Styttur bæjarins eru fortíðartákn. Þær eru skurðgoðadýrkun hvers tíma og leið til að holdgera stöðugleikann sem við þráum svo heitt í ringulreið augnabliksins.
,,Látum stytturnar vera, reisum ekki fleiri og horfum fram á við. Gerum heldur leikvelli og sköpum samverurými fyrir manneskjur. Stytturnar tilheyra bara sögunni,“ sagði karl á samfélagsmiðlum. Það er stóra myndin hans og nóg að hætta að gera styttur og setja upp leiktæki í staðinn. Og það er frábær hugmynd! Ég var alveg sammála! En svo var ég það ekki.
Stóra myndin horfir talsvert öðruvísi við mér. Af því að ég ólst upp með styttum bæjarins sem lítil stúlka og svo sem kona, sem mamma og sem amma. Ólafur Thors var fyrir utan leikskólann minn í æsku og er þar enn. Kallar eiga heiminn, litla stelpa, hvíslar hann málmkaldri röddu að kynslóðunum sem ganga hjá. Jón Sigurðsson rymur á Austurvelli: Litla mín, þetta er karlaheimur. Mundu það. Var, er og verður. Og fýldur Kristján Danakóngur við stjórnarráðið minnir á karlaveldið að eilífu amen. Hann segir: Svona var þetta og svona er þetta. Ekki skrifa söguna upp á nýtt. Vesgú, og hér er gömul stjórnarskrá.
Þeir senda allir ísköld skilaboð, þessir styttukallar. Þeir Skúli fógeti, Jón Vídalín, Hannes Hafstein, Ingólfur og Leifur, útlaginn og allir hinir standa þarna svo ofurstórir og meitlaðir í steina og málma svo við munum að dýrka og virða patríarkíið, feðraveldið eða karlaveldið eða hvað svo sem er leyfilegt eða pólitískt rétt að kalla fyrirbærið svo enginn móðgist.
Og ætli þeir verði ekki þarna að eilífu, meitlaðir í stein.
Tómas og Svava
Fyrir einhverjum árum sendu nokkrar skáldkonur formlegt erindi til borgarstjórnar í Reykjavík. Þær lögðu til að gerð yrði stytta af Svövu Jakobsdóttur og hún látin sitja á bekk við Tjörnina svo hægt væri að tylla sér hjá henni. Tillagan var gripin á lofti og skömmu síðar var komin stytta á bekk við Tjörnina. Að vísu var það Tómas Guðmundsson en ekki Svava.
Það eru örfáar kvenfyrirmyndir meitlaðar í stein í borginni. Ingibjörgu alþingiskonu var snarað upp fyrir ekki svo löngu utan við þinghúsið og svo má finna eitthvað smálegt á rölti um bæinn. Svona er ekki bara Íslandssagan. Þetta er auðvitað veraldarsagan.
Yfir fimmtán hundruð styttur og minnisvarðar eru í Lundúnaborg en aðeins fimmtíu þeirra eru af nafngreindum konum á meðan nærri hundrað eru af dýrum.
Og ef til vill er þetta ómerkilegt tildur, tíska liðinnar aldar og persónudýrkun sem við ættum að yfirgefa. En á meðan stytturnar standa á sínum stöðum og í sínu gamla samhengi þá höldum við áfram að senda kynslóðunum skilaboðin stóru um karlaveldið sem stendur eins og norðurstranda stuðlaberg. Styttukarlarnir segja við framtíðarfólkið: Velkomin í karlaheiminn, við héldum, höldum og munum halda á valdinu.
Kallastyttugarður
Kannski fór ég að velta þessu styttumáli aftur fyrir mér út af séra Friðriki sem sagði svo átakanlega orðrétt: ,,Mér þykir ákaflega gaman ævinlega að sjá börn, bæði drengi og stúlkur, en mest drengi náttúrlega.“ Og styttan af þessum manni í Lækjargötu með litla drengnum varð ógnandi og óhugnanleg. Sögurnar um prestinn eru svo sem ekki nýjar. Þær hafa verið hvíslaðar í gegnum tíðina. Og það á að leiðrétta söguna þegar það er hægt, ekki síst ef það má verða til þess að lina sársauka. Þannig má gera ráð fyrir að það þurfi að fjarlægja Friðrik og litla drenginn, eða kannski bara Friðrik. Stóra réttlætið væri ef til vill að aðskilja drenginn og karlinn. Það væri táknrænn gjörningur og jafnvel samfélagslega heilandi.
En víkjum aftur að öllum hinum kallastyttunum. Þær skipta máli í stóra samhenginu. Það er svo sannarlega líka hægt að leiðrétta hinn almenna og karllæga styttuboðskap sem liggur í loftinu um alla höfuðborg og víðar. Það væri hægt að endurskilgreina skilaboðin og deyfa stórlega þennan aldagamla karlahroka sem býr í öllum kallastyttunum. Það væri hægt með því að breyta samhenginu, án þess að kosta miklu til og án þess að gera lítið úr afrekum karlanna og verkum þeirra listamanna sem gerðu þá ódauðlega.
„Þannig má gera ráð fyrir að það þurfi að fjarlægja Friðrik og litla drenginn, eða kannski bara Friðrik. Stóra réttlætið væri ef til vill að aðskilja drenginn og karlinn.“
Með því að flytja alla eða langflesta styttukallana á einn stað í bænum og útbúa sérstakan kallastyttugarð væri þeim gert afar hátt undir stalli um leið og sagan væri sett í annað og stærra samhengi. Þá væri líka orðinn til glænýr áfangastaður fyrir ferðamenn og spennandi útikallastyttusafn – kyrrðarstaður með köllunum. Og börnin okkar fengju sterk skilaboð um jafnrétti, mildi og manngildi í útilistaverkum á almannafæri.
Stóra leitin er alltaf að umburðarlyndi og víðsýni. Það er leit sem fer fram á heimsvísu, alltaf. Umburðarlyndið býr alls ekki í styttuköllunum eins og þeir dreifa sér markvisst um bæinn í dag. En þar býr hins vegar stór og mikilvæg kvennabarátta og við þurfum að flytja stytturnar. Það væri mjög stórt skref. Ég hlustaði á karl hrútskýra fyrir konum umhverfismál og alls konar í Vikulokunum á RÚV um helgina. Hann notaði þráfalt orðin: Ég skal setja þetta í samhengi. Þið þurfið að skilja samhengið.
Dónar á Arnarhóli
Og ég hef einmitt verið að velta fyrir mér stóra samhenginu, í tengslum við stytturnar. Ég hef verið að hugsa um jafnrétti, litlar stelpur og litla stráka, alla liti mannlífsins, mig og mömmu og stelpurnar mínar, karlana okkar og svo allar þessar styttur. Og ekki síst í samhengi við hrópin okkar á Arnarhóli um fokkings feðraveldið, hrópin sem fóru svo gasalega fyrir brjóstið á mörgum köllum og líka konum – svo því sé haldið til haga. Fokk feðraveldið! hrópaði ég með áttatíu og átta ára gamalli móður minni og mínum dásamlegu dætrum. Fokk feðraveldið! öskruðum við svo frelsandi á Arnarhóli, undir styttunni af honum Ingólfi. Daginn eftir las ég svo að þessi hróp okkar hefðu sjokkerað fólk sem hefði jafnvel ákveðið að sitja heima frekar en að vera á sama stað og dónalegar kerlingar að æpa ljóta orðið fokk og mögulega líka mislukkaða þýðingu á orðinu patriarchy.
Já, það var það sem sat eftir þegar þessum risastóra mannréttindafundi lauk á Arnarhóli. Það var það sem hópur fólks ákvað að taka með sér frá hundrað þúsund manna fundi á Arnarhóli. Ofsalega lélegt orðaval, dónaleg enskusletta og arfaslök þýðing á orðinu patriarchy. Fyrst skammaðist ég mín aðeins fyrir slæma orðfærið, hugsaði: já, fokk er auðvitað ferlega ruddalegt og feður eru langflestir alveg yndislegir. Hvað er að mér og þessum konum ... og mömmu! Við ættum að skammast okkar! En ég hafði varla sleppt hugsuninni þegar ég fann svo ofursterkt fyrir umburðarlyndi gagnvart sjálfri mér, mömmu, systrum, dætrum og manneskjum í mannréttindabaráttu. Og ég fann fyrir víðsýni og yfirsýn, samkennd og samhengi langt yfir kynslóðir og aldir og fann að fokk feðraveldið náði nákvæmlega utan um tilfinninguna.
Gaslýsingar og hrútskýringar
Fokk er bara fínt orð og allir, og þá meina ég allir, voru reglulega sáttir við það og töldu það heimsins bestu ástandslýsingu í hruninu þegar við sameinuðumst undir slagorðinu: Helvítis fokking fokk! Þá býsnuðust ekki móðgaðir karlar yfir orðbragðinu. Nei, allir sögðu: Það er einmitt svona sem okkur líður.
„Fokk feðraveldið var prýðileg lýsing á tilfinningalegu ástandi eitt hundrað þúsund manns á Arnarhóli um daginn“
Auk þess hefur orðið fokk, þegar það er ritað upp á íslensku, allt aðra, víðtækari og mildari merkingu en sambærilegt orð í enskum rithætti. Og ef við höldum okkur áfram á málfræðilegum nótum þá má geta þess að orðið feðraveldi hefur ekkert með einstaka feður og frammistöðu þeirra í því hlutverki að gera. Það er bein þýðing á orðinu patriarchy sem mætti líka lýsa sem karlaveldi en það er orkan sem keyrir enn þá áfram allar vélar veraldar.
Fokk feðraveldið var prýðileg lýsing á tilfinningalegu ástandi eitt hundrað þúsund manns á Arnarhóli um daginn og er prýðileg lýsing á líðan afar margra um víða veröld í dag. Fordæming á orðfæri fundarfólks á Arnarhóli er ekkert annað en gaslýsing og ömurleg hrútskýring og minnir óþægilega á aldagamla stemningu.
Og ef stóra samhengið er skoðað þá er morgunljóst að við þurfum nauðsynlega kallastyttugarð sem allra fyrst. Þessi garður mun kallast á við kirkjugarðana, vera minning um liðna tíð og tákn um umburðarlyndi og víðsýni inn í framtíðina. Kallastyttugarður Íslands mun líka senda sterk skilaboð út í heim og til allra okkar barna, kvenna og kvára um ný tækifæri og breyttan veruleika. Þá verður garðurinn líka dásamleg ferðamannagildra og okkur vantar alltaf meira svoleiðis. Þar gæti meira að segja verið kaffihús í anda styttukallanna.
Það þarf hugrekki til að gera byltingarkenndar breytingar og auðvitað líka umburðarlyndi, víðsýni og kærleika gagnvart öllum og ekki bara sumum.
Athugasemdir (2)