Þegar Karlakór KFUM á Íslandi heimsótti slóðir séra Friðriks Friðrikssonar, stofnanda félagsins á Íslandi árið 2016, fréttu meðlimir kórsins hjá dönskum presti að náinn vinur Friðriks og forvígismaður samtakanna í Danmörku, Olfert Ricard, hefði verið barnaníðingur. Friðrik og Olfert Ricard voru nánir vinir og kynnti sá síðarnefndi Íslendinginn fyrir starfsemi KFUM í Danmörku á tíunda áratug 19. aldar.
„Ég hafði fundið mitt konungsríki“
Frá þessu er greint í bók Guðmundar Magnússonar um séra Friðrik Friðriksson og bætast þessar uppýsingar við það sem fram kemur í bókinni um barnagirnd séra Friðriks sjálfs. Líkt og gildir um Friðrik Friðriksson í Reykjavík þá er einnig stytta af Olfert Ricard í Kaupmannahöfn og hefur fortíð hans aldrei verið gerð upp þar í landi.
„Misnotaði drengi“
Upplýsingar um barnaníð Olferts Ricards koma fram í kafla í bók Guðmundar um vináttusamband þeirra Friðriks Friðrikssonar og segir þar í lokin frá heimsókn kórs KFUM á Íslandi til Danmerkur fyrir einungis sjö árum síðan.
Um heimsóknina segir í bókinni: „Vorið 2016 heimsækir karlakór KFUM á Íslandi [...] slóðir Friðriks Friðrikssonar í Kaupmannahöfn og er þá meðal annars komið við í Garnisonkirkju þar sem Olfert Ricard gegndi prestsembætti frá 1915 til dauðadags 1929. Mörgum er vafalaust brugðið þegar sóknarpresturinn, séra Claus Oldenburg, segir hreinskilninislega frá því að Ricard hafi misnotað drengi. Hann útskýrir þetta ekki frekar og minnist ekki á hvaðan hann hafi þessar upplýsingar. Þegar bókarhöfundur leitar staðfestingar á þessu segir séra Oldenburg að kynhneigð Ricards hafi verið opinbert leyndarmál meðal kirkjunnar manna í Danmörku meðan hann var enn á lífi. Heimildarmaður sinn, nú látinn, hafi sagt sér að afi sinn hafi aðstoðað Ricard við að finna piltana. Hann hafi notfært sér unglingspilta sem stunduðu með leynd vændi á opinberum stöðum. Danir tala um „trækkerdrenge“ í því sambandi.“
Eitt af því sem er áhugavert við umfjöllun Guðmundar um Olfert Ricard er að þessar upplýsingar hafa verið það sem hann kallar „opinbert leyndarmál“ í Danmörku líkt og upplýsingarnar um barnagirnd séra Friðriks.
KFUM og Olfert voru tímamót í lífi Friðriks
Í bók Guðmundar er rakið hvernig kynni Friðriks Friðrikssonar af KFUM og Olfert Ricard ollu straumhvörfum í lífi hans. Í köflunum á undan greinir Guðmundur frá því hvernig Friðrik byrjar að laðast að drengjum, bæði á Íslandi og í Danmörku og segir hann meðal annars frá „ástarbréfum“ hans til Eggerts Claessens sem var áratug yngri en hann. Hann kynnist unglingsdrengjum í Danmörku og „hrifningin leynir sér ekki“ og hann vill „eignast þá að vinum“ eins og það er orðað.
Uppbyggingin í bókinni er þannig að þetta er saga manns sem á í innri baráttu; Friðrik er að takast á við og átta sig á kenndum sínum og tilfinningum.
Svo kynnist hann starfi KFUM og Olfert Ricard. „Þegar Friðrik gengur heim alelda eftir að hafa kynnst unglingadeild KFUM í kjallaranum í Bethesda-samkomuhúsinu í Kaupmannahöfn 6. janúar 1895, veit hann ekki að þetta kvöld hafa einnig orðið önnur tímamót í lífi hans. Hann hefur í fyrsta sinn hitt Olfert Ricard, nýútskrifaðan guðfræðing, sem starfað hefur í unglingadeildinni um þriggja ára skeið.“
Friðrik átti síðar eftir að segja frá því að enginn sem hann kynntist á lífsleiðinni hafi verið eins líkur honum og Olfert Ricard og að þeir hafi í reynd verið eins konar sálufélagar: „Enginn af öllum þeim, sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, hefur verið mér „ut alter ego“ (sem annar ég) eins og hann,“ skrifar hann í endurminningum sínum.
Sjálfur átti Olfert Ricard einnig eftir að segja frá því að kynni hans af KFUM og drengjunum sem tóku þátt í starfi samtakanna hafi verið honum opinberun en hann stundaði það að fá strákana heim til sín að „spjalla“ eins og það orðað í bókinni: „Ég hafði fundið mitt konungsríki“ sagði hann um þátttökuna í starfinu.
Fyrirrennari Olferts Ricards dæmdur fyrir barnaníð
En áður en KFUM varð að konungsríki Olferts Ricards þá þurfti þáverandi leiðtogi hreyfingarinnar, Axel Jørgensen, að víkja. Axel þessi var besti vinur Olferts Ricards og olli það honum hugarangri af því hann vildi losna við Axel úr samtökunum svo hann gæti sjálfur stjórnað þeim. Þetta gerðist svo með þeim hætti að árið 1894 var Axel sakaður um kynferðisbrot gegn drengjunum í unglingadeild KFUM í Kaupmannahöfn og var hann kærður fyrir þetta. Guðmundur segir í bókinni að fram að þessu hafði margoft verið kvartað undan hegðun Axels Jørgensens.
Hann þurfti í kjölfarið að hætta að starfa innan KFUM og Olfert Ricard tók við. Guðmundur segir í bókinni að Friðrik Friðriksson hafi notið þessara tengsla við Olfert Ricard mjög því þeir voru svo góðir vinir. Í kjölfarið á þessu verður Olfert Ricard ein þekktasta persónan í trúarlífi Dana og bækur hans ná metsölu.
Axel Jørgensen reyndi að ná tökum á kenndum sínum í garð drengja og lagðist meðal annars inn á geðsjúkrahús í því skyni. Hann átti síðar eftir að verða dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum drengjum. Þetta var árið 1930. Hann hafði þá stundað það að bjóða skóladrengjum á aldrinum 12 til 15 ára heim til sín. Axel Jørgenson reyndi þá að flýja land en var handtekinn og í undirrétti var hann dæmdur í 120 daga fangelsi. Dómurinn yfir honum var þyngdur í átta mánuði á efri dómstigum en í Hæstarétti Danmerkur var ákveðið að hann skyldi fá að afplána dóminn á geðsjúkrahúsi.
Þegar séra Friðrik talaði um Axel Jørgensen síðar á lífsleiðinni „treysti hann sér ekki“ til að segja alla söguna um kynferðisbrot hans, eins og Guðmundur orðar það í bókinni. Í staðinn lýsti hann stöðunni sem kom upp í starfi KFUM í Köben árið 1894 þannig að djöfullinn hafi tekist á við hið góða. Í ræðu í tilefni af 25 ára afmælis KFUM í Kaupmannahöfn árið 1903 sagði hann: „En eins og vant er að vera, þegar einhvers staðar lifnar í guðsríki, þá verður djöfullinn hamslaus og hefur allar klær til að hefta framrás hins góða; svo var það og í þetta sinn, því hann gekk um kring og sáði illgresi í þennan guðs akur […]“
Þannig átti séra Friðrik þátt í því að hylma yfir með fortíð KFUM í Kaupmannahöfn og því sem gekk á þar, jafnvel þó mál Axels Jørgensens hafi verið hálfopinbert þar í landi á þessum tíma. Enn síður sagði hann neitt um hegðun og kenndir sálufélaga síns, Olferts Ricards.
Athugasemdir