Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða um laxeldi í sjó hér við land. Þar hefur mest verið rætt um áhrif eldislax, sem sleppur úr sjókvíum, á hinn villta íslenska laxastofn. Ég hef alllengi efast um að þessi starfsemi eigi sér langa framtíð af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar hér. Fyrir nokkru horfði ég á heimildarþátt í sænska sjónvarpinu sem bar nafnið Rányrkja í Atlandshafi. Það er kveikjan að þessum skrifum.
Rányrkja vestan við Afríku
Síðustu 3-4 áratugi hafa flotar öflugra fiskiskipa stundað gríðarlegar veiðar með flot- og botntrollum á hafsvæðinu vestan Afríku, allt frá Senegal í norðri til Namíbíu í suðri. Lengi vel voru það fyrst og fremst Evrópubúar, einkum Spánverjar og Frakkar sem komu þarna við sögu, þótt fleiri Evrópuþjóðir hafi komið að, þar á meðal fyrirtæki með tengsl við Ísland.
Á þessari öld hafa Kínverjar og Rússar orðið æ stórtækari í þessum veiðum og er nú svo komið að Kínverjar eru þarna í aðalhlutverki, með a.m.k. 3 milljón tonna ársveiðar. Ekki er vitað um umfang allra veiða á svæðinu en giskað er á að þær geti numið meira en 6 milljónum tonna. Þar sem stór hluti af þessum veiðum er bæði ólöglegur og óskráður er allt eins líklegt að þarna geti verið um mun meira magn að ræða. Þessar veiðar fara nú minnkandi enda er talið að meira en helmingur allra fiskistofna á svæðinu séu í útrýmingarhættu og aðrir séu fullnýttir eða ofnýttir.
Strandveiðisamfélög í rúst
Sú strandlengja sem þarna er um að ræða er meira en 5000 km löng og íbúatalan talin vera 100-200 milljónir allt eftir því hversu langt er farið inn í landið. Íbúar strandhéraðanna hafa um aldir lifað á fiskveiðum bæði til beinnar fæðu en einnig sem tekjulind með sölu á ferskum, þurrkuðum, söltuðum eða reyktum fiski til neyslu meðal íbúa annarra landshluta eða landa fjarri ströndinni.
Hin hrikalega rányrkja sem þarna hefur viðgengist er að rústa þessum samfélögum. Nú veiða tugþúsundir smábáta sem þarna stunduðu veiðar ekki nema örlítið brot af þeim fiski sem áður kom í net innfæddra sjómanna og því vantar verulega upp á nægt fiskmeti fyrir íbúana. Veiðimenn, einkum þeir yngri, sem lifðu á þessum veiðum eiga því ekki í neina atvinnu að sækja og hafa í vaxandi mæli lagt á flótta. Stór hluti þeirra notar nú gömlu fiskibátana sína til að flytja fólk sem neyðist til að yfirgefa svæðið, m.a. til Kanaríaeyja eða norður með ströndum Sahara í von um að komast til Evrópu. Margir þessara flóttabáta ná aldrei landi.
Fiskleysið og flóttinn veldur nú fæðuskorti meðal kvenna og barna á svæðinu auk þess sem konurnar hafa misst þá atvinnu og tekjur sem þær höfðu af fiskverkun fyrr á árum. Þessi þróun veldur líka röskun á hlutföllum kynjanna í þessum strandsamfélögum þar sem karlar eru í meirihluta þeirra sem flýja.
Hvað verður um aflann?
Samkvæmt því sem fram kom í fyrrnefndum þætti fer stór hluti þess fiskjar sem þarna er og hefur verið veiddur til framleiðslu á fiskimjöli. Þótt mikið af framleiðslunni hafi á síðari árum farið til Asíu (Kína o. fl. landa) er ljóst að fiskeldi í sjó við Noreg og önnur Evrópulönd hafa notað slíka afurð í miklu magni. Svipaða þróun má einnig sjá í Eystrasalti þar sem nú er talið að um 70% af aflanum fari til að framleiða fiskimjöl, sem notað er í margs konar eldi svo sem kjúklinga og og önnur eldisdýr en ekki síst ofan í þau 1,5 milljón tonna sem framleidd eru á ári af norskum eldislaxi.
Íslendingar eru nú á mikilli siglingu í fiskeldi, einkum á laxi í sjó. Nú eru framleidd um 50.000 tonn á ári en stefnt er að tvöföldun eða meiru á því magni fyrir 2030. Vonandi berum við gæfu til að afla eða framleiða sjálfir mestan hluta af því fóðri sem þarf í þennan vaxandi atvinnuveg.
Lokaorð
Það setti að mér ónotahroll við að horfa á fyrrnefnda heimildarmynd. Ljóst er að Íslendingar og aðrar ríkar þjóðir Vesturlanda eru að verða æ stærri þátttakendur í framleiðslu á eldisfiski, einkum laxi, sem alinn er á fæðu sem að stórum hluta er tekinn frá fátækasta hluta heimsins, m.a. í Afríku. Og ekki nóg með það, heldur er hægt að færa rök fyrir því að með þessu framferði sé verið að stuðla að sívaxandi fólksflótta frá strandsvæðum Afríku til Evrópu. Með öllum þeim vandamálum og hörmungum sem þeim flótta fylgir fyrir þennan fátækasta hluta heimsins.
Höfundur er veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri
Athugasemdir