Ef „hraðbraut á þjóðvegi 1“ verður hleypt beint inn í Langholtshverfi með komu Sundabrautar yrði um meiriháttar breytingu á forsendum þess að búa þar að ræða. „Ljóst má vera að öllum hugmyndum um brú, þvert á gildandi samþykktir borgarstjórnar, og þvert á vilja íbúa hverfisins, verður mótmælt kröftuglega á öllum stigum með öllum þeim úrræðum sem íbúar hafa til að forða hverfi sínu frá stórslysi.“
Íbúasamtök Laugardals eru langt í frá spennt fyrir Sundabraut sem myndi, hvort sem hún yrði lögð í göngum yfir Kleppsvík eða á brú, hafa áhrif á umferðarþunga um Voga, Sund, Langholt og fleiri nálæg hverfi. Í ítarlegri umsögn samtakanna um matsáætlun Sundabrautar sem og um fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur, er bent á ótvíræða hagsmuni íbúa á þessu svæði sem þegar glími við mikla bílaumferð.
„Það er ljóst að ef af þessari framkvæmd verður þá er brýnt að hagsmunir íbúa hverfisins fái vægi til jafns við aðrar lífverur á svæðinu og ekki er hægt að horfa fram hjá lýðheilsuþáttum s.s. umhverfismengunar í nábýli við leikskóla eða aukna slysahættu af umferð nálægt skólum,“ segir í umsögn samtakanna sem formaður þeirra, Lilja Sigrún Jónsdóttir, ritar.
Vegagerðin leggur til tvo valkosti um þverun Kleppsvíkur, þ.e. Sundabrú annars vegar og Sundagöng hins vegar. Hábrú, sem eitt sinn var talin kostur, er ekki lengur á teikniborðinu. Slík brú þyrfti að vera yfir 50 metrar á hæð svo undir hana kæmust skip. Enn er þó brúarkosti haldið inni. Hún myndi tengjast inn á Sæbraut í gatnamót við Holtaveg og liggja svo á brú yfir hafnarsvæðið og Kleppsvík og lenda loks á landfyllingu út af Gufuneshöfða, samkvæmt því sem segir í matsáætlun framkvæmdarinnar. En undir hana kæmust ekki stór skip og því þyrfti, ef brúin yrði fyrir valinu, að færa athafnasvæði Samskipa.
Lega og lengd Sundaganga myndi markast af því hversu djúpt þau þyrftu að fara undir sjávarbotn í Kleppsvík. Miðað er við 35-40 metra undir föstum botni. Göngin myndu tengjast inn á Sæbraut á tveimur stöðum; til vesturs í Laugarnesi við Dalbraut og til suðurs þar sem hún tengist inn í framlengingu á fyrirhuguðum stokk í Sæbraut milli Holtavegar og Kleppsmýrarvegar. Sundabrú er talin vera um 14 milljarða króna ódýrari kostur en Sundagöng.
Lilja bendir á að íbúasamtökin hafi tekið virkan þátt í samráði um Sundabraut á árunum 2005-2007 ásamt Reykjavíkurborg, Vegagerðinni og íbúasamtökum Grafarvogs. Í því samráði hafi verið farið vandlega yfir málin, hugsanlegar lausnir, umferðarspár, hagkvæmni og umhverfisáhrif á íbúa ef af yrði. „Niðurstaðan var skýr, fyrir íbúa væru göng heppilegasta lausnin, á ytri leið, sú lausn sem helst myndi hlífa íbúum við miklum áhrifum umferðar og mengunar,“ segir Lilja. Undir þetta hafi borgarstjórn tekið og samþykkt einróma snemma árs 2008 að Sundabraut yrði í göngum.
Árið 2021 hefst umræðan aftur, með samkomulagi ríkis og borgar, „og allt í einu er gert ráð fyrir brú sem þverar hafnarsvæði Samskipa og framhald hennar á síðan að liggja í plani beint inn í Laugardalshverfi um Holtaveg, Langholtsveg, Álfheima,“ segir í umsögn íbúasamtakanna. Á þessu svæði eru fleiri en einn leikskóli, grunnskóli, frístundaheimili sem og þétt byggð íbúa „sem yrðu mjög útsett fyrir mengun og umferðarhættu, enda er talið að tugþúsundir bíla myndu fara um þessa brú á degi hverjum“. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir öðru en að mikill fjöldi þeirra færi þessa leið í gegnum hverfið, „íbúum til mikillar ánauðar og eignatjóns“.
Upplifa sig sem þolendur
Helstu rökin með brú í stað ganga er að hún sé mun ódýrari. Í þeim tillögum sem kynntar hafa verið á eftir að reikna inn eignatjón íbúa, þær aukatengingar sem þarf fyrir hafnarsvæði og hver eigi þá að greiða fyrir að stór hluti Sundahafnar verður ekki nothæfur, því ekki eru ný hafnarmannvirki ókeypis,“ skrifar Lilja.
Hún segir að á kynningarfundum um Sundabraut, sem Vegagerðin hélt víða um borgina í haust, hafi íbúar í Laugardal lýst sér sem þolendum framkvæmdarinnar. „Það er mjög brýnt að hagsmuni íbúa í Laugardal aðlægt Sundabraut séu metnir að fullu, lífsgæði, lýðheilsa og öryggismál. Skipulagsferlar af því taki sem hér er fylgt eru lögfestir til að tryggja gæði borgarinnar sem búsetu- og vinnustaðar. Þar verða íbúar að geta treyst að réttur þeirra til heilsusamlegs umhverfis verði virtur.“
Ef ákveðið verður að byggja Sundabraut leggja íbúasamtök Laugardals eindregið til að farin verði gangaleið „og öllum áætlunum um brú verði kastað fyrir róða, enda verði aldrei nokkur sátt um þær“.
Samkvæmt samkomulagi sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir árið 2021 yrði Sundabraut, hin tíu kílómetra langi þjóðvegur frá Elliðavogi til Kjalarness, fjármögnuð með veggjöldum. „Ekki er gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði,“ segir í samkomulaginu. Þar kemur einnig fram að stefnt sé að því að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist „eigi síðar en 2026 og brautin verði tekin í notkun 2031, með eðlilegum fyrirvörum um niðurstöðu samráðs og umhverfismats“.
Umhverfismat framkvæmdarinnar hófst nú í haust með útgáfu matsáætlunar. Um 70 umsagnir og athugasemdir, langflestar frá íbúum á áhrifasvæði Sundabrautar, bárust. Næsta skref í umhverfismati er að fara yfir allar umsagnir og bregðast við þeim í umhverfisskýrslu sem Skipulagsstofnun tekur loks til álits. Vegagerðin reiknar með að niðurstaða stofnunarinnar gæti legið fyrir næsta vor.
Athugasemdir