„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því [eru] umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“
Svo sagði í sáttmála fyrri ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem mynduð var í vetrarbyrjun 2017. Og til þess að „efla traust á stjórnmálum“ fann Katrín upp á því snjallræði að skipa nefnd. Nefndin var að vísu kölluð starfshópur af því Katrín eða PR-ráðgjafarnir sem hún reiðir sig svo mjög á höfðu tjáð henni að „nefndir“ væru orðnar um of tengdar orðinu „skúffu“ í vitund fólks.
En nefnd var þetta nú samt.
Og fólk var skipað í nefndina og hún tók til starfa eins og nefndir gjarnan gera.
Sérstaklega var tekið fram að nefndinni væri „falið að taka mið af starfi sem unnið hefur verið í tengslum við opinber heilindi hérlendis og erlendis, til dæmis væntanlegri fimmtu skýrslu GRECO [stofnun Evrópuráðsins gegn spillingu], sem fjallar meðal annars um vernd gegn spillingu meðal æðstu handhafa framkvæmdavalda“.
Leið nú og beið og eftir hálft ár gerðist hið ótrúlega.
Nefndin skilaði niðurstöðu!
Það gera sannarlega ekki allar nefndir eða starfshópar Katrínar Jakobsdóttur.
Enda var vissulega dugandi og heiðarlegt fólk í nefndinni, sannarlega. Jón Ólafsson heimspekingur var til dæmis formaður hennar og fleira gott fólk með honum.
Í niðurstöðu nefndarinnar, sem hún skilaði í byrjun september 2018, kenndi ýmissa grasa.
Þið getið lesið um það allt saman hér.
Í þeirri frétt Stundarinnar af tillögum nefndarinnar segir meðal annars:
„Mikil áhersla er lögð á að auka gagnsæi og tryggja gott aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum til að vinna upp traust, en skýrslan telur það hafa verið ábótavant á Íslandi. [...] Viðbrögð stjórnmálafólks við spurningum almennings og fjölmiðla hafa oft grafið undan trausti almennings að mati starfshópsins. Í skýrslunni er tekið fram að: „Leiðandi einstaklingar í stjórnmálum og stjórnsýslu geta ekki leyft sér að hrökkva í vörn þegar að þeim er sótt og þurfa að hafa í huga að viðbrögð þeirra eru fordæmisgefandi.““
Og svo:
„Í lok skýrslunnar er lagt til þess að stjórnvöld þurfi að móta með skýrari hætti: „þá stefnu sem þau vilja miðla til almennings um hvernig tryggja megi að heilindi ríki í stjórnmálum og stjórnsýslu. Slík stefna er nauðsynlegt skilyrði þess að traust geti ríkt á milli stjórnvalda og almennings.“ Tryggja þarf sterkara eftirlit, eftirfylgni, og ráðgjöf.“
Til að tryggja þetta lagði nefndin til að ráðið yrði sérstakt starfsfólk til forsætisráðuneytisins „sem hefur kunnáttu og faglega þekkingu til að veita sérhæfða ráðgjöf um heilindaramma og um siðferðileg álitamál“.
Eða þá að „stjórnvöld geri samning við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands til þriggja til fimm ára eða lengur til að veita stjórnvöldum ráðgjöf í úrlausn siðferðilegra álitamála, og „efla gagnrýna umræðu um siðferði í stjórnmálum og stjórnsýslu.““
Nú. Hefur ríkisstjórn Katrínar og Bjarna (og Sigurðar Inga, já) farið eftir þessum ráðleggingum nefndarinnar?
Onei.
Ekkert vantar að vísu upp á að starfsfólk hafi verið ráðið til forsætisráðuneytisins.
Nóg af því.
En bara ekki fólk „sem hefur kunnáttu og faglega þekkingu til að veita sérhæfða ráðgjöf um [...] siðferðileg álitamál“.
Ekkert svoleiðis starfsfólk, nei, óvart ekki.
Og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands? Nei, hún hefur ekki verið virkjuð til að „veita stjórnvöldum ráðgjöf í úrlausn siðferðilegra álitamála“.
Ríkisstjórn Katrínar og Bjarna (og Sigurðar Inga) telur nefnilega að þær þröngu klíkur sem ráða Sjálfstæðisflokknum og VG (og já, Framsóknarflokknum) viti miklu meira en sérhæft fólk eða Siðfræðistofnun um siðferðileg álitamál.
Þar vita menn að siðferðileg álitamál eru afstæð og fara eftir því hverjir sitja í ríkisstjórn hverju sinni.
Sem sagt, Sjálfstæðisflokkurinn eða VG (og já alveg rétt, Framsóknarflokkurinn).
Svo álit þessarar góðu nefndar fór að mestu oní skúffuna stóru þar sem öll hin nefndarálitin safna ryki. Eitthvað var farið eftir tillögum um hagsmunaskráningu, minnir mig, en að öðru leyti var ekkert með þetta gert.
Og ríkisstjórnin hefur því ein og óstudd séð um það að „efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu“ allt frá 2017.
Með þeim glæsilegu afleiðingum sem við sáum meðal annars í Íslandsbankasölunni sem var aldeilis þörf lexía fyrir okkur um umbætur „í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana“.
Var það ekki?
Og nú er ríkisstjórnin að veita okkur enn eina kennslustundina í því „hvernig tryggja megi að heilindi ríki í stjórnmálum“.
Bjarni Benediktsson fær loks svo mikla skömm í hattinn fyrir þátt sinn í Íslandsbankasölunni að hann getur ekki vel setið áfram í embætti fjármálaráðherra og þykist því segja af sér.
Og þiggur nokkur húrrahróp frá bjánum eins og mér sem héldu stundarkorn að þetta væri til marks um nokkra siðbót í íslenskum stjórnmálum.
Að ráðherra viðurkenndi afglöp sín og færi tiltölulega hljóðalaust.
En nei. Þetta reyndist vera blöff.
Bjarni ætlar bara að skipta um ráðherraembætti. Fara í utanríkisráðuneytið þangað sem hann ætlaði hvort sem er.
Afglöp hans höfðu þá engar afleiðingar.
Það var sorgleg sjón að sjá þingmenn ríkisstjórnarflokkanna marsera hvern af öðrum í ræðustól á Alþingi og ekki bara bera í bætifláka fyrir siðlausa hegðun forkólfa ríkisstjórnarinnar, heldur þvert á móti lofa og prísa Bjarna fyrir blekkingarnar.
Fólk sem áreiðanlega er persónulega stálheiðarlegt og myndi aldrei líða börnunun sínum svona siðlausan lygaþvætting eins og hér er boðið upp á.
En fyrst fólk þetta er í pólitík, þá má bersýnilega hafa almenning að fífli.
Þá þarf ekki að huga að „siðferðilegum álitamálum“.
Og Katrín sem ætlaði að „efla traust á stjórnmálum“, hún er bara hress með þetta.
Svo til í þetta!
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut
í ríkisbanka.
Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.
Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
"Ef þetta er fjármálaráðherrann þeirra, hvernig eru þá hinir ?"
*************************************************************************
Haldið áfram að velja einhvern verðugan málsvara í kosningum
Samþykkt valkerfið kerfið og valið einhvern sem við treystum.
Skilað auðu
Samþykkt að kerfið er nothæft en enginn er verðugur þess að verða málsvari.
Eða hætt að taka þátt
Kerfið fær ekki atkvæði er talið ónýtt , enginn verðugur málsvari