Allt frá árinu 2011 hefur 8. nóvember verið tileinkað hlutverkið dagur gegn einelti. Fyrst var hann í höndum Menntamálastofnunar en frá 2019 hefur Heimili og Skóli borið ábyrgðina á deginum.
Það þarf vart að taka fram að einelti er síviðvarandi samfélagsmein sem herjar á þá einstaklinga sem eiga á brattann að sækja í lífinu. Þó er vert að taka fram að enginn er stikkfrí frá þessu víti og sérhvert mannsbarn getur orðið fyrir barðinu á illkvitnislegri og óæskilegri framkomu af hálfu þeirra sem hugnast slíka hegðun. Þó allir, á hvaða aldri sem er, geta orðið fyrir einelti, þá þarf að gefa yngstu þolendum, og gerendum, sérstakan gaum. Það vill þannig til að börn eru almennt að móta sér sitt siðferði og sína ásættanlegu hegðun, á meðan fullorðnir eru komnir með hegðun sína og atferli að mestu skilgreint og niður njörvað. Grunnskólinn er þar sem börnin hitta jafnaldra sína, það er þar sem þau gera sínar tilraunir og uppgötvanir á því hvernig lífið er og virkar. Það er þar sem þau gera mistökin sín varðandi átroðning og yfirgang á öðrum sem endar svo oft í einelti.
Kennaranámið og eineltisforvarnir
Það ætti að vera óþarfi að nefna það að kennarar eru þeir sem kenna börnum í skólum landsins. Þetta er lögvarinn starfstitill og einungis þeir sem fengið hafa kennsluréttindi frá kennaraháskólanum hafa réttinn til að bera titilinn kennari. Það sem meira er, þá er það kennarinn sem er í hringamiðju amsturs barnanna, hvort sem það er í lærdómi innan kennslustofunnar, eða úrvinnslu þeirra árekstra sem eiga sér stað barnanna á milli á göngum skólans eða í frímínútum. Þessi sérstaða gerir það að verkum að enginn einstaklingur í lífi barnanna er betur staddur til þess að fyrirbyggja einelti og ofbeldi á milli nemenda og kennarinn. Það er meira að segja bundið í lögum um kennararéttindin að þeim ber skylda að tryggja uppbyggingu góðs siðferðis barna og tryggja öryggi þeirra. Í þessum lögum stendur í 4. grein, 4. lið: „Hæfni til að vinna að jákvæðum skólabrag og öruggu skólaumhverfi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð nemenda.“ Skólalög, sem snúa að lagaramma allra skóla landsins fara enn ítarlega í þetta í annarri grein þeirra laga. Þar kemur upp löng upptalning þess sem skóli þarf að tryggja, þar með talið, velferð, öryggi, ábyrgð og virðingu fyrir manngildi. Það er því nokkuð geirneglt að skólakerfið lítur svo á að kennurum ber skylda að tryggja þessa ofangreinda hluti. En þá vaknar spurningin, hvaða menntun eru kennarar með til að tryggja að þessi mikla ábyrgð skili sér?
Ef við skoðum kennaranámið þá er það fimm ára nám, þriggja ára grunnnám og svo tveggja ára meistaranám. Best er að líta til grunnnámsins fyrst og fara yfir það. Það er 180 eininga nám, uppfullt af fræðilegum áföngum tengt kennslu og kennslufræði. Víða liggur þar samt pottur brotinn því að enginn áfangi í grunnnámi kennaranema fer í og kennir eineltisforvarnir. Enginn áfangi er um aga- og bekkjarstjórnun. Enginn áfangi er til að undirbúa tilvonandi kennara í samskiptum við foreldra. Enginn áfangi tekur fyrir nemendur sem þjást af skólaforðun, sýna neikvæða eða óæskilega hegðun í skóla. Þetta er grunnnámið. Eftir það tekur við 120 eininga meistaranám. Þar er nákvæmlega sama upp á teningnum, fyrir utan það að einn áfangi tekur fyrir í tvær vikur, sem eru tvær kennslustundir, samanlagt um þrír klukkutímar í skólastofu með kennara, „stuðlað að jákvæðri hefðun og samskiptum innan nemendahóps“ og „kennsla/stuðningur við nemendur með ADHD, hegðunar- og/eða tilfinningavanda“. Utan þessara tveggja vikna í þessum eina áfanga á meistarastigi er enginn áfangi sem nálgast þetta annars mikilvæga málefni í öllu fimm ára námi kennaranema. Því er hægt að segja að enginn kennari gengur út úr Kennaraháskóla Íslands með þekkingu til að tækla lögbundið hlutverk sitt í skólum landsins. Enginn kennari er undirbúinn fyrir að standa frammi fyrir ákvörðunum tengt einelti því það er einfaldlega ekki kennt.
Eineltisforvarnaráfangar eru til innan Kennaraháskóla Íslands, þeir tilheyra tómstundafræðinni hins vegar. Eineltisforvarnaráfangarnir höfðu einnig kvaðir sem gerðu það að verkum að kennaranemar gátu ekki skráð sig nema með formlegum beiðnum um undanþágu til að fá að sitja áfangana. Í ofan á lag þá sjá kennaranemar ekki áfangana í kerfinu nema vita áfanganúmer þeirra fyrir fram. Því er aðgengi þeirra að þessum áföngum í raun falið.
„Á meðan kennarar fá ekki þá menntun sem þeir þurfa til að tækla þetta samfélagsmein þá mun vandinn halda áfram“
Nýlega var verið að breyta kennaranáminu og færa það yfir í nútímalegra form. Í þeim breytingum er ekki eineltisforvarnaáfangi í kennsluskránni, hvorki í grunnnámi né í meistaranáminu. Eini árangurinn í þessum málaflokki sem náðist af hálfu nemendafélags KHÍ var að fella kvaðir á eineltisforvarnaráfanga á meistarastigi, hann er samt kennaranemum ósýnilegur þar sem hann tilheyrir áfram tómstundafræðinni.
Raunir barna með Tourette
Í skólakerfinu á Íslandi er, líkt og í nágrannalöndum okkar, stór hópur barna sem þarfnast stuðnings, annað hvort sökum hamla, fatlana eða raskana. Þessi börn er hópurinn sem er í hvað mestri hættu að verða undir í skólasamfélaginu, hvort sem það er námslega eða félagslega. Því er brýnt að þessi börn fái það sem þarf til að þau verði ekki undir. Sá stuðningur er bæði kerfislegur, í formi sérkennslu eða liðvörslu, en einnig samfélagslegur. Þar koma forvarnir inn í spilið. Skólakerfið þarf að hafa það sem til þarf til að tryggja að samfélag barna þroskist með þeim hætti að öll börn fái tækifæri til að dafna.
Almennt er talið að um 0,6% þjóðarinnar sé með Tourette Syndrome. Samkvæmt hagstofunni voru 47.115 börn í grunnskólakerfinu. Miðað við það má áætla að það séu um 283 börn með Tourette í skólakerfinu, sem er lág tala ef hún er borin saman við ADHD tölfræðina þar sem gróflega má áætla að séu 1225 börn með ADHD. Samt sem áður fá Tourette samtökin árlega í kringum 10 fyrirspurnir frá ráðþrota foreldrum þar sem barn þeirra er að verða fyrir einelti í skóla. Þetta eru mál þar sem búið er að fara ítrekað í gegnum skólakerfið með málið og niðurstaðan hefur alltaf leitt í sama farið.
Tourette samtökin og fyrirlestrar samtakanna
Þar sem Tourette samtökin voru stofnuð til stuðnings við þeim sem eru með Tourette, og aðstandendur þeirra, þá tóku samtökin á upp því að bjóða fræðslu í skóla um taugaröskunina. Með þessari fræðslu hefur dúkkað upp, í símeiri mæli, umræðan um einelti. Hefur það endað á þann veg að Samtökin fengu fyrir stuttu ansi veglega styrki til fræðslu um Tourette, fylgiraskanir þess og einelti, frá Öryrkjabandalaginu og heilbrigðisráðuneytinu til að halda fyrirlestra um þessi málefni í þeim skólum sem þess óskuðu óháð því hvar á landinu þeir séu. Samtökin settu sér það að vera með fræðslu fyrir sem fjölbreyttastan hóp og heldur fræðslu fyrir nemendur, foreldrafélög og starfsfólk skóla. Fjöldi þeirra skóla sem hafa nýtt sér þessa fyrirlestra hleypur á tugum, samtökunum til mikillar ánægju og gleði.
En það eru ekki bara Tourette samtökin sem upplifa þessa gleði. Umræður og umsagnir skólastjórnanda um þessa fyrirlestra hafa verið á þann veg að þessari fræðslu sé þörf í skólakerfinu öllu.
Sem stendur er ekki boðið upp á þessa kennslu í Kennaraháskólanum, og því fellur ábyrgð fræðslunnar annað. Æskilegast væri að kennarar væru menntaðir í að sinna þessu hlutverki. Engir einstaklingar eru í eins góðri stöðu til að fyrirbyggja einelti og uppræta slíkt í startholum sínum og kennarar. En á meðan kennarar fá ekki þá menntun sem þeir þurfa til að tækla þetta samfélagsmein þá mun vandinn halda áfram. Á meðan þetta er raunin munu Tourette Samtökin gera sitt til að hlaupa undir bagga með þetta.
8. nóvember er dagur gegn einelti. Gerum betur. Við skuldum okkur það.
Höfundur er formaður Tourette samtakanna og mastersnemi í kennslufræðum.
Athugasemdir (1)