Hversu oft hugsar þú um kúk? Þar til nýlega hélt ég að allir, eins og ég, hugsuðu daglega um hægðir sínar og hvernig þær væru frá degi til dags. Það er kannski tabú fyrir suma að tala um það en ekki að hugsa um kúk í sínu daglega lífi.
Nýlega hrundi þessi heimsmynd mín. Fjölskyldan sat við matarborðið og við systurnar vorum að tala um hvernig hægðirnar okkar hafa verið upp á síðkastið, og eins og venjulega mótmælti mamma umræðuefninu, í það minnsta yfir kvöldmatnum.Við útskýrðum að augljóslega væri ekki hægt að banna eða ritskoða eitthvað sem spilar svona stórt hlutverk í okkar daglega lífi.
Mamma tengdi ekki og eftir svolitla umhugsun kvaðst hún hreinlega aldrei spá neitt í hægðum, frekar en pissi eða hvernig maður fer í sokka. „Ég er kannski bara með svona fullkomnar hægðir að þetta skiptir mig ekki máli,“ sagði hún svo.
Mig rak í rogastans, spái ég svona mikið í hægðir mínar vegna þess hve ófullkomnar þær eru? Myndi ég aldrei hugsa eða tala um kúk ef ég væri með eins hægðir og mamma? Eru allar mömmur svona eða bara mín?
Niðursokkin í þessar hugsanir heyrði ég að stjúppabbi minn var að reyna að létta andrúmsloftið með fróðleiksmola úr tímaritinu Nýjustu tækni og vísindum. Að í Bandaríkjunum væru stundaðar meltingarrannsóknir sem lofuðu góðu. Þar væru góðar þarmaflórur kynntar fyrir slæmu þarmaumhverfi með því að nota saur úr fólki með heilbrigt meltingarkerfi og lána fólki í meltingarvandræðum, í töfluformi.
„Þannig fólk er að borða kúk?“ spurði yngsta systir mín tortryggin. Stjúpi minn jánkaði því.
Ég velti fyrir mér hvers virði það er að þurfa aldrei aftur að hugsa um hægðir? Leið eins og ég væri Neó í Matrix andspænis Morpheusi og þessari litlu pillu.
Athugasemdir (1)