hvor öðrum höndina og kalla sig bræður. Þeir eru bræður í missinum og sorginni, þeir eru bræður í að hafna hefnd og biturð. „Við eigum það sameiginlegt að vera manneskjur,“ segja þeir. „Ísraelar geta ekki hrakið Palestínumenn út í eyðimörkina. Palestínumenn geta ekki varpað Ísraelum í hafið. Það er betra að deila sömu jörðinni en að liggja í sömu gröfinni.“
Sérhver sprengja, sérhvert dráp á barni, drepur líka samræður. Aðeins sá, sem hefur sagt skilið við síðustu leifar mennskunnar, getur trúað því, að lík ísraelskra og palestínskra barna geri heiminn að betri stað. Líf barna er heilagt, í allradýpstu merkingu orðins. Það er í þeim, sem vonin um friðsaman heim verður að lifa.
Almenningsálitið er eins og stærðarinnar limgerði, myndað af röddum úr alls kyns menningu, sannfæringu og trú. Það verður að slá vörð um hvert einasta barn í Ísrael og á Gaza.
Látum vopnin þagna. Förum að tala hvert við annað.
Carsten Jensen (f. 1952) er danskur rithöfundur. Einar Steinn Valgarðsson þýddi.
Þetta væri svipað og ef Íslendingar gerðu tilkall til Noregs og múruðu Norðmennina inní pínulitlu fangelsi og réttlættu það með að segja að guð nokkur hafi gefið Ingólfi Arnarssyni og afkomendum hans Noreg og íbúarnir mættu bara hypja sig.