„Ég ákvað að koma fram undir nafni og mynd og segja hvernig þetta var,“ segir Veiga Grétarsdóttir Sulebust sem vill leiðrétta lygasögu sem hefur verið í umræðunni undanfarna daga. Sagan snýst um að karlmaður með typpi hafi farið í kvennaklefann í Grafarvogslaug á dögunum, undir því yfirskini að hann skilgreindi sig sem konu, og stúlkum í skólasundi hafi verið brugðið. En það er ekki alveg það sem gerðist. „Þetta er uppspuni, lygi. Þetta er byggt á hatri, engu öðru,“ segir Veiga sem segir hér frá því sem átti sér stað á þriðjudaginn í síðustu viku.
Veiga er ein þekktasta trans kona landsins. Hún varð þjóðþekkt eftir um hana var gerð heimildamynd þegar hún réri á kajak rangsælis um Ísland - „Á móti straumnum“ - en samtímis var sagt frá kynleiðréttingarferlinu sem hún fór í 2015-16. Hún hefur einnig vakið athygli fyrir baráttu sína gegn sjókvíaeldi og fyrir umhverfisvernd.
Þær eru margar, rangfærslurnar í orðrómnum, og vill Veiga koma nokkrum atriðum á hreint: „Þetta var ég. Ég er ekki með typpi, ég var ekki nakin og ég er ekki karlmaður.“
Fastagestur í Grafarvogslaug
Hún segist hafa stundað Grafarvogslaug árum saman. „Stundum er ég í pottinum að tala við karlmenn um laxeldi og pólitík. Yfirleitt fer ég snemma á morgnana og við erum þá saman ákveðinn konuhópur, konur á mínum aldri, um fertugt og líklega upp í 75 ára. Ég hef aldrei lent í vandræðum í sundi. Ég er bara hluti af þessum hópi. Við förum saman í pottinn og hjálpum hver annarri að laga sundbolinn á bakinu,“ segir hún.
En síðasti þriðjudagur var öðruvísi. Þegar hún fór upp úr pottinum og í sturtuklefann voru þar stelpur á leið í skólasund. „Sem hefur oft gerst áður og aldrei verið vandamál.“ Þarna tók hún eftir því að ein stelpan horfði mikið á hana „og glotti. Hún fattaði greinilega hver ég er. Ég hef verið áberandi í fjölmiðlum á undanförnum árum,“ segir hún. Stelpuhópurinn hafi síðan farið í laugina.
„Mér leið eins og ég væri sirkusdýr“
„Stuttu seinna kom hún aftur með vinkonu sína. Þær löbbuðu í gegn um sturturnar, hún glotti aftur en vinkonan var leitandi, horfði á alla í kring um sig. Þær töluðu eitthvað saman við handklæðarekkann og gengu síðan aftur framhjá mér en þá horfðu þær báðar á mig og glottu. Þær fóru aftur út en komu síðan aftur, fjórar eða fimm saman, og bæði glottu og hlógu að mér.“ Veiga segir það hafa verið afar óþægilegt að upplifa þetta: „Mér leið eins og ég væri sirkusdýr.“
Fullorðnar konur horfa líka
Veiga segist á þessum tímapunkti enn hafa verið í sundbolnum. „Ég sá hvað var í uppsiglingu og vissi ekki hversu alvarlegt þetta yrði þannig að ég ákvað að vera í sundbolnum til að leyfa þeim ekki að horfa meira á mig. Þær fóru svo aftur í laugina og ég þvæ mér og þurrka.“
Hún segist því miður vera vön augngotum í sturtuklefanum, þó hún líti út alveg eins og hinar konurnar, líklega því fólk þekki hana og viti því að hún sé trans kona. „Fullorðnar konur horfa oft á mig í sturtunni. Þær eru almennilegar og kurteisar en ég tek eftir því að þær gjóa augunum á klofið á mér. Líklega er þetta bara saklaus forvitni, þarna er komin trans manneskja sem var með typpi en er komin með píku. Ég hugsa að ef ég væri í þeirra sporum þá væri ég líka pínu forvitin. En þær sjá að þetta lítur ekkert öðruvísi út en hjá þeim. Ég reyni að taka þetta ekki inn á mig en auðvitað gerir maður það,“ segir hún.
Veiga var mjög hugsi eftir atvikið í sturtuklefanum á þriðjudag, og ákvað að tala við starfsfólk sundlaugarinnar og fá leyfi til að tala við sundkennara stelpnanna. „Ég sagði frá því sem hafði gerst og að mér fyndist þetta óviðeigandi hegðun. Hvort sem fólk er trans eða með stóma þá á ekki að vera labba framhjá því trekk í trekk og hlæja að því. Síðan fór ég bara heim og hélt að málinu væri lokið.“ En það var öðru nær.
Grein eftir grein með rangfærslum
Á sunnudag rakst hún á Facebookfærslu þar sem fullyrt var að karlmaður hafi farið í kvennaklefann í sundlauginni undir því yfirskini að hann skilgreindi sig sem konu, og þar misboðið sómakennd stúlkna í skólasundi. Í kommentum sá hún talað um að búið væri að gera frétt um málið. „Ég fór þá að leita. Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta hefði birst á Fréttin.is því enginn annar myndi skrifa svona, og þar sá ég þetta,“ en um er að ræða síðu sem Margrét Friðriksdóttir heldur úti.
Í greininni þar segir síðan að „samkvæmt reglum mannréttindarráðs, geta nú hverjir þeir sem skilgreina sig af öðru kyni þrátt fyrir að hafa ekki undirgengist neinar slíkar aðgerðir, notað klefa þess kyns sem það skilgreinir sig.“
Eva Hauksdóttir lögmaður skrifar síðan eina mest lesnu aðsendu greinina sem birtist á Vísir.is í gær þar sem hún gerir umfjöllunina á Fréttin.is að umtalsefni en Eva leggur þar út af því sem staðreynd væri að karlmaður hafi farið í kvennaklefann í sundlauginni, og það sé heimilt vegna laga um kynrænt sjálfræði.
Ýtt undir ranghugmyndir
Í sömu grein á Fréttin.is er síðan sagt frá því að þau hafi fjallað um það í sumar að nafngreind trans kona sæti sakamálarannsókn hjá lögreglu vegna misnotkunar og kynferðislegs áreitis í garð stúlkna og þroskaskertra kvenna.
Veigu misbýður ekki síst hvernig þetta allsendis ótengda efni, sem fjallar um allt aðra manneskju, er fléttað inn í umfjöllunina. „Það sem stuðar mig er þessi orðræða um að trans konur séu upp til hópa kynferðisbrotamenn og barnaníðingar. Þarna er verið að ýta undir slíkar hugmyndir,“ segir hún. Rangfærslur af þessum toga er hluti af því bakslagi sem nú á sér stað víða um heim þegar kemur að réttindabaráttu hinsegin fólks, ekki síst trans fólks.
„Þetta eru lygasögur“
Henni er mikið í mun að koma því á framfæri að þessi umfjöllun sé ekki byggð á staðreyndum. „Þetta eru lygasögur. Ég viðurkenni að ég talaði við kennarann en það var því stelpurnar voru að stara á mig og komu endurtekið inn í klefann til að hlæja að mér. Það er eitthvað sem ég sætti mig ekki við. Ég vil ekki láta koma svona fram við mig.“
Veiga segist hafa rætt þessa falsfrétt við vinkonu sína. „Ég spurði hana hvernig þetta væri ef ég væri ekki trans og við þekktum ekkert trans fólk, og við sæjum svona frétt. Ætli maður færi í sama pakka?“ spyr hún og leggur áherslu á hversu mikilvægt er að vera vakandi fyrir því að trúa ekki öllu sem maður les.
Það er nú samt fyndið að stofnandinn þykist vera sannkristin :-) :-) :-)