Eftir að Joe Biden, Ursula von der Leyen, Rishi Sunak og fleira stórmenni höfðu sótt Ísrael heim og lýst yfir afdráttarlausum stuðningi sínum við Ísraelsmenn, mætti Emmanuel Macron á staðinn. Svo var helst að sjá að hann vildi hafa síðasta orðið, leika semsé rúsínuna í pylsuendanum í þessari miklu prósessíu. En fljótt kom í ljós að á þessu sviði voru leikhæfileikar hans takmarkaðir. Hann fullvissaði Netanyahou um stuðning sinn, eins og aðrir höfðu gert, og komst svo langt að fá dræma áheyrn hjá Mahmud Abbas og konunginum yfir Jórdaníu – þangað höfðu ekki allir komist – en eina frumlega tillaga hans til að leysa úr því skelfilega ástandi sem nú er komið upp var að hvetja til þess að komið yrði á fót alþjóðlegum samtökum hervelda til að berja Hamas niður.
Blaðamenn klóruðu sér í kollinum og spurðu: Hvað á maðurinn við? Vill hann að Frakkar, Bandaríkjamenn, Bretar og kannske fleiri fari að kasta sprengjum á Gaza-svæðið við hliðina á Ísraelsmönnum? Ég varð þó var við að menn sem annars höfðu lítið álit á kænsku Macrons töldu að þetta kynni að vera tilraun hans til að fá Ísraelsmenn til að fresta innrás sinni í Gaza-svæðið eða jafnvel hætta við hana. Því væri tillagan á sinn hátt jákvæð.
En hvort sem þetta var ætlan Macrons eða ekki datt hugmyndin dauð niður, aðrir þjóðarleiðtogar skelltu skollaeyrum við orð hans, enginn gerði svo mikið að nefna þau. En Frakkar drógu sína ályktun af orðum hans og gerðum fyrir botni Miðjarðarhafs, þeir sáu að Macron hefði nú vikið frá því sem var stefna forvera hans í embætti. Á sínum tíma leitaðist de Gaulle, stofnandi fimmta lýðveldisins, við að sýna visst hlutleysi í málum þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann studdi Ísraelsmenn að vissu marki en vildi einnig halda uppi góðu sambandi við aðra aðila og sýna málstað Palestínumanna nokkurn skilning. Því voru Frakkar vinsælir í mörgum arabaríkjum, þegar komið var inn í búðir smákaupmanna í Sýrlandi blasti þar gjarnan við stór mynd af de Gaulle. Ég heyrði sögu af frönskum ferðamönnum sem af einhverjum ástæðum komust í hann krappann einhvers staðar meðal araba og sneru sér úr vandanum með því að hrópa “de Gaulle, de Gaulle!” Þá var þeim tekið fagnandi. Þessari stefnu de Gaulle héldu eftirmenn hans á forsetastóli dyggilega til streitu, Mitterrand, Chirac og aðrir. En nú má öllum vera ljóst að Macron hefur kúvent og snúist í einu og öllu á sveif með Bandaríkjamönnum. Kanarnir voru áður óvinsælir í arabalöndum, þeir eru enn óvinsælli nú, og andúð á Frökkum blossar upp, að sögn blaða.
Af því hafa Frakkar ekki miklar áhyggjur, opinberlega, því stjórnmálamenn úr flestum flokkum virðast vera á sama máli og Macron, þeir styðja Ísraelsmenn eindregið. Þó er dálítill klofningur kominn upp meðal fylgismanna forsetans, því sumum finnst hann ekki ganga nógu langt. Hann hefur lýst yfir áhyggjum af örlögum manna á Gaza-svæðinu, eins og Bandaríkjamenn reyndar líka, og Frakkar greiddu atkvæði með hinni margumræddu tillögu þess efnis á allsherjrþingi Sameinuðu þjóðanna, en þetta finnst sumum ekki rétt, mannfall óbreyttra borgara sé óhjákvæmilegur þáttur styrjalda, semsé „oft verður slíkt á sæ“. Frakkar ættu því að styðja Ísraelsmenn skilyrðislaust. En þessi klofniningur virðist ekki rista djúpt.
Yst til hægri, þar sem gyðingahatur gróf um sig áður fyrr hefur orðið undarleg kúvending. Gamli Le Pen var gyðingahatari af gamla skólanum, hann réð ekkert við það, og braust það stundum fram á vörum hans í miður heppilegum orðaleikjum eða kringilyrðum. Á þeim tíma voru flokksmenn hans margir afvelta sauðir sem söknuðu Vichy-stjórnarinnar, leppstjórnar Þjóðverja á stríðsárunum sem fór jafnvel fram úr þeim í gyðingaofsóknum. Orð foringjans voru þeim að skapi. En þegar dóttir hans Marine le Pen tók við flokknum var það hennar helsta markmið að ná þeim stimpli af flokknum að hann væri einungis öfgaflokkur, allra lengst til hægri. Hún breytti nafni flokksins, rak föður sinn háaldraðan úr honum, og leitaðist þó ekki síst við að þvo af honum gyðingahatrið. Fjölmiðlar orðuðu þessa stefnu svo að hún væri að reyna að „afdjöfla“ flokkinn, og veltu því fyrir sér hvort þetta væri að takast. Þess vegna er hún nú allra manna ólíklegust nú til að fara að gagnrýna aðgerðir Ísraelsmanna, hún styður þá í einu og öllu.
En nú er mættur á sviðið annar flokkur, mjög lítill að vísu, sem er mun lengra til hægri en flokkur Marine le Pen og líkur því sem sá flokkur var í byrjun. Það er flokkur Erics Zemmour, - ein stjarna hans er reyndar Marion Maréchal, dótturdóttir gamla le Pen (og því systurdóttir Marine le Pen, þeim frænkum kemur illa saman). Með því einu að vera til hefur flokkurinn mjög hjálpað Marine að afdjöfla sinn eiginn flokk. En nú vill svo til að Eric Zemmour er sjálfur gyðingur af Berberaættum og praktiserandi að auki, á það leggur hann enga dul. Það kemur nánast af sjálfu sér að hann styður Ísraelsmenn og hefur hann sést á útifundum stuðningsmanna þeirra.
En á vinstri væng stjórnmálanna horfir öðruvísi við. Helsta, og jafnvel eina, stjórnmálaaflið þar er kosningabandalagið sem gengur undir skammstöfuninni „Nupes“ – fáránlegu nafni sem enginn veit hvernig á að bera fram – og hefur innan sinna vébanda sósíalistaflokkinn, kommúnistaflokkinn, eða það sem er eftir af þeim báðum, umhverfisverndarsinna og svo „La France insoumise“, „Frakkland óbugaða“, flokk Melanchons, sem er stærsti flokkurinn í þessu bandalagi. Melanchon þykir gjarnan nokkuð stóryrtur, og þegar illdeilurnar hófust fordæmdi hann aðgerðir Hamas og kallaði þær „stríðsglæpi“, en hann vildi ekki skilgreina Hamas sem „hryðjuverkasamtök“. Hann virtist líta svo á að þarna væri komin „styrjöld“ í hefðbundnum skilningi þess orðs og með því að kalla annan aðilann hryðjuverkamenn“ væri verið að breiða yfir það.
Það varð uppi fótur og fit, ýmsir flokksmenn voru á sama máli og Melanchon og létu það í ljós, en aðrir risu upp og fordæmdu hann hörðustu orðum, einkum sósíalistar og kommúnistar, hann væri að „verja hryðjuverk“. Vinstri menn hafa löngum verið klofnir milli þeirra sem styðja Ísraelsmenn vegna rótgróinnar andúðar á Gyðingahatri og þeirra sem styðja Palestínumenn vegna þess að þeim finnst landnám gyðinga í Palestínu bera keim af nýlendustefnu. En nú blossaði þessi klofningur heiftarlega upp. Sósíalistum og kommúnistum gekk þó fleira til. Vegna kosningabandalagsins Nupes fengu þeir mun fleiri þingmenn í síðustu kosningum en þeir hefðu annars fengið, þeir risu upp úr því að vera nánast ekkert í það að vera eitthvað, þeir þöndu brjóstkassann og vildu fara að spila upp á eigin spýtur. Það fólst í því, að þeirra dómi, að losa sig við kosningabandalagið, en þó fyrst og fremst losa sig við Melanchon, sem skyggir á aðra stjórnmálaleiðtoga. Nú var komið tækifæri. Deilurnar hafa magnast og segja margir fréttaskýrendur að Nupes sé dautt, einungis greftrunin eftir. Í Frakklandi verður þá afleiðingin af hryllingnum fyrir botni Miðjarðarhafs sú að gera vinstri menn enn einu sinni áhrifalausa og ekki á neinn hátt í stakk búna til að taka við af þeirri ríkisstjórn sem nú verður sífellt óvinsælli. Eini kosturinn sem eftir er fyrir kjósendur sem vilja núverandi stjórnvöld burt er þá Marine le Pen sem baðar sig í meydómi afdjöflunarinnar.
Stjórnarsinnar voru ekki seinir að grípa tækifærið, þeir kenndu yfirlýsingar Melanchons og annarra sem voru sama sinnis við „gyðingahatur“ og ásökuðu þá um ganga til stuðnings við hryðjuverkamenn. Nú varðar við lög í Frakklandi að bera blak af hryðjuverkum, og því var haft á orði að það ætti að draga ýmsa þessa menn fyrir dóm. En úr því hefur ekkert orðið. Darmanin innanríkisráðherra (sem stefnir nú leynt og ljóst að því að bjóða sig fram í næstu forsetakosningum) lét eigi að síður mikið til sín taka og sendi sýslumönnum bréf þar sem hann fyrirskipaði þeim að banna alla fundi og göngur til stuðnings við Palestínumenn. Þetta var strax kært til stjórnlagadómstólsins sem fer með æðsta vald í slíkum málum. Það úrskurðaði að innanríkisráðherrann hefði ekkert vald til að gefa slík almenn fyrirmæli, valdið væri í höndum sýslumanna og þeirra einna, skyldu þeir vega og meta stöðuna hverju sinni og banna eða leyfa eftir því.
Þegar boðað var til fundar til stuðnings við Palestínumenn voru þeir því yfirleitt leyfðir, þeir voru fjölmennir og fóru friðsamlega fram. Aðeins í París var einn fundur bannaður, en það var af því að á sama tíma fór fram rugby-keppni, og hafði sýslumaðurinn að því er virtist ekki nógu margar löggur í hvort tveggja. Fundurinn var eigi að síður haldinn og fór friðsamlega fram.
En yfirvöld eru sífellt á varðbergi. Verslun nokkur bar heitið „Chamas“ og var það nafn letrað með neonljósum. En svo varð einhver bilun og fyrsti stafurinn „C“ hvarf. Ekki leið þá á löngu áður en lögreglan var mætt og heimtaði að staðnum skyldi lokað.
Talað er um að gyðingahatur fari nú í aukana í Frakklandi, en það birtist mest í afdönkuðum vígorðum krotuðum á veggi, sem virðast einna helst vera verk einhverra rugludalla sem alls staðar eru til. Engar raddir taka undir slíkt opinberlega, en það skorti ekki áður fyrr þegar gyðingahatur var og hét.
Blöð birta nú ítarlegar fréttir af atburðum á Gaza-svæðinu og vesturbakka Jórdan-ár, ekki síst með viðtölum við Palestínumenn á báðum stöðum og svo ljósmyndum af afleiðingum loftárásanna. Þar kemur einnig fram hörð gagnrýni á stjórnmálamenn í Ísrael og um víða veröld fyrir að hafa vanrækt með öllu að leita að lausnum á vandamálinu, og ímynda sér að það væri úr sögunni þegar það var ekki lengur í fréttum. Sérstaklega fær Netanyahu á baukinn, en líka Bandaríkjamenn. Nú eru kannske breyttir tíma, og gæti það verið til marks um það að orðið „nakba“ er komið inn í mál blaðamanna, en það er orðið sem Palestínumenn nota um þá atburði 1948, þegar um það bil 700.000 Palestínumenn voru hraktir burt frá heimilum sínum í útlegð. Hingað til hafði það lítið heyrst í máli annarra. En svo er nú að sjá að samúð almennings sé að talsverðu leyti snúast á sveif með Palestínumönnum.
Athugasemdir (1)