Eftir að ríkissjóður eignaðist hlut sveitarfélaganna á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða fyrir 20 árum þótti nokkuð auðsætt að fyrirtækið yrði fyrr eða síðar sameinað Rafmagnsveitum ríkisins. Ríkið átti 40 prósenta hlut á móti sveitarfélögunum frá stofnun Orkubúsins árið 1977. Sveitarfélögin á Vestfjörðum voru komin í miklar skuldir við Íbúðalánasjóð þegar kom fram undir síðustu aldamót og var sú skuld jöfnuð með því að Orkubúið var notað sem gjaldmiðill og varð þá algjörlega í eigu ríkisins.
Hinum almenni Vestfirðingi finnst augljóst að Orkubúið hljóti að vera í eigu Vestfirðinga enda enginn að velta því fyrir sér í dagsins önn svo framarlega sem eitthvert rafmagn eða vatn kemur úr leiðslunum. En Vestfirðingar eiga ekki krónu í Orkubúinu eftir að það var tekið upp í ,,óreiðuskuldir“ Vestfirðinga svo nálgast sé þekkt orðalag seðlabankastjóra í hruninu.
Bitlingarnir heilla
Nú 20 árum eftir ,,söluna“ á hlut Vestfirðinga í orkufyrirtæki þeirra hefur ekkert breyst varðandi stjórn þess. Þar trónir enn ríkisforstjóri á launum ríkisforstjóra eins og ekkert hafi í skorist og framkvæmdastjórar starfa þar áfram með bærilegum launum framkvæmdastjóra hjá ríkinu. Fimm manna stjórn þarf að vera svo allt sé löglegt og hafa nokkrir Vestfirðinga það að bitlingi. Formaður stjórnar er nú fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem enn hefur tengsl við fjórðunginn, skipaður af fjármálaráðherra.
Sveitarfélögin tilnefna ekki fulltrúa í stjórn Orkubúsins enda hafa þau ekkert með fyrirtækið að gera. Virðast þeir bitlingar vera ráðnir með símtölum eða öðrum ókunnum samskiptaleiðum þegar farið er að skyggja. Reyndar hafa mikilvægari ráðningar farið fram gegnum símtól eins og þegar núverandi ríkisforstjóri Orkubúsins var ráðinn árið 2016.
Ríkisendurskoðun gerði á sínum tíma alvarlegar athugasemdir við þann gjörning í skýrslu til alþingis en við engu var hróflað. Gekk maður undir manns hönd í tilheyrandi ráðuneyti og einnig á Vesturvígstöðvunum að ráða mann í réttum lit en jafnhæfur maður sem sótti um reyndist vera í sauðalitunum.
Ekki er gott að segja með hvaða hætti ráðgjarfafyrirtækið Deloitte hf var beðið um að kanna hagræðingu og sparnað fyrir ríkið og þá almenning í landinu að sameina orkufyrirtæki í eigu ríkisins Rafmagnsveitum ríkisins. Niðurstöðum var skilað og þótti einsýnt og upplagt að byrja á því að sameina Orkubú Vestfjarða Rafmagnsveitunum. Ekki voru settar fram opinberlega neinar tölur um svokölluð samlegðaráhrif. Heilskyggn maður sér þó strax að fækka mætti um að minnsta kosti einn ríkisforstjóra og framkvæmdastjóra einhverja svo og bitlingaliðið í stjórninni.
Dýr yfirbygging
Líklega er erfitt að gefa út einhverja allsherjarformúlu um ágóðann af samlegðaráhrifum við hinar ólíku aðstæður. Hann hlýtur þó að vera umtalsverður úr því að þetta er lagt til. Það bólar hins vegar ekkert á tilburðum til sameiningar. Í ársreikningi Orkubús Vestfjarða fyrir árið 2022 kemur fram að laun stjórnar, laun ríkisforstjórans og kaup þriggja framkvæmdastjóra nemur tæplega 92 milljónum á ári.
Þá er ekki reiknað með risnu og bílastyrk sem var 35 milljónir árið 2022. Því mætti auðveldlega miða við 100 milljónir á ári Hægt er svo að geta sér til um að sparnaður af sameiningu velti á hundruðum milljóna á ári hverju. Það fé væri ef till vill betur komið í lægri orkureikningum eða framkvæmdum á Vestfjörðum til að tryggja öruggari orku sem enn vantar mikið upp á í dreifðum byggðum. Þá mundu rekstarmenn líklega reka augun í þá miklu yfirbyggingu sem ekki stærra fyrirtæki burðast með í sjöþúsund manna byggð.
Höfundur er fréttamaður og rithöfundur
Athugasemdir (2)